138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

650. mál
[22:38]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn þakka ég hv. þingmanni fyrir jákvæða ræðu um frumvarpið. Ég vil þó segja, virðulegi forseti, af því að orðið „einkaframkvæmd“ kom fram í máli hans, að þetta er ekki bein einkaframkvæmd sem slík. Einkaframkvæmd er, eins og rætt hefur verið um það hingað til, ef verkefnið er fyrst boðið út til einhverra aðila, einhver býður best og sá fær verkefnið. Þá aflar hann fjár með útboði, hannar verkið, vinnur það, rekur vegina o.s.frv. Það er hin eiginlega einkaframkvæmd. Hér förum við í raun og veru aðra leið.

Þetta er opinbert hlutafélag, 100% í eigu ríkisins, og er í raun og veru Vegagerðin, þó með ohf-i fyrir aftan. Félagið fer í framkvæmdina og býður út verkefnið. Vegagerðin stendur í verkefninu, hannar og undirbýr og allt það og undirbúningsferillinn er ef til vill langur. Þetta félag getur keypt gögn af Vegagerðinni og farið í framkvæmdina, aflað fjár með lánum frá lífeyrissjóðum en ekki endilega útboði, þó má gera það líka, vegna þess að fleiri hafa lýst því yfir að þeir séu tilbúnir að fjármagna svona verk, fleiri aðilar eru til í það. Svo er verkið unnið en ekki endilega séð um rekstur, hér er frekar átt við að hefðbundnir vegir séu í rekstri eins og annað vegakerfi landsmanna, en ekki sem slíkir í einkaframkvæmd. Þetta var sú leið sem var valin. Á ágætri ráðstefnu í janúar þar sem við fengum marga Norðmenn frá norsku vegagerðinni til að fræða okkur um þetta, var ég hrifnastur af þessari leið. Norðmenn eru hins vegar (Forseti hringir.) byrjaðir að fikra sig yfir í hefðbundnar einkaframkvæmdir eins og ég lýsti áðan, en í miklu minna (Forseti hringir.) mæli.