138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að í skipuriti hverrar stofnunar sé alveg skýrt hverjir bera faglega ábyrgð. Ég tel að það sé mikilvægast að við höldum áfram þeirri þróun sem hefur verið, sem betur fer, að innan hverrar heilbrigðisstofnunar sé unnið með þverfaglegum hætti og menn deili ábyrgð. Það verður alltaf einhver að vera ábyrgur fyrir faglegri vinnu, að skýrt sé hvar ábyrgðin endanlega liggur. Það er ekki hægt að vísa faglegri ábyrgð til faglegra yfirstjórnenda sem eru ekki fýsískt í nágrenninu. Á deildum á stofnunum þarf einhver að vera faglega ábyrgur. Sem betur fer er gert ráð fyrir því í núgildandi lögum að aðrir fagstjórnendur en þeir sem við höfum talað um innan heilbrigðisstofnunar, beri faglega ábyrgð á þjónustunni sem þeir veita og heyrir undir þá í samræmi við stöðu þeirra í skipuriti stofnananna. Aðrir fagaðilar koma því hér inn.

Ég hef ekki litið svo á að þetta væri hagsmunabarátta ákveðinna heilbrigðisstétta, alls ekki. Auðvitað getur hagsmunagæsla á einhverjum sviðum blandast inn í en þetta snýst fyrst og fremst í mínum huga um faglega ábyrgð og að hún sé skýr. Í þeim niðurskurði og skipulagsbreytingum sem við stöndum frammi fyrir tel ég ekki síður mikilvægt að við stöndum vörð um faglega ábyrgð. Komi svo í ljós að núgildandi lagasetning tefji eða komi í veg fyrir algera umbyltingu eða skipulagsbreytingar þá eigum við að skoða það og ég tel að það sé á ábyrgð nefndarinnar að taka upp þá umræðu.