138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Fyrir rúmu ári komst það upp að Sjálfstæðisflokkurinn hafði tekið við háum greiðslum, styrkgreiðslum frá nokkrum stórfyrirtækjum hér á landi svo nam tugum milljóna króna. Einn þingmanna flokksins viðurkenndi síðar að hafa haft forgöngu um að afla þessara fjármuna, en lengi vel hefur verið óljóst um það hver tók síðan formlega við þeim og færði þá inn í sjóði flokksins.

Viðbrögð flokksforustunnar eftir að upp komst um málið voru að styrkirnir væru óeðlilega háir og ekki í anda flokksins og yrðu því endurgreiddir hið snarasta. Því hefur síðan verið haldið fram að svo hafi verið gert. Í ljósi þess spyr ég formann Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktsson, eftirfarandi spurninga varðandi þetta mál:

1. Hversu mikið hefur verið endurgreitt af þessum háu styrkjum?

2. Á hvaða kjörum eru lánin endurgreidd? Eru þau greidd með vöxtum, (Gripið fram í.) eru þau verðtryggð (Gripið fram í: Þetta eru ekki lán.) eða hvaða önnur kjör kunna að vera á þessum greiðslum?

3. Hvenær áætlar formaðurinn að styrkirnir verði endurgreiddir að fullu? (Gripið fram í.) Hver er síðasti gjalddagi? Hvenær á þessu að ljúka?

Síðan væri ágætt að fá upplýsingar um hverjir taka við þessum endurgreiðslum í ljósi stöðu þeirra fyrirtækja sem þarna áttu í hlut, þ.e. FL Group og Landsbankans. Er ekki rétt í anda þess að hafa allt uppi á borðum að Sjálfstæðisflokkurinn haldi landsmönnum, kjósendum sínum og öðrum, upplýstum um gang þessa máls, t.d. á heimasíðu sinni með þeim upplýsingum sem koma við þeim spurningum sem ég hef borið hér upp, um endurgreiðslutímabilið, kjörin og annað sem varðar þessa styrki?