138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[20:48]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti. Málið hefur verið til umræðu í allsherjarnefnd um nokkra hríð og er hluti mála sem snúa að greiðsluvanda heimilanna. Við höfum talað fyrir því, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd, að setja meginþungann á afgreiðslu mála úr nefndinni sem mæta greiðsluvanda heimila og smærri fyrirtækja. Frumvarpið er vissulega liður í því sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins styðjum, enda er það til þess fallið að bæta bráðavanda einstaklinga sem standa frammi fyrir verulegum greiðsluörðugleikum.

Þetta frumvarp er samið að tilhlutan réttarfarsnefndar. Það er ekkert launungarmál að réttarfarsnefnd hefur oft og tíðum gert athugasemdir við úrræði sem hægt væri að grípa til til þess að bjarga heimilum í landinu. Í þessum stól hef ég áður sagt að gjaldþrotarétturinn eða fullnusturéttarfarið hafi að sjálfsögðu ekki verið hugsað til þess að mæta gríðarlegum vandræðum stórs hluta íslensku burðarásfjölskyldunnar þar sem elsti fjölskyldumeðlimurinn er undir fertugu. Þetta fjölskyldumynstur er sérstaklega gert að umtalsefni í nýrri skýrslu Seðlabankans. Þessar réttarreglur voru alls ekki hugsaðar með það fyrir augum að allt að 40% heimila lenti í vandræðum eins og fram kemur í skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleikann.

Það má segja margt um það sem hefur gerst hér eftir hrunið og það sem gerðist í aðdraganda hrunsins en eitt er alveg víst að okkur hefur mistekist að mæta þeim bráðavanda sem stafar að íslenskum heimilum. Okkur hefur ekki tekist að koma með úrræði sem hjálpa fólki sem getur enn greitt skuldir sínar. Við höfum fyrst og fremst smíðað úrræði handa fólki sem þegar er komið á leiðarenda, ef svo má segja, með skuldavanda sinn. Því hefur verið forðað frá þeirri niðurlægingu að verða gjaldþrota. Við höfum ekki enn þá náð samkomulagi um hvernig hægt er að fækka þeim sem lenda í þessum bráðavanda.

Í upphafi þingfundar í dag var rætt um hvernig skipulagi þingsins væri háttað núna síðustu dagana. Ég hef velt fyrir mér undanfarna daga — svo að maður tali bara hreint út og sé ekki að skreyta hlutina með neinum hætti: Hvernig getum við alþingismenn, sem sýslum með hin ýmsu mál er snúa að greiðsluvanda heimilanna í hinum ýmsu nefndum þingsins, tekið málin það föstum tökum að við náum utan um vandann og komið með tillögur? Við höfum ítrekað frestað nauðungarsölum. Í frumvarpinu er reyndar, sem ég á von á að verði að lögum innan tíðar, gert ráð fyrir breytingum á lögum um nauðungarsölur sem auðvelda mun fólki að búa lengur í íbúðum sínum eftir að nauðungarsala hefur orðið. Við höfum ítrekað frestað nauðungarsölum og ég hygg að þar hafi fulltrúar allra flokka komið að. Það var gert til að skapa svigrúm fyrir hugmyndum um lausn málsins.

Staðreyndin er auðvitað sú að það hefur verið mun tafsamara, frú forseti. Í upphafi gerðum við ráð fyrir að kostnaðurinn sem hlytist af töfunum lenti með fullum þunga á þessum sömu fjölskyldum. Þótt menn hafi í þessu tilviki hugsað sér tíma til þess að skapa svigrúm er þetta ekkert annað en gálgafrestur fyrir fjölskyldurnar sem fyrir þessu verða. Það er ekkert mikilvægara fyrir okkur alþingismenn um þessar mundir en að snúa okkur einvörðungu að því að leysa vanda þessara fjölskyldna og ekki síður þeirra fyrirtækja sem hafa orðið fyrir barðinu á bankahruninu. Íslenskt atvinnulíf er borið uppi af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Meiri hlutinn vinnur ekki hjá einstökum stórfyrirtækjum heldur hjá fjölda smærri fyrirtækja. Þau ollu ekki hruninu sem varð með falli íslensku bankanna. Vandræði þeirra fyrirtækja er afleiðing bankahrunsins. Ef okkur Íslendingum og alþingismönnum tekst ekki að snúa bökum saman og hugsa með öðrum hætti en við höfum áður gert, óttast ég mjög að þessar þrengingar muni standa lengur en þörf er á.

