138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

650. mál
[22:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um stofnun einkahlutafélags í eigu ríkisins til að fara í einkaframkvæmdir í vegamálum. Ástæðan fyrir því að þetta gekk svona fram er mjög einföld. Það er vegna þess að við erum í raun og veru að uppfylla skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að við megum ekki taka á okkur meiri kostnað inn í ríkissjóð eða færa skuldbindingar sem lán í bókum ríkissjóðs vegna þessara framkvæmda. Þá er hugsunin sú að farið verði í ákveðna framkvæmd sem er hugsanlega fjármögnuð af lífeyrissjóðunum. Þeir eru oftast nefndir í þessu sambandi og er líka hægt að vitna í stöðugleikasáttmálann. Síðan munu notendagjöldin greiða upp kostnað við framkvæmdina þannig að þetta þýði ekki aukaútgjöld fyrir ríkissjóð.

Mig langar aðeins að koma inn á kunnuglegan texta sem kom frá fjármálaráðuneytinu í umsögn um frumvarpið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þeir aðilar sem koma að fjármögnun vegaframkvæmda verða því sjálfir að leggja mat á og taka sjálfir á sig þá áhættu sem kann að felast í tekjuáætlunum tiltekinna framkvæmda.“

Þetta er nánast orðrétt eins og sagt er í sambandi við byggingu nýs landspítala. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að skoðun mín er sú að ef einhver vafi er á að tekjuáætlun muni standa undir framkvæmdinni muni þeir aðilar sem taka framkvæmdina að sér gera ávöxtunarkröfu til að tekjuáætlun standi undir framkvæmdinni. Mér finnst menn skauta dálítið létt fram hjá þessu. Ef tekjuáætlun verður lakari koma að sjálfsögðu annaðhvort hærri vegtollar eða hærri ávöxtunarkrafa á verkið í heild sinni, þannig að það sé alveg skýrt.

Ég vil taka fram að ég tek frekar jákvætt í þetta mál og tel það mjög gott til að koma efnahagslífinu af stað aftur. Ég hef þó vissar efasemdir um það og tel að við þurfum að fara varlega. Ég vil fyrst nefna að í þessu tilfelli erum við að fara í einkaframkvæmdir með þessu félagi, en eins og fram kemur í samgönguáætlun eru uppi áætlanir um að fara í 33,3 milljarða framkvæmdir í vegáætlunum, þ.e. menn fara í einkaframkvæmd, bjóða verkið út, reka það og greiða með notendagjöldum. Á sama tíma erum við með 6,5 og 6 milljarða eða 7 og 7,5 milljarða í vegáætlunum 2011 og 2012 sem þýðir í raun og veru að af því að við ræðum fjögurra ára áætlun til 2014 erum við farin að setja stærri hluta inn í framkvæmdaþátt í vegagerð en við höfum sett í almennan þátt.

Einnig vil ég benda á að eins og ég sagði í upphafi máls míns erum við raunverulega að gera þetta til að hafa framkvæmdirnar fyrir utan efnahag ríkisins, fyrir utan ríkisreikninginn sjálfan. Mér telst til að þegar og ef þetta mál verður klárað verðum við komin með um 120 milljarða fyrir utan efnahag ríkissjóðs, þ.e. ef Landspítalinn verður byggður og farið verður í þessar vegaframkvæmdir, tónlistarhús og hjúkrunarheimili. Þetta eru á bilinu 110 til 120 milljarðar og ég set mjög stórt spurningarmerki við það. Ég tel að við séum komin út á mjög hála braut. Ég verð líka að minna á að þegar við afgreiddum fjárlög sl. haust gerðum við ákveðið samkomulag við stóriðjufyrirtækin um að þau greiddu fyrirfram skatta á árunum 2010, 2011 og 2012 sem byrjað verður að greiða til baka á árunum 2013, 2014 og 2015, en það eru um 1.200 millj. á ári. Við verðum aðeins að dempa okkur og átta okkur á umfangi ríkisfjármálanna í heild sinni því að það er ekki skynsamlegt að halda endalaust áfram á þessari braut. Ástandið er hins vegar þannig að þetta er gert til að koma hjólum atvinnulífsins af stað og líka til að uppfylla þau skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að við megum ekki færa skuldbindingar, þótt þær séu það sannarlega, inn í bækur ríkisins.

