138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Litlu verður Vöggur feginn — það má segja um þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa fundið sér sérstakt áhugamál í málefnum seðlabankastjórans. Ég verð að segja það eins og er að þráhyggjan sem einkennir málflutning þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessu máli ríður ekki við einteyming. Hér eru eilífar sakbendingar til hægri og vinstri og ég hlýt að spyrja mig að því hvort það sé þannig sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að taka þátt í endurreisn íslensks samfélags úr rústum, þeim sem hann kom okkur í fyrir stuttu.

Varðandi það mál sem hér er sérstaklega til umræðu vil ég segja að ég tel að málið liggi ljóst fyrir. Hæstv. forsætisráðherra hefur upplýst að henni hafi borist einn tölvupóstur frá umræddum seðlabankastjóra og honum hafi ekki verið svarað. Ég tel að málið sé fyllilega upplýst að þessu leytinu til en hins vegar verð ég að ítreka að mér finnst að við séum ekki að einbeita okkur að því sem mestu máli skiptir fyrir íslenskt samfélag satt að segja. Þess er ekki getið af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar, Sjálfstæðisflokksins einkum og sér í lagi, að nú sé meiri árangur í ríkisfjármálum en bjartsýnustu menn þorðu að vona, að við séum að ná aðhaldi í ríkisrekstrinum, að vonir séu til þess að við náum jákvæðum frumjöfnuði í ríkisfjármálum strax á næsta ári, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði farinn héðan af landi brott á næsta ári. (Gripið fram í: Á kostnað hvers?)

Ekki er verið að tala um þetta. Það er þrátt fyrir allt margt jákvætt sem við blasir í okkar rekstri. Nei, Sjálfstæðisflokkurinn tekur sig til og gerir þetta mál að stóra málinu. Við ættum kannski að gera úttekt á launakjörum seðlabankastjóra undanfarinn áratug eða svo, allra, og á heildarkostnaði ríkisins vegna launakjara seðlabankastjóra langt aftur í tímann ef það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill. Ég skora á formann Sjálfstæðisflokksins að gera sér grein fyrir því og taka af skarið um á hvaða leið Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að vera í uppbyggingu samfélagsins og kannski þarf hann að hreinsa til í eigin ranni. (Gripið fram í: Mega ráðherrar ekki …?)