138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[21:40]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann út í ræðu hans vegna þess að hann sagði að stjórnvöld hefðu brugðist of seint við. Ef maður skoðar úttekt Seðlabankans frá því 12. apríl 2010 og þróun á getu heimila til að standa undir greiðslubyrði lána og lágmarksframfærslu kemur fram að hlutfall heimila sem náði ekki endum saman eða átti innan við 50 þús. kr. afgangs á mánuði fyrir bankahrun á tímabilinu frá janúar fram í október árið 2008 fór úr 20% heimila upp í 25% heimila, og hlutfall heimila sem náði ekki endum saman fyrir bankahrun fór úr 11% í janúar 2008 upp í 16% í október 2008 samkvæmt þessum tölum sem Seðlabankinn birti á dögunum.

Því spyr ég, vegna þess að hv. þingmaður var einmitt á þeim tíma hér á þingi og í ríkisstjórn: Til hvaða aðgerða greip hv. þingmaður til þess að mæta vanda þessa fólks á þeim tíma?