138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Frá því í síðustu viku hefur verið fjallað í þrígang á fundum allsherjarnefndar um svokallað frumvarp um samningsveð eða lyklafrumvarpið eins og það hefur verið kallað í opinberri umræðu. Fram hafa farið umtalsverðar umræður um málið og ýmsum steinum velt við í þeim efnum. Ég geri ráð fyrir því að haldið verði áfram í þessari viku að fjalla um málið en ég get ekki sagt fyrir um það á þessari stundu hvort við náum að koma því inn í þingið, það eru fáir dagar eftir. Það eru stór álitamál uppi er varða 2. gr. frumvarpsins sem snýr að afturvirkni þeirra laga sem menn, lögfróðari en sá er hér stendur, hafa varað við og ég tel ástæðu til þess að hlusta vel eftir þeim röddum. Þess vegna var það sem ég fjallaði sérstaklega um 4. gr. þeirra laga sem við fjöllum um hér en þar er farið í gjaldþrotameðferðina afturvirkt eins langt og hægt er í lagasetningu að mínu mati, þ.e. það tekur þá til þeirra samninga sem þegar hafa verið gerðir.

Sjónarmiðið sjálft í frumvarpi hv. þm. Lilju Mósesdóttur er virðingarvert og eitthvað sem menn vilja held ég allir í hv. allsherjarnefnd reyna að mæta með einhverjum hætti. Það verður áfram gert en við viljum vanda til vinnunnar og þeirrar lagasetningar sem þar færi fram en ég tel mjög mörgum spurningum ósvarað í því efni, ekki síst í ljósi mjög afgerandi álits Seðlabanka Íslands um það mál.