138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

650. mál
[22:22]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

Frumvarp þetta var unnið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í samstarfi við Vegagerðina. Með stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í kjölfar efnahagshrunsins um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum var óhjákvæmilegt að gripið yrði til róttækra aðgerða, þar með talið með verulegum niðurskurði verklegra framkvæmda og með því að setja skorður við frekari skuldaaukningu ríkissjóðs. Þessar aðgerðir eru í samræmi við og byggðar á samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í kjölfarið hefur orðið verulegur niðurskurður í vegaframkvæmdum frá því sem upphaflega var áformað þó að miklar framkvæmdir séu í gangi á þessu ári eða fyrir hvorki meira né minna en 11,5 milljarða kr.

Við þessar aðstæður hefur verið horft til annarra valkosta til þess að auka atvinnu og til að flýta mikilvægum samgönguframkvæmdum sem annars þyrftu að bíða. Auk hefðbundinnar fjármögnunar samgönguframkvæmda hefur verið horft til aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun stærri vegaframkvæmda með öðru fyrirkomulagi fjármögnunar, þ.e. með veggjaldi.

Tilgangurinn með frumvarpi þessu er að skapa nauðsynlega umgjörð um aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun vegaframkvæmda sem lið í endurreisn atvinnulífs með innspýtingu nýs fjármagns til að draga úr atvinnuleysi og um leið að flýta arðbærum stórframkvæmdum í vegamálum. Lykilatriði við þá leið er að ekki verði um frekari skuldbindingar ríkissjóðs að ræða vegna þessara framkvæmda, þ.e. að þær verði fjármagnaðar með öðrum hætti en skuldsetningu eða ábyrgð ríkissjóðs. Lífeyrissjóðirnir verða því að meta hvert verkefni fyrir sig, áhættu af lánveitingunni og arðsemi verkefnisins. Skuldbinding hins nýja hlutafélags mun felast í því að innheimta veggjald í tiltekinn tíma til að standa undir árlegum endurgreiðslum lána frá lífeyrissjóðunum.

Virðulegi forseti. Í 5. gr. vegalaga, nr. 80/2007, er að finna heimild Vegagerðarinnar, með fyrirvara um samþykki samgönguráðherra, til að stofna félag eða félög sem hafi það hlutverk að sinna framkvæmda- og þjónustuverkefnum stofnunarinnar. Þessi heimild vegalaga var sett við aðrar aðstæður en eru í þjóðfélaginu í dag og ríma ekki við þær kröfur sem gera verður við núverandi aðstæður.

Ýmsar þjóðir hafa lagt á tímabundin veggjöld á afmörkuðum vegaköflum í því skyni að flýta einstökum framkvæmdum. Norðmenn hafa verið fremstir í flokki þjóða í gjaldtöku af þessu tagi og hafa tekjustofnar af henni þróast frá 30% af heildarframlögum á 9. áratugnum í um 50% eins og það er í dag. Hér á landi eru tvö dæmi um veggjöld til að flýta framkvæmdum, þ.e. vegna Reykjanesbrautar á 7. áratugnum og vegna Hvalfjarðarganga á 10. áratugnum. Eins og áður sagði hefur staða efnahagsmála hér á landi og alvarleg staða ríkissjóðs leitt til skoðunar á aðkomu lífeyrissjóðanna eða annarra fjárfesta að fjármögnun vegaframkvæmda auk annarra framkvæmda í landinu. Forsendur aðkomu lífeyrissjóðanna eru einkum þær að sjóðirnir fái viðunandi arð af fjárfestingum sínum, fjárfestingarnar séu þjóðhagslega arðbærar og ríkið taki ekki á sig neinar skuldbindingar sem færa verður sem lán í bókum þess.

Með frumvarpi þessu er lagt til að stofnað verði hlutafélag til að standa að tilteknum vegaframkvæmdum án þess að til komi ábyrgð ríkissjóðs á viðkomandi verkefnum.

Félaginu verður heimilað að annast rekstur, viðhald og lagningu vega, þar með talið áætlanagerð, hönnun, umhverfismat, útboð, samningsgerð við verktaka, eftirlit og annað sem nauðsynlegt er til að ljúka megi framkvæmd. Um leið er opnað fyrir þann möguleika að fyrirkomulagið verði óbreytt frá því sem nú er, þ.e. hinu nýja félagi er veitt heimild til að semja um kaup einstakra eða allra verkþátta af Vegagerðinni eða annast þá sjálft. Gert er ráð fyrir að sú leið verði valin sem leiði til mestrar hagkvæmni í rekstri hjá félaginu.

