138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Lögum samkvæmt setur stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna úthlutunarreglurnar og þær taka síðan gildi þegar menntamálaráðherra hefur staðfest þær og þær verið birtar í Stjórnartíðindum. Það þarf hvort tveggja að vera. Auðvitað geta þingmenn gert tillögur til ráðherra um hvernig þeim finnist úthlutunarreglurnar ættu að vera og tekið þær til umræðu eins og við höfum gert í menntamálanefnd þar sem rædd voru ný viðmið til námsárangurs.

Auðvitað munu þingmenn líka fara yfir reglurnar og kanna afleiðingar þeirra. Með breytingunum núna er miðað við 60% námsárangur fyrir fullt nám til framfærslu, þ.e. 18 einingar á önn, en þessu var breytt árið 2008. Áður var miðað við 20 einingar á skólaári. Þetta var rýmkað mjög mikið en fyrir þann tíma var gert ráð fyrir 75% námsárangri eins og gert er annars staðar á Norðurlöndum en núna er talað um að breyta þessu í 60% námsárangur sem er mun lægra en annars staðar á Norðurlöndum.

Svo kemur barnafólk vel út úr þessu kerfi. Þar er lítils háttar lækkun á framfærslu og til upplýsingar er kerfið gjöfult fyrir námsmenn þannig að ef maður hugsar um brúttótekjur fyrir skatt eru þær um 300.000 kr. fyrir námsmenn með tvö börn og um 360.000 kr. fyrir námsmenn með þrjú börn. Við getum haft til samanburðar að meðaltekjur í landinu eru um 306.000 kr.