138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[11:29]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki skrýtið að það sé kliður í salnum, það kemur svo sjaldan eitthvað frá heilbrigðisnefnd inn í þingsali að það fer um alla hv. þingmenn. En það er nákvæmlega það sem hefur gerst í dag, við erum hér með mál úr hv. heilbrigðisnefnd. Það hefur komið m.a. fram hjá formanni hv. heilbrigðisnefndar sem benti réttilega á að það er mjög lítið um mál í þeirri nefnd. Það er merkilegt vegna þess að núna gengur mjög mikið á í heilbrigðisþjónustunni. Reyndar fórum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar fram á það sérstaklega hvað eftir annað við fjárlagagerð að upplýst yrði um hvernig ætti að framkvæma fjárlögin á þessu ári. Það var ekki kynnt, virðulegi forseti, í þeim hraða sem við unnum fjárlögin á fyrir síðasta ár. Því miður, þvert á það sem menn lögðu upp með, hefur ekkert lagast í þeim vinnubrögðum. Ef eitthvað er eru þau verri en áður. Ef einhver heldur að það komi ekki niður á þjónustunni er það mikill misskilningur.

Við eigum enn þá eftir að fá því svarað á vettvangi heilbrigðisnefndar, og svo sem ekki bara þar heldur annars staðar, hvernig menn ætla að ná því uppleggi sem lagt er upp með í fjárlögum. Þar voru miklu fleiri spurningar en svör. Ég held að enginn okkar, virðulegi forseti, sé á annarri skoðun en þeirri að við viljum sjá heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða og við vitum að við höfum yfir minni fjármunum að ráða en áður til að ná þeim markmiðum. Þá erum við ekki bara að tala um fyrir fjárlög þessa árs, fjárlagaársins 2010, við erum að tala um að framlögin munu lækka 2011, 2012 og 2013 að öllu óbreyttu.

Þess vegna hefði verið mjög æskilegt að við hefðum nýtt tíma þingsins og í þessu tilfelli tíma hv. heilbrigðisnefndar til að fara vel yfir þessi mál, en það hefur ekki verið gert. Hins vegar datt þetta mál inn í nefndina. Málið gengur út á það að hæstv. heilbrigðisráðherra mælti fyrir frumvarpi til að ná því markmiði að auka sveigjanleika hjá stofnunum í heilbrigðiskerfinu til þess að þeim væri gert auðveldara að ná fram hagræðingu og sparnaði án þess að skerða þjónustu við sjúklinga. Sá aðili sem á að hafa eftirlit með gæðum heilbrigðisþjónustunnar, landlæknir, gerði ekki neinar athugasemdir við fyrirætlanir ráðherra og þetta mál fékk mjög góða umfjöllun í nefndinni. Í örstuttu máli ákvað meiri hluti nefndarinnar hins vegar að hreinsa nokkurn veginn allt út úr frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra og er að sjálfsögðu heimilt að gera það. Það eina sem maður hlýtur að spyrja er hvað ætla menn að gera í staðinn. Hvenær, núna eru nokkrir dagar eftir af þinginu, verður hv. heilbrigðisnefnd tilkynnt hvernig menn ætla að ná markmiðum fjárlaga?

Núna er kominn júní og það liggur fyrir að í það minnsta hefur ekki verið upplýst hvernig menn ætla að ná sparnaði á ýmsum viðkvæmum sviðum, t.d. hjá Sjúkratryggingum, hjá sérfræðilæknum. Það er mjög viðkvæmur þáttur. Ég held að ekki sé hægt að halda öðru fram en að hv. heilbrigðisnefnd, þá sérstaklega stjórnarandstaðan, hafi sýnt mikla þolinmæði í að bíða eftir þessum upplýsingum. Þetta frumvarp er það eina sem við höfum séð um rekstur heilbrigðisstofnana. Þegar það er tekið út er það beinagrindin ein, en aðrar upplýsingar höfum við ekki fengið. Í rauninni mætti gagnrýna hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar fyrir að hafa ekki gengið harðar eftir þessu, en þó voru lagðar fram ótal beiðnir um að fá upplýsingar um það hvernig menn ætla að framkvæma fjárlögin og ná aðhaldi og sparnaði á þessu ári og þeim næstu. Það er í rauninni óskiljanlegt, virðulegi forseti, að það sé ekki gert. Það er í rauninni sama hvaða mál hæstv. heilbrigðisráðherra hefur komið með og velt hér upp, það er allt endasleppt, t.d. kragamálið sem hæstv. heilbrigðisráðherra ætlaði að fara í af miklum krafti eftir að hún tók við en hætti síðan skyndilega við. Enginn veit af hverju en hæstv. heilbrigðisráðherra hætti við í kjölfarið á því að út kom skýrsla frá hópi sem hæstv. heilbrigðisráðherra setti sjálf á laggirnar og sýndi að hægt var að ná 2 milljarða kr. sparnaði á ári án þess að skerða þjónustu. Þvert á mikla andstöðu frá þinginu sem ýmsir aðrir heilbrigðisráðherrar hafa fengið í gegnum tíðina hefur hæstv. heilbrigðisráðherra fengið mikinn stuðning frá þinginu til að fara í nauðsynlegar aðgerðir sem miða að því að halda úti þeirri þjónustu sem við viljum sjá.

