138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[21:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp frá allsherjarnefnd sem fjallar í grunninn um það að fólk geti búið áfram í íbúð sinni ef búið er að selja hana á nauðungarsölu. Sett eru ákvæði um að menn eigi að borga hæfilega leigu sem ekki er minni en kostnaður skiptastjóra af íbúðinni o.s.frv.

Þetta er náttúrlega lausn sem er nauðsynleg en hún nær til þeirra sem eru í reynd komnir á endastöð, þegar fólk hefur misst eignir sínar á nauðungarsölu. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að það sé þannig að fólk geti búið áfram í eign sinni, jafnvel í einhvern tíma, þótt því sé ekki ætlaður langur tími í frumvarpinu. Það kemur kannski í veg fyrir að menn flýi til útlanda. Ég held að það ættum við að óttast mest og ættum að fylgjast vel með því, hv. þingmenn, brottflutningi ungs fólks til útlanda. Það flytur út vegna atvinnuleysis, vegna þess að það missir húsnæðið og vegna þess að launin erlendis, í erlendri mynt, eru miklu, miklu hærri en laun hér á landi sem eru í innlendri mynt sem hefur lækkað mjög mikið. Þetta held ég að sé mjög alvarlegt ef þetta verður niðurstaðan. Þess vegna styð ég frumvarpið mjög.

Mér finnst að öll þessi mál þurfi að ræða í heild. Þau eru rædd í þrem nefndum þingsins á sama tíma. Í efnahags- og skattanefnd er rætt um bílafrumvarpið þar sem á að lækka skuldir sem hvíla á bifreiðum, gengistryggðar skuldir sem oft hafa leikið fjölskyldur mjög grátt. Menn keyptu kannski bíl fyrir 2 milljónir og allt í einu var lánið sem tekið var komið í 4 milljónir og bíllinn jafnvel búinn að lækka nokkuð í verði. Venjulegar fjölskyldur geta því lent í töluverðum vanda út af venjulegum bílakaupum svo að maður tali nú ekki um stærri kaupum sem voru kannski — ja, ég veit ekki hvað á að kalla það þegar nánast félaust fólk kaupir jeppa með lánum alveg í botn. Það getur maður kannski flokkað undir að menn séu óábyrgir.

Við hv. þingmenn erum í þeirri stöðu að mjög lítið er vitað um stöðu þessara 100 þúsund heimila í landinu. Seðlabankinn gerði ákveðna könnun, það vantaði reyndar vissa þætti inn í hana, og hún var ágæt á sínum tíma, en það er komið rúmt ár síðan. Við vitum í rauninni ekki hver staðan er í dag nema að mjög sennilega hefur hún versnað. Mér segir svo hugur að 10% þessara heimila séu í óleysanlegum vanda, það blasi ekkert annað við þeim en gjaldþrot. Þá er þessi leið, sem við ræðum hér, „góð“ fyrir það fólk. Auðvitað væri betra að menn færu í samninga við kröfuhafa svo þeir héldu íbúðinni og héldu áfram að borga af lánum sínum eins og þeir geta. Fólk hefur lent í atvinnuleysi, fólk hefur lent í tekjumissi og fólk hefur lent í því að lán hafa hækkað mjög mikið.

10% heimila eru í óleysanlegum vanda, önnur 15% eru sennilega í mjög miklum vanda. Það er bara ósköp venjulegt fólk sem er komið alveg upp undir höku í skuldum og á mjög erfitt með að komast af þó að það berjist í bökkum og hafi það af. 25% eru sennilega í nokkrum vanda en svo eru sennilega 50% heimila sem eru í sæmilegri stöðu miðað við að við urðum fyrir áfalli og miðað við verðbólgu og annað slíkt. Ákveðinn hluti þeirra eru leigjendur sem skulda þar af leiðandi mjög lítið eða ekki neitt en þurfa náttúrlega að borga síhækkandi leigu af jafnvel lækkandi launum. Einhver hlutinn er skuldlaus eða skuldlítill.

Vandinn er því mjög margur og misvísandi. Bílalánin, eins og ég nefndi áðan, eru í efnahags- og skattanefnd. Í félagsmálanefnd, af öllum nefndum, ræðum við heilmikið um peninga þessa dagana og afföll og slíkt. Þar ræðum við t.d. að flutt verði frumvarp um fólk sem á tvær eignir, þannig að lyklafrumvarpið frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem rætt var hér áðan, virki á aðra eignina, að menn geti sem sagt nánast skilað henni. Nánast, segi ég, vegna þess að það sem situr eftir af skuldum breytist þá í almennar kröfur.

