138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

650. mál
[22:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög áhugavert mál sem ég er fyrirfram fremur jákvæður fyrir. Það felur í sér að hæstv. ráðherra fær heimild til að stofna hlutafélag um vegagerð. Þetta er mjög víðtæk heimild og á þessu stigi geri ég engar athugasemdir við það út af fyrir sig. Það vekur hins vegar athygli mína að um er að ræða stjórnarfrumvarp tveggja stjórnmálaflokka, Samfylkingarinnar og VG. Í ranni VG hafa menn nú verið fremur lítt hrifnir af hugmyndum eins og þeim að stofna opinber hlutafélög, hvað þá að fela opinberum hlutafélögum að leggja vegi og annast rekstur þeirra.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort frumvarpið njóti ekki örugglega stuðnings stjórnarflokkanna. Það er kannski sérkennilegt að spyrja um það þegar um er að ræða frumvarp sem ráðherra í ríkisstjórn mælir fyrir en reynslan af þessari ríkisstjórn er hins vegar þannig að maður veit aldrei almennilega hvort frumvörpin sem kölluð eru stjórnarfrumvörp séu það að öllu leyti. Er t.d. öruggt að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar standi að þessu frumvarpi? Liggur fyrir skilyrðislaust samþykki þingflokka beggja stjórnmálaflokkanna fyrir málinu?

Við vitum að þetta hefur dálítið þvælst fyrir í nefnd sem skipuð var af hæstv. fjármálaráðherra og hafði það hlutverk með höndum að hrinda í framkvæmd ýmiss konar undirbúningi að einkaframkvæmdum, m.a. vegna pólitísks ágreinings um fyrirkomulagið. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að það sé strax skýrt við fyrstu umræðu hver staða málsins er, hver sé hin pólitíska staða þess, hvort um sé að ræða stjórnarfrumvarp og hvort það njóti stuðnings beggja stjórnarflokkanna, skilmálalaust og skilyrðislaust.