Frá haustinu 2008 hafa sprottið upp mörg grasrótarsamtök. Þau hafa eytt ómældum tíma í að finna leiðir til hjálpar íslenskum fjölskyldum. Mörgum finnst sumar þessara leiða afskaplega róttækar og í sumum tilvikum jaðra við það að geta valdið ríkinu skaðabótaábyrgð eða með einhverjum hætti mismunað þeim sem áttu hlutabréf eða skulduðu bönkum fé. Mér finnst að við ættum frekar að spyrja: Hvaða afleiðingar hefur það fyrir uppbyggingu íslensks samfélags ef ungar barnafjölskyldur flytjast unnvörpum af landi brott? Hvaða afleiðingar hefur það fyrir endurreisnina ef fjölskyldur, þar sem foreldrar eru undir fertugu, með ung börn, finnst þær knúnar til þess að fara héðan vegna þess að úrræði eru ekki fyrir hendi? Ekkert okkar getur hugsað þá hugsun til enda og við vitum það náttúrlega öll að þannig náum við ekki tökum á vandanum.

Í allsherjarnefnd eru fleiri mál sem snúa beint að vanda heimilanna. Það er rétt sem hv. þm. Róbert Marshall formaður allsherjarnefndar sagði í andsvari við hv. þm. Óla Björn Kárason, þar sem fjallað var um lyklafrumvarpið, en það nafn kemur frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur, að þetta mál auk annarra, t.d. fyrningar, hafi verið til umræðu í allsherjarnefnd. Það er líka rétt hjá hv. þm. Róberti Marshall að fjöldamargar athugasemdir hafa borist um málið. Ég segi fyrir mig, og nú tala ég út frá menntun minni sem lögfræðingur, að fyrir fram hef ég alls konar efasemdir um að það sé hægt að hleypa frumvarpinu í gegn. Ég held að það sé kominn tími til þess að ég horfi fram hjá því stundarkorn og velti fyrir mér hvort hægt sé að sníða ákveðna annmarka af til þess að koma til hjálpar, ekki síst þegar menn í öðrum nefndum þingsins virðast hafa uppi áform um úrræði þar sem þessi hugsun er fyrir hendi.

Lyklafrumvarpið fjallar fyrst og fremst um afturvirkni laga, sem er mjög viðkvæmt mál og alvarlegt. Í hv. félagsmálanefnd er verið að endurskrifa eða endurskoða frumvarp frá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sem varðar greiðsluaðlögun og úrræði fyrir fjölskyldur sem eiga fleiri en eina eign og möguleikann á því að menn geti skilað inn lykli seinni eigna.

Það veldur mér miklum áhyggjum að í sumum nefndum þingsins er fjallað um úrræði af þessum toga, á meðan aðrar nefndir gera það ekki. Sums staðar er því velt fyrir sér hvort hægt sé að ganga róttækari leiðir, annars staðar velta menn fyrir sér allt öðrum hlutum. Það eru þessir þættir sem valda mér hvað mestum áhyggjum í þessari hreingerningu, eða hvað við viljum kalla það, eftir bankahrunið þegar við reynum að breyta og búa til ný úrræði. Fjárlaganefnd ræðir þetta einnig þegar fjárlagagerð er undirbúin, hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir.

Ég óttast að ef okkur alþingismönnum tekst ekki að finna úrræði sem stenst skoðun muni dómstólar reka menn til baka með þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram. Þá eykst vandi íslenskra fjölskyldna. Ef okkur tekst ekki í sameiningu að finna leiðir til þess að mæta þeim þá eykst vandi þeirra og í framhaldinu lengist efnahagslægðin. Staða íslenskra heimila er nefnilega ekkert annað en efnahagsleg ógn, þetta er hvorki félagslegt vandamál né vandi fullnusturéttar. Þetta er efnahagslegt vandamál og það þarf að taka á því á þeim nótum. Það er efnahagslegt vandamál þegar það stendur í skýrslu Seðlabankans að menn telja að tafir og úrræðaleysi hjá okkur öllum hafi valdið því að kreppan getur hugsanlega lengst. Og við þekkjum það frá öðrum löndum að vandinn eykst ef menn ná ekki tökum á þessum hlutum.

Ég held að það sé full ástæða fyrir hv. alþingismenn að leggja nú þegar til hliðar öll önnur mál en þau sem snúa nákvæmlega að þessu. Ég veit að ýmis önnur mál af hálfu stjórnarmeirihlutans eru brýn, t.d. þau sem eru kölluð lýðræðisumbætur. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim. Ég er alveg sannfærð um að það er ýmislegt sem þar þarf að vinna. Á dagskrá í dag er t.d. frumvarp til laga um stjórnlagaþing. Við sjálfstæðismenn segjum í nefndaráliti okkar að við gerum okkur grein fyrir því að endurbæta þarf stjórnarskrána. En núna liggja verkefnin hér, þessa dagana er ekkert annað sem skiptir máli en akkúrat þetta.

Gert er ráð fyrir því að þingið fari heim 15. júní. Það liggja 108 mál inni í nefndum þingsins eða bíða afgreiðslu og það er alveg augljóst að menn verða að forgangsraða með einhverjum hætti. Ég vil forgangsraða í þágu íslenskra fjölskyldna Í mörgum nefndum þingsins eru uppi ýmis sjónarmið, mér dettur ekki í hug að það sé ekki áhugamál allra þingmanna að koma þessum málum í gegn, en okkur skortir einhverja leið til þess og komast að einhverri raunverulegri niðurstöðu. Það er það sem okkur skortir. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem það gerist að þingið er tregt eða seint til að finna viðeigandi lausnir á ákveðnum málum. Í þessu tilviki megum við ekki bregðast.