Síðan ræðum við frumvarp um umboðsmann skuldara sem verður töluvert mikið breytt í nefndinni, vænti ég, en verður flutt sem slíkt. Svo er meiningin að nefndin flytji frumvarp sem er nánast nýtt vegna þess að frumvarpinu frá hæstv. félagsmálaráðherra hefur verið breytt svo mikið. Það gengur út á horft sé á stöðu heimilisins, allar eignir og skuldir o.s.frv. og það í reynd gert upp þannig að eftir sitji skuldir sem eru viðráðanlegar. Þetta yrði gert í frjálsum samningum milli kröfuhafa og skuldarans og ef frjálsir samningar nást ekki af einhverjum ástæðum verði farið í þvinguð úrræði.

Þetta er það sem unnið er að í þessum mismunandi nefndum. Þótt ekki séu nema sex dagar eftir af störfum þingsins er meiningin að klára þessi mál. Ég hef unnið mjög hart í félagsmálanefnd ásamt fleirum að því að reyna að finna á þessu lausn. Allt krefst þetta hraða og ég held að vandinn sé sá að stjórnsýslan og hv. þingmenn átti sig ekki á magninu. Ef 10% heimila eru í óleysanlegum vanda þýðir það tíu þúsund heimili. Ef við klárum 100 heimili á dag tekur það 100 daga, það er bara þannig. Við klárum náttúrlega aldrei 100 á dag, það er borin von. Ég er bara að benda á umfangið. Menn þurfa að búa til kerfi sem er svo einfalt og hraðvirkt að það ráði við slíkan fjölda af fólki með skikkanlegum hætti. Við það glímum við í hv. félagsmálanefnd.

Margt fólk hefur neikvæða eiginfjárstöðu, margt fólk ræður ekki við greiðslubyrðina og það er búið að finna úrræði fyrir það. Greiðslubyrðin er lækkuð og lánin lengd. Það nýtist ákveðnum hópi. Verið er að skoða mjög mörg mál. Eitt af því sem þessi hugmynd í félagsmálanefnd gengur út á, snýst um innkallaðar kröfur sem birtast í Lögbirtingablaðinu, eins og í gamla daga. Það tekur tíma og það er niðurlægjandi. Það er niðurlægjandi fyrir fólk að sjá nafn sitt í Lögbirtingi, sérstaklega þegar það fer í rauninni saklaust í þá stöðu, hefur lent í einhverjum aðstæðum, t.d. atvinnuleysi í kjölfar hrunsins, og á í rauninni ekki neina sök á því. Það var ekki í neinni óráðsíu eða neinu slíku en lendir allt í einu í því að fá auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.

Ég hef hugleitt það, spurt að því og verið að skoða í alvöru hvort koma ætti upp svokölluðum kröfubanka þar sem allir kröfuhafar landsins gætu lýst kröfum sínum á kennitölu. Þá er eiginlega ekkert annað en kennitala á móti kennitölu, sem segir að þessi kennitala telji að hin kennitalan skuldi sér. Þegar einhver fer í greiðsluaðlögun er kennitala hans gefin upp og þá fást allir þeir aðilar sem hugsanlega eiga á hann kröfu. Þeim er þá sendur tölvupóstur og óskað eftir því að þeir lýsi kröfunum. Þetta yrði miklu hraðvirkari og miklu mannúðlegri leið og um leið líka áhrifameiri vegna þess að það lesa ekki allir Lögbirtingablaðið. Til dæmis ef amma gamla á kröfu á dóttursoninn getur hún lýst kröfunni í þessum banka, hún segir bara kennitölu sína og kennitölu drengsins. Hún fær síðan sent bréf þegar hún á að lýsa kröfu á hann því að það er mjög mikilvægt að öllum kröfum sé lýst þegar málin eru gerð upp. Það er því verið að vinna að því að gera þetta eins hraðvirkt og hægt er til að ráða við þetta magn.