Það eina sem við höfum séð er þetta frumvarp sem er núna beinagrindin ein, í rauninni nafnið eitt. Því er í rauninni fullkomlega hafnað af meiri hluta heilbrigðisnefndar. Ég held að ég sé ekki einn um að átta mig ekki alveg á því hvaða röksemdir lágu fyrir því eða í það minnsta af hverju menn komu ekki með einhverja aðra valkosti. Verkefnið er hið sama.

Virðulegi forseti. Ég vildi fá að vita hvenær við fáum kynningu á því hvernig menn ætla að ná þessum sparnaði á þessu fjárlagaári og því næsta. Mig minnir að einhvern tímann hafi verið sagt að það ætti að kynna það í nefndinni í apríl eða maí. Eitt sinn var svarið það að menn væru að bíða eftir fjárhagsáætlunum stofnana. Þær eru löngu komnar. Reyndar koma menn almennt með fjárhagsáætlanir fyrir viðkomandi ár og eins og ríkisendurskoðandi hefur margoft bent á er það ráðherranna og þingsins að taka pólitískar ákvarðanir um hvaða leiðir eigi að fara til að ná fram sparnaði. Ríkisendurskoðandi sá sérstaka ástæðu til að senda út yfirlýsingu um það, ég veit auðvitað ekki af hverju, en það vekur hins vegar athygli að í heilbrigðismálum eins og öðrum þáttum hjá ríkisstjórninni þar sem menn þurfa að fara að taka þessar erfiðu ákvarðanir, og ekki bara í heilbrigðismálum, virðast ráðherrar og hv. þingmenn vísa þessu öllu til stofnana og vonast til að þær leysi einhvern veginn úr þessu. Það hefur kannski verið mest áberandi í menntamálum, en þar keppast menn á háskólastigi um það í fjölmiðlum að sannfæra almenning um að þeirra stofnun eigi að lifa en aðrar eigi hugsanlega að minnka umsvif sín og jafnvel ekki verða til. Pólitísk stefnumótun af hálfu ríkisstjórnarinnar er hins vegar nákvæmlega engin.

Það getur vel verið að það séu komnar mjög góðar áætlanir, eða í það minnsta áætlanir, í heilbrigðismálum. Hins vegar höfum við ekki hugmynd um það. Og við höfum kallað eftir þeim. Við höfum kallað eftir þeim hvað eftir annað. Það eina sem hefur komið er þetta frumvarp sem hefur nú verið kallað eftir af forstöðumönnum stofnana og ýmsum sem hafa starfað annars staðar. Svar hv. heilbrigðisnefndar við þessu frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra er mjög skýrt; önnur tveggja efnisgreina sem frumvarpið gengur út á er hreinlega tekin út, algjörlega, fullkomlega, frumvarpsgrein ráðherrans er tekin út án þess að setja neitt annað í staðinn. Og hin frumvarpsgreinin er útvötnuð.

Þetta er það sem við höfum tekið út úr heilbrigðisnefnd núna ef undan er skilið málið um ljósabekkina.

Virðulegi forseti. Það getur verið að ég gleymi einhverju, en ég held þó að svo sé ekki. Það er ekki mikið búið að gerast á vettvangi nefndarinnar. Þá er ég ekki að gagnrýna hv. formann nefndarinnar, alls ekki. Hv. formaður er lipur þingmaður sem gott er að starfa með og alla jafna sanngjörn í samskiptum sínum við stjórnarliða sem stjórnarandstæðinga, þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um það hvað stjórnarmeirihlutinn ætlar að gera í heilbrigðismálum. Ef stjórnarmeirihlutinn er búinn að taka ákvarðanir um það hvað hann ætlar að gera í heilbrigðismálum er kominn tími á að hann upplýsi bæði þá sem eiga að framkvæma ákvarðanirnar og sömuleiðis hv. heilbrigðisnefnd sem og þingheim og þjóðina.

