138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

happdrætti.

512. mál
[19:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru í upphafi tvö atriði í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals sem ég vildi bregðast við með nokkrum hætti. Annars vegar er auðvitað um það að ræða að frumvarpið felur auðvitað í sér afar þrönga og afmarkaða nálgun á það viðfangsefni sem happdrættismál almennt eru. Því þótti ekki tilefni til þess í allsherjarnefnd að fjalla um málið á jafnbreiðum og víðtækum grunni og hv. þingmaður gerði og má taka undir allt sem hann sagði í því sambandi. Þetta eru viðfangsefni sem virkilega er ástæða til þess að velta fyrir sér en við sem sátum í allsherjarnefnd og afgreiddum þetta mál, töldum ekki tilefni til þess þar sem hér er um að ræða mjög þrönga breytingu á lögunum að ræða sem lúta einungis að mjög afmörkuðum atriðum eða raunar aðeins einu atriði.

Hitt atriðið sem hann nefnir — og tengist kannski því fyrra — er það sem lýtur að endurskoðun eða nýrri nálgun löggjafans að málefnum sem varða happdrætti og fjárhættuspil. Mörg af þeim happdrættum sem hér eru rekin með fullum leyfum eru einhvers konar fjárhættuspil með sínum hætti. Það gerir það auðvitað að verkum að ef við ætlum að fara í þá heildarendurskoðun þurfum við að taka miklu fleiri þætti til, bæði lagaleg atriði og ekki síður siðferðislegar spurningar eins og þær sem hv. þingmaður vék að. Ég get tekið undir þær hugleiðingar sem hann bar fram í ræðu sinni í öllum atriðum, að fíknirnar eru fyrir hendi og stundum erum við bara að fást við ákveðnar afleiðingar af þeim en miklu síður við rætur vandans sem við er að glíma.

Svo að ég víki að efni frumvarpsins sem slíks felur það í sér þá breytingu að verið er að reyna að skýra ákvæði laganna sem fjallar um bann við auglýsingum á happdrætti eða happdrættum sem ekki njóta lögvarins leyfis yfirvalda. Eins og menn þekkja þarf sérstök leyfi til þess að reka happdrættisstarfsemi hér á landi. Þau eru veitt á tiltölulega þröngum forsendum þannig að það er tiltölulega afmarkaður fjöldi aðila sem getur efnt til slíkra happdrætta. Menn hafa séð tilhneigingu til að auglýsa starfsemi sem ekki hefur slík leyfi hér á landi. Stundum er um að ræða starfsemi sem á sér stað utan landsteinanna en er engu að síður kynnt með þeim hætti að augljóst er að verið er að beina athyglinni fyrst og fremst að íslenskum viðskiptavinum. Það má segja að frumvarpið feli í sér viðleitni löggjafans til að sporna við kynningu eða auglýsingu á slíkri starfsemi, þ.e. starfsemi sem ekki nýtur starfsleyfa hér á landi.

Ég held að það hafi verið mat okkar sem sátum í allsherjarnefnd og afgreiddum þetta mál að hér væri um virðingarverð markmið að ræða. Ég get að minnsta kosti sagt fyrir mitt leyti að ég tel að í ákveðnum tilvikum geti frumvarpið gert það að verkum að auðveldara sé að stöðva kynningarstarfsemi af þessu tagi. Hins vegar er alveg rétt sem fram hefur komið að úrræðið er ófullkomið að því leyti að það getur verið erfitt að ná yfir alla þá kynningarstarfsemi sem á sér stað t.d. á netinu. Það er ekki vandamál sem er bundið við Ísland heldur er það vandamál sem er auðvitað fyrir hendi um allan heim. Viðleitni ríkisvalds til að setja því mörk sem á sér stað á internetinu er töluverðar skorður settar vegna eðlis internetsins. Ég held því að við getum ekki gert okkur væntingar um að það sé með öllu hægt að taka fyrir einhverja kynningarstarfsemi af þessu tagi þó að þetta frumvarp nái fram að ganga. Miðað við t.d. dóma sem hafa fallið hér á landi á þessu sviði hygg ég þó að það megi stöðva ákveðna tegund kynningar sem á sér stað í þessum efnum.

Þrátt fyrir að frumvarpið sé ekki stórt í sniðum og feli ekki í sér róttækar breytingar tel ég að það stuðli að þróun í rétta átt þótt það nái kannski ekki að fullu þeim markmiðum sem við vildum ná fram, einfaldlega vegna þess hversu erfitt getur reynst að stýra þeirri umfjöllun, kynningu sem annarri umfjöllun sem á sér stað á internetinu. En á þeim forsendum skrifaði ég og skrifuðum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni undir álitið og styðjum málið og vonumst til þess að það verði samþykkt.

Að lokum vildi ég hins vegar geta þess, hæstv. forseti, að það hefur verið rætt og komið fram oftar en einu sinni, að á vegum dómsmálaráðuneytisins hefur verið í gangi ákveðin vinna í sambandi við endurskoðun á happdrættislöggjöfinni. Ég bind auðvitað vonir við að í þeirri vinnu, bæði á vegum ráðuneytisins og eins þegar málið kemur til kasta þingsins, verði hægt að fjalla um málin í því víðtæka samhengi sem hv. þm. Pétur Blöndal vakti máls á.