138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

styrkir til stjórnmálamanna -- úthlutunarreglur LÍN -- launakjör seðlabankastjóra o.fl.

[11:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið mjög athygliverð umræða hér í dag, og sérstaklega eru athygliverð orð hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um að þetta mál varðandi seðlabankastjórann og launahækkun hans liggi ljóst fyrir. Spurningunni um hver lofaði seðlabankastjóranum launahækkuninni er ósvarað. Það er afskaplega óþægilegt (Gripið fram í.) og ég krefst þess einfaldlega að það verði upplýst. Og ég held að allir þingmenn, sama úr hvaða flokki þeir koma, hljóti að geta verið sammála um að það verður að svara þessari spurningu, bæði fyrir virðingu Alþingis og ekki síst fyrir virðingu forsætisráðherra. Ég tel að þetta sé spurning sem verður að svara, við hljótum öll að vera sammála um það.

Af hverju kom lagabreytingin fram sjö dögum eftir að hæstv. forsætisráðherra gekkst fyrir því að Már Guðmundsson var ráðinn seðlabankastjóri? Hvers vegna? (Gripið fram í: Var það ekki …?) Þessu hefur ekki verið svarað. (Gripið fram í.)

Og ég ítreka spurningu hv. þm. Birgis Ármannssonar: Hversu lengi ætla Vinstri grænir að láta toga sig niður í það svað sem þetta mál er orðið? Af hverju er þessum spurningum ekki einfaldlega svarað? Ætluðu menn ekki að viðhafa hér lýðræðisleg, opin og gegnsæ vinnubrögð? Var það ekki fyrirheitið? Og hvers vegna geta menn ekki staðið við þau orð sín? Er þetta of erfitt verkefni, er það það sem er? Af hverju er spurningunni ekki svarað?

Ég er ansi hrædd um að hefðu formerkin verið öfug, hefðu launakjör þáverandi seðlabankastjóra, Davíðs Oddssonar, verið til umfjöllunar og hefði Geir H. Haarde verið forsætisráðherra og málið vaxið á þennan hátt, hefðu hv. þingmenn Vinstri grænna staðið hér og krafist þess að málið yrði upplýst. (Gripið fram í.) Er það ekki það sem allir vilja? (Gripið fram í.) Vilja menn ekki að sannleikurinn komi í ljós, eða þolir sannleikurinn kannski ekki dagsljósið? Ég spyr heiðarlegra spurninga og ég vil fá svör.