138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:43]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er kjarni máls sem kom fram hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Þetta snýst bara um eitt, það snýst um það hvernig við getum haldið hér heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Þetta snýst, virðulegi forseti, um hvert sé hlutverk löggjafans og hvað löggjafinn geti gert til að auðvelda okkur þetta verkefni sem er sameiginlegt verkefni þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Ég gæti best trúað að það væru ekki margir fleiri á mælendaskrá hér eftir að ég hef talað þó að ekkert sé útilokað í þeim efnum. Það þýðir að við höfum þá væntanlega rætt í einn og hálfan tíma á þessu þingi um málið, einn og hálfan tíma.

Virðulegi forseti. Nú er það bara þannig að orð gera eitt og sér lítið, það þarf meira að koma til. Ég veit ekki hvað við erum búin að fara yfir mörg mál og hve lengi á þessu þingi, mörg afskaplega mikilvæg en þó eru fá sem eru jafnmikilvæg og þetta verkefni, að ná fram því markmiði að vera með heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða með minni fjármunum.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum bæði stjórnarliðum og stjórn fyrir málefnalega og góða umræðu en ég hef ekki enn þá, virðulegi forseti, — ég bið hv. formann nefndarinnar Þuríði Backman að fylgjast með því — fengið frá stjórnarliðum hvort þeir vilji fara í nefndina og upplýsa hvernig við ætlum að ná fjárlögum þessa árs.

Virðulegi forseti. Mér þykir það skipta afskaplega miklu máli og ég held að það sé ekki góður bragur á því þegar búið er að biðja um það frá því fyrir áramót og nú tala ég í mestu vinsemd og reyni að gera þetta eins kurteislega og mér frekast er unnt að við yfirgefum ekki þingið núna í júní og vitum ekki hvernig við ætlum að framkvæma fjárlögin. Það er í það minnsta ekki búið að upplýsa hv. heilbrigðisnefnd. Ég teldi æskilegra að taka þá umræðu í þinginu en það getur verið að við komumst ekki í það, en að hv. heilbrigðisnefnd gerði alla vega það sem hv. heilbrigðisnefnd bað um, í það minnsta fulltrúar minni hlutans, en ég hélt að góð samstaða væri í nefndinni um að gera það fyrir áramót. Það var ekki útskýrt, ekki í hv. heilbrigðisnefnd, ekki í hv. fjárlaganefnd hvernig menn ætluðu að ná þessum markmiðum og hvernig menn ætluðu að vinna innan þessara ramma sem liggja fyrir. Þá er enginn, virðulegi forseti, að tala um að fá einhverja einstaka færslu hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun, það er enginn að tala um það. En það er afskaplega mikilvægt að það sé stefna í heilbrigðismálum og hún sé skýr. Enn sem komið er hefur ekki komið nein stefna, virðulegi forseti, önnur en sú sem síðasta ríkisstjórn var með, það hefur engin önnur komið. Hæstv. heilbrigðisráðherra vildi í það minnsta taka part af þeim stefnumálum. Að vísu er hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra að vinna mjög í anda þess sem gert var varðandi lyfjamálin og hefur verið góð sátt um það. Einhvern tíma hefði verið slegist um það hér á þinginu ef menn færu í þær aðgerðir en það hefur verið góður samhljómur á milli fyrrverandi ríkisstjórnar og núverandi ríkisstjórnar hvað það varðar.

Hins vegar eru allir sammála um það að sparnaðurinn muni koma einhvers staðar niður. Menn eru almennt sammála um að versta leiðin sé flatur niðurskurður en það er sú leið sem við förum núna. Það sem meira er þá verður flati niðurskurðurinn innan sjúkratrygginganna ekki framkvæmdur öðruvísi en það komi einhvers staðar verulega niður, meira en t.d. með flötum niðurskurði varðandi sjúkratryggingahluta sérfræðilækninga. Það er alveg ljóst og þær tölur sem menn samþykktu í fjárlögunum eru þess eðlis að það verður að gera það með einhverjum öðrum hætti en því sem kallað er almennt flatur niðurskurður, með því að setja einhverja prósentutölu á hverja stofnun.

