138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[19:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Þór Saari og styð beiðni hans eða hvatningu til hæstv. forseta að flytja umræður um stjórnlagaþingið til morguns. Það er einfaldlega enginn bragur á því. Ég trúi ekki að hæstv. forsætisráðherra, sem hefur lýst því yfir að þetta sé stóra forgangsmálið á lista ríkisstjórnarinnar, telji þetta vera rétta tímann til að ræða það mál. Við eigum enn þá eftir að fara yfir nokkur mál áður en að stjórnlagaþingi er komið. Við sjáum og þekkjum af reynslunni að bekkurinn er ekki þétt setinn á kvöldfundum og við stjórnarandstæðingar erum yfirleitt í meiri hluta. Því tek ég undir þessa beiðni og legg til að hún fái (Forseti hringir.) hljómgrunn hjá hæstv. forseta.