Um leið og ég segi að málið sé góðra gjalda vert þá mun ég styðja það eins og ég mun styðja öll mál sem munu bæta hag þeirra sem verst standa. Við verðum að líta til þeirra sem eru í spennitreyju teygjulána og verða það næstu áratugi ef ekki verður breyting á. Flestir vilja nefnilega borga skuldir sínar. Fyrir alla er þetta spurning um reisn að geta staðið við það sem þeir hafa skrifað upp á. Og þegar aðrir menn hafa komið fjölskyldum í þessa óleysanlegu stöðu er það okkar að leysa úr því og koma skikki á það.

Ég vil bara fyrir mitt leyti, og ég veit að þau sjónarmið liggja fyrir í hv. allsherjarnefnd þar sem ég á sæti, leggja mikla vinnu af mörkum til þess að mæta þessum vanda, jafnvel þótt það þýði að maður þurfi að snúa aðeins frá því sem maður lærði í skólanum um að ákveðnir hlutir tengdir gjaldþrotarétti þurfi að vera með ákveðnum hætti. Lengi var dálítið erfitt fyrir mig að segja þetta, en mér finnst það vera tilraunarinnar virði svo hægt sé að komast að niðurstöðu um þann mikla vanda sem hér er. Við skulum síðan sjá hvort við náum saman um það. Ég held að það sé vilji þingmanna í öllum flokkum að gera það.

Fyrir páska ræddum við hér í þingsal um málefni heimilanna. Auðvitað höfum við alltaf rætt þetta öðru hvoru í allsherjarnefnd. Sú ákvörðun var tekin að rétt væri að fela ákveðinni þingnefnd að fjalla um þetta mál og var hv. efnahags- og skattanefnd falið að afla upplýsinga um það hvort hægt væri að koma með hugmyndir um niðurfærslu eða leiðréttingu á höfuðstól fasteignaveðlána. Ég veit ekki almennilega hvernig sú vinna gengur í efnahags- og skattanefnd en ég hygg að menn séu enn þá að afla upplýsinga eða finna út hvernig svigrúmið er. Ég óttast það samt að við séum að renna út á tíma með það.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins og ég held fleiri flokkar, hafa um nokkurt skeið haldið þeim sjónarmiðum uppi að ef ekkert annað gildi verðum við að færa höfuðstólinn niður og ég held að við séum aftur komin á þann stað núna. Sumarið er komið, þingið kemur ekki aftur saman fyrr en í september, nauðungarsölur hefjast í október eða nóvember og það er alveg klárt að við getum ekki frestað þeim endalaust. Það kemur alltaf að því að það verði ekkert fleira gert fyrir þá sem eru komnir á endastöð. Það kemur alltaf að því að við verðum að láta þau úrræði ganga sinn gang. Ég vona að við verðum þá a.m.k. búin að gera okkur grein fyrir því hvernig við getum hjálpað þeim sem geta rétt svo borgað. Fram kemur í stöðugleikaspá Seðlabankans að líkur séu á því að hópurinn sem inniheldur fjölskyldur undir fertugu með gengistryggð lán og getur rétt svo borgað fari stækkandi. Hann mun lenda í verulegum vandræðum á næstu missirum. Það hlýtur að vera verkefnið sem við getum sameinast um.

Ég held að sum þau úrræði sem við kynntum haustið 2008 og var í raun og veru forveri greiðsluaðlögunarinnar sem nú er verið að breyta í félags- og tryggingamálanefnd, gagnaðist þeim sem voru þegar í vandræðum af ýmsum öðrum orsökum. En meginstabbi fólks sem finnur þetta högg eru bara venjulegir Íslendingar, venjulegt fólk, barnafólk og aftur barnafólk. Það er sá hópur sem ég hef alveg gríðarlegar áhyggjur af.

Ég vil þakka hv. allsherjarnefnd fyrir mjög gott samstarf í málum sem að þessum verkefnum snúa og hvet jafnframt stjórnarmeirihlutann í nefndinni til þess að halda áfram á þessari braut, setja málin á dagskrá og finna leiðir til þess að leysa úr þeim og muna að 15. júní er handan við hornið. Við höfum bara örfáa daga í september til þess að koma með úrræði og gera okkur grein fyrir því að þótt asinn sé mikill þurfum við að vanda okkur. Ég vildi svo óska þess að við næðum saman um hluti sem snúa beint að hagsmunum íslenskra fjölskyldna og minni og meðalstórra fyrirtækja til þess að hraða þeirri endurreisn sem við bíðum svo óskaplega mikið eftir.