138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

650. mál
[22:50]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp til að ræða frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir sem hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur nú mælt fyrir.

Í frumvarpinu er gengið út frá því að lífeyrissjóðirnir fjármagni stærri vegaframkvæmdir í kjölfar verulegs niðurskurðar eins og lesa má úr samgönguáætlun sem nú liggur fyrir þinginu. Þá er einnig gert ráð fyrir að tekin verði upp veggjöld sem eru ekki ný af nálinni á Íslandi en þó er gert ráð fyrir samkvæmt frumvarpinu að þau verði víðtækari en áður hefur þekkst hér á landi.

Hvað varðar fjármögnun stærri vegaframkvæmda tel ég rétt að stjórn hins opinbera hlutafélags, ef af verður, skoði fleiri kosti en lífeyrissjóðina sem leið til að fjármagna hugsanlegar framkvæmdir. Vil ég í því sambandi helst nefna Evrópska fjárfestingarbankann og jafnvel aðrar fjármálastofnanir tengdar Evrópusambandinu sem allar líkur eru á að opnist okkur Íslendingum þegar við fáum formlega stöðu aðildarviðræðuríkis, hugsanlega eftir tíu daga.

Á heimasíðu Evrópska fjárfestingarbankans er að finna yfirlit yfir lánveitingar og reyndar líka fjármögnun ýmissa verkefna til ríkja sem eiga í formlegum aðildarviðræðum við sambandið. Markmið bankans með þessum lánveitingum er að stuðla að því að hugsanleg aðildarríki standi jafnfætis núverandi aðildarríkjum þegar og ef til aðildar kemur. Á heimasíðunni má m.a. sjá að áhersla hefur verið lögð á að lána til stórra samgönguverkefna, ýmist á föstum eða breytilegum vöxtum. Nú skal ég ekki segja til um hvaða kjör okkur Íslendingum mun bjóðast hjá Evrópska fjárfestingarbankanum en tel þó skynsamlegt að kanna hvaða kostir bjóðast í þeim efnum enda gæti komið sér vel að hafa úr fleiri en einni fjármögnunarleið að velja þegar kemur að því að leita leiða til fjármögnunar stórra vegaframkvæmda. Einnig kunna aðrir kostir að vera í boði sem ég ekki þekki en hæstv. ráðherra kann kannski einhver frekari skil á.

Nú liggur ekki endilega fyrir hvaða vegarkafla hugsanlegt hlutafélag mun telja eftirsóknarvert að ráðast í en umræðan í þessu sambandi hefur einkum beinst að stóru stofnbrautunum út frá höfuðborginni, þ.e. Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut. Ég tel skynsamlegt að horfa á stofnbrautir út frá höfuðborginni sem eina heild, enda rímar það vel við hugmyndir um að skilgreina Suðvesturhorn landsins sem eitt sóknarsvæði. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að tryggja góðar samgöngur innan svæðisins þar sem tveir þriðju hlutar landsmanna búa.

Reyndar kemur aftur upp í hugann sú staðreynd að við Íslendingar fáum væntanlega innan skamms formlega stöðu aðildarviðræðuríkis gagnvart Evrópusambandinu. Það þýðir m.a. að við munum hefja vinnu við að undirbúa tengingu íslenska samgöngunetsins við hið samevrópska samgöngunet sem gengur undir heitinu TEN-kerfið. Með leyfi frú forseta, Trans-European Network. Það kann að hljóma mjög undarlega í eyrum fólks að íslenska samgöngukerfið verði skilgreint sem hluti af hinu evrópska en staðreyndin er reyndar sú að við höfum verið hluti af þessu kerfi í nokkur ár, aðallega að nafninu til. Við höfum ekki tekið þátt í mótun stefnu og þróunarverkefnum á sviði samgöngumála og það er sá þáttur sem við munum fá þjálfun í á næstu missirum núna þegar kemur að því að vera aðildarviðræðuríki.

Ég er sannfærð um að við getum lært ýmislegt af öðrum þjóðum í samgöngumálum þar sem áhersla er lögð á vistvænar samgöngur og samþættingu allra samgöngumáta. Af því að ég minntist á samgöngur á Suðvesturhorni landsins má geta þess að sérstakt stuðningskerfi er að finna innan Evrópusambandsins sem vinnur sérstaklega að því að þróa lausnir og leita fjármögnunar í samgöngumálum á borgarsvæðum og í nágrannasveitarfélögum þeirra. Ég tel að við getum sótt ýmislegt í þá smiðju þegar og ef til þess kemur að við verðum hluti af þessu samfélagi.

