138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:37]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Það hefur löngum verið þannig að ef stofnanir eru þokkalega reknar þá þýðir það að innan þeirra stofnana er samvinna á milli þeirra sem þar vinna. Oftar en ekki, hvort heldur við ræðum stéttir innan heilbrigðisgeirans eða aðrar stéttir, ráða innbyrðis átök fagstétta, hver á að vera hvar og hver á að gera hvað. Oftar en ekki hefur reynst erfitt að ná þessum fagstéttum saman að borðinu til að ræða heildarmyndina af því hvernig hlutirnir eigi að vera, hvernig skynsamlegast sé, fyrir þjóðina, íslenska ríkið, fyrir þann sem heldur utan um, að reka heilbrigðisstofnanir og hvernig skynsamlegast sé að nálgast það á þann veg að fagþekkingin sé fyrir hendi en hagkvæmni í rekstri.

Oft er talað um að eigi fagþekkingin að ráða verði ekki hagkvæmni í rekstri. Í mínum huga er sú nálgun röng. En þegar við stöndum frammi fyrir því, í þeim þrengingum sem íslensk þjóð er í og við þurfum að fara í gegnum allt frá a til ö, hvernig við getum veitt þá grunnþjónustu og þá þjónustu sem íbúar þessa lands eiga rétt á og þeim finnst að þeir eigi rétt á, hlýtur löggjafinn að þurfa að velta því fyrir sér hvar og hvernig hann getur komið að. Ætlar hann að taka undir og ýta við því að hagkvæmni ráði för? — í því hugtaki felst fagþekking, þ.e. hagkvæmni í rekstri getur aldrei verið til staðar nema fagþekkingin fylgi. Það er algerlega ljóst og menn geta ekki í sjálfu sér farið undan hvað það varðar. Það er engin hagkvæmni í rekstri heilbrigðisstofnana á landinu, heilsugæslustofnana eða hvaða stofnunar sem er nema fagþekkingin sé fyrir hendi hjá þeim sem eiga að veita þjónustuna. Hins vegar vita það allir sem vilja vita að það má aldrei og hefur aldrei mátt, hvorki innan heilbrigðisgeirans né annarra geira, hrófla við toppunum. Það er bara þannig. Þeir hafa oftar en ekki staðið keikir á meðan hinir sem vinna á gólfinu, eins og stundum er talað um, geta fengið að fjúka. Það hlýtur að vera hægt, frú forseti, að hagræða innan heilbrigðisþjónustunnar, að þar þurfi ekki að vera hver silkihúfan upp af annarri svo að hægt sé að reka einfalda heilbrigðisþjónustu eða flókna heilbrigðisþjónustu.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir — þar sem talað er um í 1. gr. að 2. mgr. 17. gr. laganna verði svohljóðandi: „Forstjórar og framkvæmdastjórnir heilbrigðisstofnana skulu hafa samráð við faglega yfirmenn í heilsugæslunni þegar sérmál hennar eru til ákvörðunar“ — er í sjálfu sér gott og gilt. En vinna menn ekki svona öllu jöfnu? Og hvað þýðir það að hafa samráð? Þýðir það að menn þurfi að komast að sameiginlegri niðurstöðu, þýðir það að menn þurfi að ræða sig niður á einhverja niðurstöðu? Og ef niðurstaðan er sú að forstjórar og framkvæmdastjórar hafa aðrar skoðanir en faglegir yfirmenn í heilsugæslunni, hver ræður þá? Hvað verður þá ofan á? Væntanlega verður það ofan á sem þeir sem stýra telja skynsamlegast að verði gert án þess að fagleg grunnþjónusta skerðist. Hvort það þýðir að einhver yfirlæknir fýkur eða einhver yfirhjúkrunarkona fýkur er ekki meginmálið. Meginmálið hlýtur alltaf að vera, frú forseti, að í landinu sé heilbrigðisþjónusta sem veitir þá grunnþjónustu sem fólkið í landinu á rétt á, sem fólkið í landinu vill að hér sé en ekki heilbrigðisþjónusta sem ræðst af því hvort eða hvaða yfirlæknir eða hvort eða hvaða yfirhjúkrunarkona er í hverri stöðu á hvaða heilsugæslu sem er.