138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[20:11]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti og fleira, lögum um nauðungarsölu, lögum um lögmenn og á innheimtulögum, með síðari breytingum, um réttarstöðu skuldara frá allsherjarnefnd.

Með frumvarpinu eru lagðar til fjölmargar breytingar, m.a. að skiptastjóri í þrotabúi geti heimilað einstaklingi að búa áfram í allt að tólf mánuði í húsnæði í eigu búsins eða halda umráðum einstakra lausafjármuna þess gegn greiðslu leigu. Sama gildir við nauðungarsölu á eign. Þá er lagt til að við nauðungarsölu á fasteignum eða lausafé geti kröfuhafi sem telur sig ekki hafa fengið kröfu sína greidda einungis krafist þess mismunar sem er á eftirstöðvum kröfunnar og þess sem er markaðsvirði eignarinnar við samþykkt boðsins. Einnig er lagt til að dómsmálaráðherra gefi út leiðbeiningar fyrir lögmenn um það endurgjald sem þeir mega áskilja sér við innheimtu peningakrafna. Þá er löginnheimta skilgreind og enn fremur kveðið á um að lögmanni sé óheimilt að áskilja sér endurgjald af þeim hluta kröfunnar sem gjaldfelld er vegna vanskila á greiðslu afborgunar og vaxta.

Ég vil gera sérstaklega að umtalsefni 4. gr. frumvarpsins svo ég taki hana sérstaklega út en að öðru leyti talar þetta nefndarálit fyrir sig sjálft. Þar er fjallað um uppgjör skulda við nauðungarsölu á eign en reglan tekur til allra sem kunna að eiga réttindi yfir eign en ekki eingöngu þess sem hefur gerst kaupandi að eign með nauðungarsölu eins og gildandi lög kveða á um. Þannig er einungis hægt að krefja gerðarþola eða ábyrgðarmann hans um mismun af eftirstöðvum skuldar og markaðsvirði eigna. Nefndin telur að þessi regla leiði til sanngjarnari niðurstöðu fyrir gerðarþola og ábyrgðarmann skuldar sem tryggð hefur verið með veði þar sem sá sem telur sig ekki hafa fengið fulla greiðslu kröfu við nauðungarsölu þarf að sýna fram á að markaðsvirði eignarinnar hafi ekki dugað til greiðslu skuldarinnar. Gildir þetta hvort sem er fyrir þann sem keypt hefur eign á nauðungarsölu sem og aðra sem átt hafa veð í eigninni.

Þá er einnig lagt til að skuldari geti að eigin frumkvæði höfðað mál á hendur kröfuhafa til að fá skuldirnar færðar eða felldar niður í samræmi við framangreinda reglu.

Nefndin telur að í þessu frumvarpi felist mikilvægar réttarbætur fyrir einstaklinga í greiðsluerfiðleikum og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

Við 2. gr.

Í stað orðanna „einnig er skiptastjóra“ komi: Þá er skiptastjóra.

Við 3. gr. bætist nýr málsliður svohljóðandi:

Sýslumanni er heimilt að áskilja að gerðarþoli setji tryggingu fyrir spjöllum sem kunna að verða á íbúðarhúsnæði.

Hv. þm. Birgir Ármannsson og Gunnar Bragi Sveinsson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en hv. þm. Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Undir það rita auk þess sem hér stendur hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, Birgir Ármannsson, með fyrirvara sem fyrr segir, Ögmundur Jónasson, Valgerður Bjarnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, með fyrirvara, og hv. þm. Þráinn Bertelsson.