138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[11:53]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Úr því hv. þingmaður minnist á það sem gerðist í minni tíð sem ráðherra þá var að sjálfsögðu allt undir og það snerist ekki bara um Kragann, það snerist um allt landið. Það snerist m.a. um sjúkraflutninga sem farið var í sérstaka stefnumótun út af og sérstaklega tekið til þeirra þegar menn voru að skoða hvernig halda ætti uppi heilbrigðisþjónustu.

Ég heyrði ekkert nema flatan niðurskurð hjá hv. þingmanni. Það er það sem hv. þingmaður er að segja þegar hún segir að við séum að bíða eftir rammaáætlun og að við getum ekki farið fram úr ráðuneytinu. Það er mjög einfalt. Ég er ekki að halda því fram að allt sem gert var í ráðuneytinu þegar ég var þar eða það sem gert var í ráðuneytinu áður en ég kom þangað hafi verið fullkomið. Ég efast um að menn hafi náð einhverri fullkomnun við þær áætlanir sem þar eru til. Ég vil bara að það verði upplýst hvað á að fara að gera. Ef menn vilja ekki fara þær leiðir — ég vek athygli á því að það var ekki ég heldur núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra sem reiknaði það út að hægt væri að spara tvo milljarða með því að skipta verkefnum á milli Landspítalans og kragaspítalanna, tvo milljarða á ári. Það var ekki ég, það var núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra. En það hefur komið fram að ekki á að fara þá leið. Allt í lagi, þá fara menn ekki þá leið. Menn ætla bara að fara í flatan niðurskurð.

Hv. þm. Þuríður Backman benti réttilega á að flatur niðurskurður er engin lausn. Það er besta leiðin til að skerða þjónustu svo að maður snúi hlutunum við. Eða réttara sagt versta leiðin til að halda uppi þjónustu, langversta leiðin. Það er eina leiðin sem núverandi ríkisstjórn hefur farið, flatur niðurskurður. Þinginu er að ljúka, virðulegi forseti, ég er í hv. heilbrigðisnefnd og ég hef ekki séð neitt annað en flatan niðurskurð. Ég hef heldur ekki séð hvernig menn ætla að framkvæma þennan flata niðurskurð t.d. í sjúkratryggingunum. Það hefur ekki verið upplýst. Mér líst ansi illa á seinni hluta ársins svo ekki sé (Forseti hringir.) dýpra í árinni tekið.