138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikningar.

569. mál
[22:01]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um frumvarpið sem við ræðum nú, þ.e. frumvarp til laga um breyting á lögum um hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikninga, sem varðar minnihlutavernd og fleira. Ég vildi hins vegar geta þess, úr því að það kemur fram í lok þessa nefndarálits að ég hafi verið fjarverandi við afgreiðslu málsins, að það er rétt, ég þurfti því miður af persónulegum ástæðum að víkja af fundi skömmu áður en málið var tekið út úr hv. viðskiptanefnd og gat þar af leiðandi ekki verið viðstaddur afgreiðslu málsins. Ég hafði tekið þátt í umræðum um það áður og hefði ég verið viðstaddur afgreiðsluna hefði ég skrifað undir nefndarálitið en gert við það örlítinn fyrirvara, skulum við segja.

Ég vil þakka nefndarmönnum í viðskiptanefnd, bæði hv. þm. Lilju Mósesdóttur og Magnúsi Orra Schram, fyrir gott samstarf í tengslum við þetta mál. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum um nokkuð langt skeið talað fyrir breytingum á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög sem lúta að minnihlutavernd. Þar hefur farið fremstur í okkar hópi hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar flutt frumvörp sem mæla fyrir um aukna vernd minni hluthafa í hlutafélögum. Sjálfur hef ég tekið að mér að flytja mál sem tengjast því á meðan hv. þingmaður gegndi embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Við eigum því okkar sögu í tengslum við þennan málaflokk og því tökum við auðvitað þeim hugmyndum sem fram koma í frumvarpinu með opnum huga og styðjum þær í grundvallaratriðum.

Eins og kemur fram í nefndarálitinu byggir frumvarpið á skýrslu um vernd minni hluthafa í hlutafélögum og einkahlutafélögum sem Lagastofnun Íslands samdi fyrir viðskiptaráðherra í kjölfar bankahrunsins. Ég ætla ekki að fara yfir allar tillögurnar sem þar koma fram og gerð er grein fyrir í því ágæta nefndaráliti en þær eru, tel ég, að miklum hluta til góða. Það helst í hendur við það sem ég sagði áðan og kemur fram í nefndarálitinu að tilgangur frumvarpsins er fyrst og fremst að styrkja vernd minni hluthafa í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Við sem höfum talað fyrir málstað minni hluthafa í gegnum tíðina hljótum að styðja þau meginsjónarmið sem þar koma fram.

Ég sagði áðan að hefði ég getað verið viðstaddur afgreiðslu málsins hefði ég undirritað nefndarálitið með fyrirvara. Sá fyrirvari hefði lotið að því sem kemur fram í 13. gr. Þar er lagt til að samþykki hluthafafundar þurfi til að binda félag þegar gerður er samningur að raunvirði meira en 1/20 hlutafjár milli félagsins og ýmissa forsvarsmanna þess eða tengdra aðila. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Í þeim tilgangi að gera ákvæðið viðurhlutaminna og betur framkvæmanlegt leggur nefndin til að miðað verði við 1/10 hlutafjár og lágmarksfjárhæð samnings sem ákvæðið nær til verði að svara til lágmarksfjárhæð hlutafjár í hlutafélögum. Einnig leggur nefndin til að ákvæðið nái ekki til samninga fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga og félaga sem hafa verðbréf sín tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga.“

Ég tel að nefndin hafi gert rétt með því að gera þessa breytingu sem gerð er grein fyrir, að miða við 1/10 frekar en 1/20 hlutafjár þegar um er að ræða samninga sem þarna er fjallað um. Fyrirvari minn hefði snúið að því að ég hafði nokkrar áhyggjur af því, þegar þetta atriði var til umfjöllunar í nefndinni, að það gengi upp í framkvæmd. Mér sýnist þó miðað við þær breytingar sem gerðar hafa verið, sem ég tel nota bene að séu til bóta, að meiri hlutinn hafi fært málið í þann búning að það ætti að ganga upp.

Að öðru leyti vil ég lýsa jákvæðu viðhorfi í garð þessa máls og geri ekki ráð fyrir öðru en að það verði samþykkt sem lög á þinginu. Með því tel ég að stigin verði mikilvæg skref til þess að styrkja og auka vernd minni hluthafa í hlutafélögum.