138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega og góða ræðu og það væri betra ef við tækjum hér einmitt umræðu eins og þessa. Ég tel að við þurfum að skoða ekki bara þessa þætti heldur líka heildarskipulag heilbrigðismálanna í landinu. Það er skoðun mín að við séum með of margar og of litlar stofnanir og við gætum náð hagræðingu í yfirstjórn. Við höfum stigið nokkur skref en of smá og á meðan þau eru of smá mun það koma harkalega niður á þjónustunni því að þá þarf að fara í flatan niðurskurð alls staðar.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að breyta þarf vinnulagi hvað þetta varðar. En ég var ekki að kalla eftir því áðan og hef ekki verið að kalla eftir því hvað eigi að gerast einungis á næsta ári. Ég vil fá að vita, og ég vildi nú kanna hvort hv. þingmaður er ekki sammála því, hvernig menn ætla að framkvæma fjárlögin í ár. Það hefur t.d. ekki verið gert enn þá varðandi sjúkratryggingarnar, við vitum það bara ekki, en það liggur fyrir að þar er mikil aðhaldskrafa á ákveðnum liðum og það er auðvitað pólitísk ákvörðun hvernig menn framkvæma það. Ég ætlaði því að kanna hvort hv. þingmaður væri ekki sammála mér um það að við ættum að fá þær upplýsingar og ræða það mál. Sömuleiðis vildi ég spyrja hv. þingmann beint, af því að mér fannst það mjög athyglisvert sem kom fram hjá henni, hvort hv. þingmaður styðji meiri hlutann í þessari vinnslu nefndarinnar. Ef ég man rétt var hv. þingmaður ekki í nefndinni þegar þetta var tekið út og er ekki á nefndarálitinu, en ef mig misminnir getur hv. þingmaður leiðrétt mig og þá útskýrt af hverju hún styður málið.