Gert er ráð fyrir að hlutafélagið afhendi Vegagerðinni viðkomandi vegarkafla til rekstrar að aflokinni byggingu og hlutverk félagsins verði síðan að afla fjár með veggjöldum til afborgunar lána af framkvæmdunum, nema ákveðið verði að veggjöldin skuli einnig ná til kostnaðar við rekstur og viðhald.

Við frumútreikning á veggjöldunum hefur verið við það miðað að kostnaður við hverja framkvæmd verði greiddur á 25–35 árum og jafnvel 40 árum. Veggjöldin eru reiknuð miðað við núverandi umferð en við eðlilegar aðstæður má reikna með umferðaraukningu á þessu tímabili. Með aukningu umferðar gefst svigrúm til lækkunar gjaldanna með tímanum líkt og gerst hefur með Hvalfjarðargöng. Þá þarf einnig að gera ráð fyrir því í samningum við lánveitendur að í einstaka tilvikum náist ekki að endurgreiða lánin á áætluðum tíma og því þarf að vera svigrúm til að lengja lán. Gert er ráð fyrir að veggjöld verði afnumin þegar kostnaður við viðkomandi framkvæmd hefur verið að fullu greiddur.

Í aðalatriðum er gengið út frá því að hver einstök framkvæmd verði sjálfbær þannig að veggjöld sem tekin eru á tilteknum vegi greiði upp framkvæmdakostnað við hann. Einnig kemur til álita að framkvæmdir á sama svæði verði gerðar upp í einu lagi. Sem dæmi má nefna vegina út frá höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut.

Hæstv. forseti. Ég vík nú að athugasemdum við helstu greinar frumvarpsins.

Í 1. gr. frumvarpsins er ráðherra veitt heimild til að stofna opinbert hlutafélag sem hefur það að markmiði að standa að lagningu tiltekinna vega ásamt nauðsynlegum undirbúningi. Eins og áður hefur komið fram er tilgangur frumvarpsins að stofna fyrirtæki til þess að skapa umgjörð um stærri vegaframkvæmdir sem byggjast á gjaldtöku af notendum en leiði jafnframt ekki til aukinna skuldbindinga ríkissjóðs.

Í 2. gr. er tilgangi félagsins lýst en hann er að annast lagningu vega auk þeirrar áætlanagerðar sem af því leiðir, þar með talið hönnun, útboð, samningsgerð við verktaka og annað sem nauðsynlegt er til að ljúka megi framkvæmd. Gert er ráð fyrir að tilgangi félagsins verði nánar lýst í samþykktum þess, en nauðsynlegt kann að vera að tilgangi félagsins verði að einhverju leyti breytt frá því sem kveðið er á um við stofnun þess, og verða slíkar breytingar þá gerðar á hluthafafundi í félaginu í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga um breytingar á samþykktum.

Í 3. gr. er fjallað um hlutafé félagsins og forræði þess. Skal hlutafé við stofnun félagsins vera 20 millj. kr. og greiðast úr ríkissjóði. Mun fjármálaráðherra fara með hlut ríkisins og framkvæmd laganna. Í greininni kemur einnig fram að ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.

Í 4. gr. er fjallað um stjórn félagsins og skal hún skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Skal stjórnin vinna að verkefnum sem félaginu eru falin í samráði og samvinnu við helstu hagsmunaaðila verkefna. Í 4. mgr. er kveðið á um að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skuli hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega. Rétt þykir að leggja áherslu á kröfur um hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra við meðferð mála og undirstrika að þeir komi ekki að afgreiðslu máls þar sem þeir eiga hagsmuna að gæta eða eru tengdir eða skyldir aðilum sem hafa slíka stöðu í samræmi við góðar stjórnsýslureglur.

Í 5. gr. er kveðið á um heimild ráðherra til að gera samninga við félagið um uppbyggingu, rekstur og viðhald vega í samræmi við markmið stjórnvalda og stefnumótun í samgöngumálum á hverjum tíma. Rétt þykir að skýra heimild þessa efnis sé að finna í lögum til þeirrar samningsgerðar þannig að ekki verði vafi um þær í ljósi samkeppnis- eða útboðsreglna.

Í 6. gr. er kveðið á um gjaldskrá félagsins en einn megintilgangur félagsins er að annast ákveðin verkefni gegn gjaldi. Gjaldinu er ætlað að standa undir öllum kostnaði við undirbúning og framkvæmd mannvirkja auk eftirlits og kostnaðar við álagningu og innheimtu gjalda. Í 2. mgr. er sérstaklega kveðið á um að eigandi ökutækis eða umráðamaður, ef um kaupleigu er að ræða, beri ábyrgð á greiðslu gjalda en það er gert til að skerpa á skyldu eiganda eða umráðamanns til greiðslu veggjalda en gjöldin eru aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar ef til vanskila kemur.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.