138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[20:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni um að frumvarpið sé þó skref í rétta átt, það er alltaf verið að bæta við þau úrræði sem eru fyrir heimilin í landinu. Við byrjuðum að ræða þetta hér fyrir ári og þá kölluðum við sjálfstæðismenn eftir því að menn færu í alvöruaðgerð eins og við kölluðum það. Þá var því svarað að allt sem þyrfti að gera og væri nauðsynlegt fyrir heimilin í landinu væri þegar búið að gera. Síðan erum við búin að taka hér nokkur frumvörp og búin að afgreiða sum og sum eru í nefndum.

Mig langar að spyrja hv. þm. Róbert Marshall, sem er formaður allsherjarnefndar, hvort hann geti upplýst mig um það hver var afskriftakrafan á milli gömlu og nýju bankanna þegar íbúðalánin voru færð þar á milli. Ég hef ekki fengið svör við því enn þá og er margbúinn að spyrja að því hér. Getur hv. þingmaður svarað mér því?

Eins langar mig að spyrja hann að því hvort hann geti tekið undir það sem ég tel að hafi verið mistök þegar menn stofnuðu nýju bankana og reistu þá við að skynsamlegra hefði verið að taka öll íbúðalánin sem voru í gömlu bönkunum í þrotabúunum og færa þau inn í Íbúðalánasjóð með þeim afföllum sem þeim fylgdu. Þá hefðum við kannski getað gert eitthvað meira og raunhæfara fyrir þau heimili sem eru í miklum vanda. Að mínu viti hefði það verið miklu skynsamlegra. Við sjáum það núna á fyrsta starfandi ári bankanna að þeir skiluðu tugum milljarða í hagnað sem ég tel að sé annars vegar út af vaxtamun og hins vegar út af því að þeir tóku íbúðalánin yfir á þessu verði og hafa ekki skilað afskriftum til heimilanna. Því vil ég spyrja hv. þingmann þessara tveggja spurninga, hvort hann geti upplýst mig um afskriftakröfuna milli gömlu og nýju bankanna og hvort hann geti tekið undir að það hafi verið mistök að færa þau ekki beint yfir í Íbúðalánasjóð.