Þau 15% heimili sem ég nefndi og eru í mjög miklum vanda eru 15 þúsund manns, hvorki meira né minna. Stjórnsýslan, dómskerfið og umboðsmaður skuldara þurfa að leysa mjög mikinn fjölda af málum. Von mín er sú að þegar kominn verður ákveðinn ferill á þetta, segjum í frjálsum samningum, fari að myndast ákveðnar reglur sem menn geta farið eftir. Þá geta menn gert þetta nánast sjálfir með kröfuhöfum sínum. Þetta er sem sagt það sem unnið er að í hinum ýmsu nefndum og mér þætti mjög mikilvægt að menn einbeittu sér að þessu. Í þinginu er verið að ræða alls konar mál og maður er svo að segja bundinn á fundum frá morgni til kvölds í stað þess að vinna í nefndum að lausn þeirra mála sem skipta heimilin svo miklu máli.

Það er ekki bara þetta. Stærsti vandinn fyrir utan gengistryggðu lánin, sérstaklega íbúðalánin sem geta hækkað úr 30 milljónum upp í 60, sem er gjörsamlega óbærilegt fyrir venjulegar fjölskyldur, sérstaklega þegar eignin hækkar ekki neitt, er atvinnuleysið. Atvinnuleysið er náttúrlega alveg skelfilegt. Við tókum í dag til afgreiðslu mál um gagnaver á Suðurnesjum sem ég var afskaplega hlynntur og er mjög ánægður með að það skuli hafa verið samþykkt. En ég gat ómögulega greitt því atkvæði sjálfur eins og ég lýsti í atkvæðaskýringu þótt mig langaði mjög mikið til að standa að því. Ég tel að svona eigum við einmitt að skapa atvinnu, með hundrað störfum hér, hundrað störfum þar, fimm hundruð störfum þar, þetta safnast allt þegar saman kemur. Það er mjög nauðsynlegt að ráða bug á atvinnuleysinu því að ég tel að það eigi nokkuð drjúgan þátt í að gera stöðu heimilanna óleysanlega eða illleysanlega. Ég hugsa að ef 10–15% heimilanna fengju atvinnu mundi það laga stöðuna heilmikið.

Nokkuð mikið hefur verið rætt um almenna niðurfellingu skulda. Ég hef margoft bent á að það kæmi þeim líka til góða sem eru ekki í vandræðum, þeim 50% sem eru í sæmilegri stöðu og þeim 20% til viðbótar sem ráða við vandann. Og þetta kostar. Talið er að 20% niðurfelling skulda mundi kosta um 200 milljarða og jafnvel meira en það, 280 milljarða. Það mundi samt ekki laga stöðuna hjá þeim sem verst eru settir. Það mundi ekki laga stöðuna hjá þeim sem eru gjaldþrota þótt skuldirnar yrðu lækkaðar um 20%. Við sætum eftir sem áður uppi með vandann. 280 milljarðar eru þvílíkir peningar að við gætum sennilega haft þrjú skattlaus ár á Íslandi fyrir þá. Menn geta nú ímyndað sér hvað það mundi þýða í að hvetja áfram atvinnulíf og atvinnu. Menn þekkja það, hér var einu sinni skattlaust ár og þá var mikið fjör á vinnumarkaði.

Kostnaðurinn af almennri niðurfellingu er þvílíkur að ég get ekki séð að það sé nokkur lausn. Það kemur niður á lífeyrissjóðunum, það kemur niður á Íbúðalánasjóði og það kemur niður á bönkunum. Ætli eigendum þeirra, kröfuhöfunum, sem flestir eru erlendir bankar, þyki þeir ekki hafa tapað nóg á Íslandi þótt ekki bætist við að bankarnir þurfi að afskrifa megineign sína sem er krafa á hinn almenna Íslending? Ég hugsa að það mundi bara leiða til málaferla. Þetta ræðum við einmitt í efnahags- og skattanefnd varðandi niðurfellingu á bílalánum, þ.e. hvort þau standist stjórnarskrá. Það er sem sagt vandinn á þeim bæ.

Ég held að menn þurfi að vinna hart að því að búa til kerfi sem leysir þennan vanda þannig að hvert heimili í vanda sé í reynd gert upp og fundin lausn sem gerir það að verkum að menn geta haldið eign sinni, búið áfram í henni og borgað af þeim skuldum sem þeir ráða við. Aðrar skuldir yrðu niðurfelldar. Að þessari lausn vinnur hv. félagsmálanefnd hörðum höndum og hv. efnahags- og skattanefnd sömuleiðis varðandi bílalánin.