Það hefur verið rætt um tækni við að innheimta gjöldin sem er svokölluð GPS-tækni eða rafræn innheimta. Ég held að hún sé skynsamleg til framtíðar og í frumvarpinu koma reyndar fram ákveðin rök sem hníga að því að hitt muni fjara út og verða úrelt á nokkrum árum þegar notkun á umhverfisvænum bílum eykst. Ég tel þá tækni til mikilla hagsbóta og hæstv. ráðherra fór vel yfir að hægt sé að nýta hana á marga vegu, hvort heldur menn fara um borð í ferjur, í gegnum göng eða hvernig sem það er. Einnig er hugsanlegt að setja einhvern afslátt þar inn. Ég er þó dálítið hugsi yfir því sem gerist á tímabilinu 2014–2017. Áætlað er að við verðum búin að taka í notkun fyrstu framkvæmdina árið 2014 en þetta kerfi verður ekki tilbúið til innheimtu fyrr en árið 2017. Upphaflega var áætlunin sú að kerfið yrði tilbúið til innheimtu árið 2011 en því hefur verið seinkað um sex ár og ekki er útilokað að því seinki enn meira. Þá verða tvær aðferðir hugsanlegar og jafnvel fleiri. Önnur gæti verið sú að ekki væru greidd veggjöld eða vegtollar fyrr en árið eftir að hægt yrði að hafa þess konar innheimtu og hin að tekið yrði af vegafé viðkomandi árs til að greiða framkvæmdirnar niður. Þá kem ég aftur að því sem ég sagði áðan, virðulegi forseti, að sennilega færi stærsti hlutinn, ef ekki allt vegaféð, í að standa undir afborgunum og vöxtum af þessum framkvæmdum. Við munum að sjálfsögðu skoða þetta.

Síðan verð ég líka að taka undir með hv. þm. Önnu Margréti Guðjónsdóttur og Ragnheiði E. Árnadóttur um að það er ekki sanngjarnt að fara í framkvæmdir sem eru nauðsynlegar fyrir ákveðna íbúa landsins, t.d. í Hveragerði eða á Reykjanesi, til að þeir geti sótt vinnu og að þeir þurfi að borga vegtoll en aðrir ekki. Það er ekki sanngjarnt og verður aldrei. Við þekkjum það með Hvalfjarðargöngin að þau hafa kostað mikið á því svæði og fyrir þá sem nýta þau. Menn verða að taka þetta í heild sinni og gæta sanngirni gagnvart öllum, þótt ég sé í öðru kjördæmi.

Ég vil líka koma örlítið inn á að þó að þetta mál fari til úrvinnslu í hv. samgöngunefnd tek ég heils hugar undir, og tók sérstaklega eftir því þegar hæstv. ráðherra sagði það áðan, að það væri skynsamlegt að skipa þverpólitíska nefnd sem skoðaði alla vinkla á þessu máli, kosti og galla. Ég hef einnig rakið hvort við förum óvarlega eða fram úr okkur í einkaframkvæmdum og því að taka fyrir utan ríkisreikning, sem og það sem komið hefur fram í máli hv. þingmanna og snýr að þeim íbúum sem þessar framkvæmdir ná til en ekki að öðrum, þar sem framkvæmdir eru fjármagnaðar með vegafé almennt og íbúarnir þurfa því ekki að greiða vegtolla. Við erum sannarlega að marka nýja braut og taka vegtolla í miklu víðari skilningi en við höfum gert áður. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við förum vel yfir þetta. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að málið verði unnið þannig að við getum rætt það á þverpólitískan hátt og vonandi komist að niðurstöðu.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að ég tek jákvætt í þetta mál en vara hins vegar við því að mjög stór hluti af fjárlögum ríkisins sé tekinn fyrir utan efnahag og komi ekki fram í ríkisreikningi.