Skilaboðin fram til þessa eru einfaldlega þau að viðleitni ráðherrans, sú litla viðleitni sem við höfum séð, er afgreidd með því að hugmyndir ráðherrans eru nokkurn veginn þurrkaðar út. Það væri gaman að heyra hvort allir hv. þingmenn meiri hlutans í heilbrigðisnefnd séu sáttir við það. Ekki hafa önnur sjónarmið heyrst í umræðunni frá meiri hlutanum en að menn séu afskaplega ánægðir með það, a.m.k. hefur ekki annað komið fram í þingsalnum. Ég held að það væri skynsamlegt og eðlilegt, virðulegi forseti, ég tala nú ekki um á þessum degi þar sem ekki liggur mikið fyrir þinginu þó að við ætlum að funda fram á kvöld, að við mundum aðeins tjá okkur um heilbrigðismálin. Þau er nefnilega einn þessara stóru málaflokka og meðal þeirra stóru verkefna sem við erum að takast á við í núverandi stöðu. Það er skemmst frá því að segja að þessi risastóri málaflokkur snertir okkur öll, hvort sem við þurfum á slíkri þjónustu að halda eða ekki, því að við viljum geta gengið að heilbrigðisþjónustunni og við eigum öll einhverja nákomna eða fólk sem okkur er hlýtt til sem þarf á slíkri þjónustu að halda. Það má færa full rök fyrir því. Ég held að sjónarmið almennings sem koma fram með ýmsum hætti, m.a. í kosningum til sveitarstjórna, séu að við séum ekki að ræða hér þau mál sem skipta máli og ekki vinna hlutina með þeim hætti að þeir skili sér.

Ég ætla ekki að halda ræður um óskyld en mikilvæg málefni eins og skjaldborgina um heimilin eða eitthvað slíkt, ég er bara að ræða heilbrigðismál vegna þess að þetta er eitt af sárafáum tækifærum til að ræða um það sem skiptir máli í þeim. Ég kalla eftir því að hv. þingmenn stjórnarliðsins upplýsi þingheim og þjóðina um það hvað er að gerast í þeim málaflokki. Það hefur ekki verið gert á vettvangi nefndarinnar sem við höfum beðið eftir og ég skrifa það á hæstv. ráðherra. Ég ætla hv. formanni heilbrigðisnefndar ekki annað en að fylgja eftir beiðnum stjórnarandstöðunnar um að fá upplýsingar um það hvernig menn ætla að framkvæma fjárlögin. Framkvæmd fjárlaga er bara hvernig menn ætla að haga heilbrigðisþjónustu í landinu. Sveigjanleikinn í fjárlögunum er mjög mikill og það er pólitísk ákvörðun hvernig menn framkvæma fjárlögin. Eins og ríkisendurskoðandi hefur bent á er það stjórnmálamannanna að taka ákvörðun um það. Ef við erum að tala um að við viljum auka lýðræðið og gagnsæið o.s.frv. eigum við að ræða það hér. Ég sé ekki annan vettvang til að ræða heilbrigðismálin en þennan lið og tengist þetta svo sem allt efnisatriðum frumvarpsins þar sem hér kemur fram vilji hæstv. ráðherra með tillögum til að auka svigrúm stofnana til að ná fram hagræðingu án þess að skerða þjónustuna. Önnur mál sé ég ekki á þessum síðustu dögum þar sem við getum rætt um heilbrigðismálin ef undan er skilið frumvarp um ljósabekkina. (Gripið fram í: Gott mál.) Menn geta haft allar skoðanir á því máli, en ég held að menn hljóti að vera sammála um að menn verði að líta á heilbrigðismálin í stærra samhengi en út frá ljósabekkjum.

Virðulegi forseti. Ég er áhugasamur um að sjá hvort hv. þingmenn stjórnarliðsins vilja eitthvað tjá sig um heilbrigðismálin. Það væri gaman ef við tækjum saman störf þingsins frá áramótum, hvað við erum búin að nota mikinn tíma til að ræða þennan mikilvæga málaflokk. Það deilir enginn um að hv. heilbrigðisnefnd hefur ekki mörg önnur verkefni en þau sem hún tekur upp á sjálf, eins og að fara í heimsóknir í ágætar stofnanir og slíkt, á vettvangi hv. heilbrigðisnefndar. Menn hafa ekki enn þá upplýst það sem beðið var um fyrir áramót, núna þegar komið er fram á mitt árið, um það hvernig menn ætla að framkvæma fjárlögin sem þýðir það hvernig menn ætla að sinna heilbrigðisþjónustunni á landinu. Meiri hlutinn hefur hins vegar tekið tilraunina frá hæstv. heilbrigðisráðherra um að auka sveigjanleika hjá heilbrigðisstofnunum til að ná þeim markmiðum sem við erum sammála um og gengið þannig frá málinu að það er ekkert eftir af því. Ef einhverjar aðrar hugmyndir eru um það hvernig menn ætla að ná fram hagræðingunni og sparnaðinum hefur það farið fram hjá mér. Þá væri ágætt að fá það upplýst, virðulegi forseti.