138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[11:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega hefði verið gott og hollt fyrir okkur öll að ræða meira um heilbrigðismálin á þinginu í vetur og aðra vetur. Þetta er mikilvægur málaflokkur en ætli megi ekki túlka það svo að eins og er séu þau í þokkalegu standi hjá okkur. En viðkvæmur málaflokkur er þetta sannarlega.

Ég vil minna hv. þingmann á að hann hefur mörgum sinnum kallað eftir því að farið verði í hið svokallaða kragamál, þ.e. endurskipulagningu heilbrigðisþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu. Farið hefur verið yfir það mál með heilbrigðisnefnd. Hæstv. ráðherra og ráðuneytisfólk hefur komið á fund nefndarinnar og skýrt frá því að það verkefni hafi verið lagt til hliðar í bili og þar við situr. Eins hefur hæstv. ráðherra og ráðuneyti verið gerð grein fyrir því á hvaða sviðum verið sé að vinna til að ná fram sparnaði, ekki eingöngu vegna niðurskurðarins nú heldur til framtíðar. Þar koma inn í myndina stórir málaflokkar eins og lyfjamálin sem verið er að vinna markvisst að.

Mikil vinna hefur farið fram innan Landspítalans sem eðlilega er dýrasti pósturinn í heilbrigðisþjónustunni. Þar hefur farið fram mikil endurskipulagning í samráði við ráðuneytið til að koma til móts við mikinn skuldavanda þeirrar stofnunar og eins Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Eftir þeim umsögnum sem nefndin fékk er ekki talin ástæða til að breyta 1. gr. laganna í frumvarpinu. Hægt hefði verið að gera allar þessar skipulagsbreytingar miðað við núgildandi lög og komið er til móts við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þannig að ég tel að þetta sé í ágætishorfi.