138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:09]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Þuríður Backman erum sammála um seinna atriðið varðandi heilsugæsluna. Ég tel að breyting meiri hlutans skipti engu máli fyrir frumvarpið eins og það kom frá hæstv. heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytinu, orðalagið er bara annað. Ég tel því að atriðið með heilsugæsluna sé í lagi, það nær tilgangi sínum.

Ég er ósammála hinu, varðandi innra skipulag heilbrigðisstofnana almennt. Þar var talað um sjúkrahúsin og meira en heilsugæslustöðvar. Það er auðvitað ekki svo, að heilbrigðisráðuneytið og hæstv. heilbrigðisráðherra útbúi lagagrein og hæstv. heilbrigðisráðherra flytji hana ef hún skiptir ekki máli. Það gæti svo sem verið en ég held að það sé ekki þannig í þessu tilviki. Hv. þm. Þuríður Backman sagði að hæstv. heilbrigðisráðherra vildi ekki hafa bundið í lögum hvernig innra skipulagi skyldi háttað á heilbrigðisstofnunum og það er rétt. Það var megintilgangur frumvarpsins. En það er verið að hlaupa frá þessu. Hér eru þau rök borin fram að þetta skipti svo sem engu máli því að talsvert mikilli hagræðingu hafi verið náð og breytingar gerðar án breytinga á lögum. Ég tel að það sé ekki þannig. Ég tel að hægt sé að ná mun meiru fram ef lögunum er breytt eins og hæstv. heilbrigðisráðherra vildi.

Það er rétt að það komu fram ólíkar skoðanir í umsögnum sem við fengum og það er eðlilegt. Þetta er stór og mikil hagsmunabarátta. Menn geri sér fyllilega grein fyrir því. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Læknafélag Íslands og læknasamtökin voru á móti þessu. Af hverju? Þetta er hagsmunabarátta. Við eigum ekki að hlaupa eftir henni að mínu mati í þessu máli. Innra skipulag stofnana á að vera sveigjanlegt. Það á ekki að vera rígbundið í lög. Það er gamaldags og úrelt. Við áttum að samþykkja lagabreytingarnar eins og þær komu frá hæstv. heilbrigðisráðherra.