Aðildarríki Evrópusambandsins fá styrki frá sambandinu til að viðhalda sínum hluta af TEN-netinu og munum við Íslendingar eflaust geta sótt í þá sjóði ef til aðildar kemur. Ég bind talsvert miklar vonir við að sú þjálfun sem við munum eiga rétt á á komandi missirum og þeim upplýsingum og fræðslu sem ég gat um áðan muni reynast okkur farsæl og því hef ég lagt til að fulltrúar í samgöngunefnd fái að taka þátt í þeirri vinnu og verði þannig betur í stakk búnir til að fjalla um og móta samgöngustefnu til 12 ára sem lögð verður fram á komandi haustþingi.

Þá að veggjöldum, frú forseti. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að hinu opinbera hlutafélagi verði heimilt að innheimta gjald fyrir notkun á mannvirkjunum. Gert er ráð fyrir að gjaldið standi undir kostaði við undirbúning og framkvæmd viðkomandi mannvirkja auk eftirlits, kostnaðar við innheimtu, viðhald og rekstur. Erfitt er að segja til um hvert gjaldið verður eða hvort það verður mismunandi eftir því hvaða stofnbraut er ekin. Þó verður að teljast líklegt að eitt og sama gjaldið verði innheimt á þessum þremur stofnbrautum, a.m.k. ef af framkvæmdum verður, og þær fjármagnaðar og skipulagðar sem ein heild. Í mínum huga er það grundvallaratriði að gæta jafnræðis í þessum efnum og finnst mér því sjálfsagt að teknir verði upp vegtollar á öðrum dýrum umferðarmannvirkjum, eins og í Héðinsfjarðargöngum og Bolungarvíkurgöngum, ef ákveðið verður að taka upp veggjöld á Suðurlandsvegi, Reykjanesbraut og Vesturlandsvegi.

Það er að mínu viti algjörlega óásættanlegt og deili ég þar með skoðunum hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur að reisa tollmúra umhverfis höfuðborgina innan sóknarsvæðis Suðvesturlands en láta aðra landshluta njóta góðs af því að framkvæmdir þar eru kostaðar af ríkissjóði. Íbúar á Suðurlandi og Reykjanesi eiga ekki að þurfa að greiða toll ef þeir sækja vinnu og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Frú forseti. Það er stór ákvörðun að taka upp veggjald á þjóðvegum landsins. Hún stríðir á vissan hátt gegn jafnaðarhugsjóninni sem við í Samfylkingunni höfum að leiðarljósi. Aðstæður nú eru hins vegar þannig að við þurfum að styðjast við bjargráð sem ekki eru endilega efst á óskalistanum, m.a. til að skapa störf í landinu og hrinda í framkvæmd arðbærum og skynsamlegum framkvæmdum. Með því að taka einstakar stórar framkvæmdir út fyrir sviga samgönguáætlunar og fjármagna þær með þessum hætti getum við vonandi á sama tíma reynt að halda við núverandi vegakerfi um allt land.

Eins og fram kom í máli hæstv. samgönguráðherra hér áðan þá munum við að mörgu leyti feta í fótspor frænda okkar í Noregi sem hafa 70 ára reynslu af notkun veggjalda við að fjármagna stórar framkvæmdir. Það hefur einmitt verið eftirtektarvert að fylgjast með því hvernig áhersla eða hlutfall vegafjár hefur aukist ár frá ári í vegagerð þeirra.

Mér finnst mikilvægt að líta á sérstök veggjöld sem tímabundna aðgerð til að fjármagna sérstakar framkvæmdir og með þessari GPS-tækni sem rætt hefur verið um hér í þessu sambandi verður auðveldara að innheimta þessi gjöld. Þá er líka mikilvægt fyrir neytendur að þeir verði vel upplýstir um skattlagningu á akstur þegar þar að kemur.

Að öðru leyti finnst mér þessi tækni mjög áhugaverð og ég held tvímælalaust að við verðum að stuðla að því að innleiða hana þegar færi gefst, árið 2017 eða fljótlega upp úr því.

Ég tel að frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir sé góðra gjalda vert. Ég ítreka þá skoðun mína að væntanlegt hlutafélag leiti eftir lánsfé víðar en hjá lífeyrissjóðunum og ég nefni aftur sérstaka lánastofnanir Evrópusambandsins í því samhengi. Þau lánakjör sem hlutafélaginu bjóðast munu ráða miklu um það hversu há veggjöldin verða. Það er því nauðsynlegt að geta valið á milli lánveitenda þegar og ef til þess kemur að þetta opinbera hlutafélag verður stofnað.