Virðulegi forseti. Þetta er verkefni okkar. Það er þannig að margir stjórnmálamenn í Svíþjóð og Finnlandi, sem voru í svipaðri stöðu og við í bankakreppunni, áttu ekki afturkvæmt í pólitík. Þeir þurftu að taka sér það erfið verkefni. Það er vanþakklátt og þó svo að þeim væri þakkað það einhvern tíma seinna þá voru þeir meðvitaðir um það þegar þeir fóru í þá vegferð að það gæti þýtt að þeir fengju í rauninni bara að klára verkefnin en þyrftu síðan að bíða í einhvern tíma áður en þeir kæmust í eitthvað álíka aftur eða snúa sér að einhverju allt öðru.

Núna, virðulegi forseti, svo maður tali um hlutina eins og þeir eru, ýtum við bara vandanum á undan okkur. Við erum að vonast til þess að hver dagur leysist einhvern veginn án þess að við þurfum að taka þessar nauðsynlegu ákvarðanir. Af því að hv. þm. Þuríður Backman vísaði á aðgerðir mínar, hvernig ég nálgaðist þetta á sínum tíma, þá er ég ekkert að biðja um að menn geri hlutina nákvæmlega eins og ég lagði upp með. Það eina sem ég er að segja er að menn þurfi hins vegar að segja hvernig þeir ætli að gera það. Ef við trúum því að við viljum fá lýðræðislega umræðu, gegnsæja eða hvað þetta er allt saman, þá verða menn að upplýsa hvaða leið þeir ætla að fara. Flatur niðurskurður á næstu 3–4 árum mun þýða að það verður milljarði minna fyrir spítalann á Akureyri. Alveg sama hve vel mönnum gengur að ná hagræðingu í rekstri þýðir það einfaldlega að spítalinn á Akureyri verður ekki eins og við þekkjum hann nú. Það er útilokað. Það er fullkomlega útilokað. Hann mun ekki komast neitt nálægt því að vera með það þjónustustig sem hann er með nú. Við þurfum að ákveða það. Viljum við fara þá leið eða ætlum við að ná þessu fram með einhverjum öðrum hætti?

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir vísaði í það sem menn oft notuðu í ræðum að aldrei megi, eins og hv. þingmaður notaði á skýrri íslensku og gerir oft, hrófla við toppunum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé það sem við þurfum að gera. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að geta samið eins og var gert á Landspítalanum þar sem menn tóku 21 svið niður í 7. Ég tel að það sé það sem við þurfum að gera yfir landið. Þetta hefur verið gert á sumum sviðum. Nú er meira og minna sameinuð Heilbrigðisstofnun Vesturlands, stofnun sem verður allt frá Akranesi til Hólmavíkur og Hvammstanga með báða síðastnefndu staðina undir. Ef menn trúa því að gott sé að gera það af hverju gera menn það ekki á þeim stöðum þar sem á eftir að fara í slíkar aðgerðir? Ef við trúum því að þessar sameiningar geti skilað sér í því að við getum haldið uppi þjónustustiginu með minni fjármunum þá er næsta spurning: Ætlum við þá að refsa íbúum annarra svæða eða ætlum við að umbuna þeim og setja meiri fjármuni þangað en á svæðin sem verða fyrir sameiningu ef þannig má að orði komast? Við þurfum líka að ræða það sem er mikilvægt, hvernig við sjáum til þess að staðarþekkingin á hverjum stað, því að þetta eru gríðarstór svæði, nýtist við stjórnun viðkomandi stofnana. Þetta eru allt saman praktískir hlutir sem við þurfum að fara yfir. Það þýðir ekki að við ætlum að skipta okkur af því. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði að það væri ekkert unnið með því, ef ég skildi hv. þingmann rétt, ef þingmenn væru að vesenast í einhverjum smæstu atriðum í stofnunum. Ég er alveg sammála því. Ég held að það sé mjög óskynsamlegt. Ég held að ég hafi ekki misskilið hv. þingmann þegar hún fór yfir það. Það er ekki það sem ég er að tala um. Það sem ég er að tala um er einfaldlega þetta: Heilbrigðisþjónustan í landinu er eitthvað sem við viljum viðhalda. Ég hef ekki heyrt einn einasta þingmann eða Íslending, ef út í það er farið, sem vill ekki hafa heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða fyrir alla Íslendinga. Ég þekki nákvæmlega engan.

Núna er þetta svo, virðulegi forseti, að það er ekki sjálfgefið að við gerum nokkurn veginn flest það sem við þurfum að gera fyrir þá sem veikjast á Íslandi á Íslandi. Nágrannar okkar, Færeyingar og Grænlendingar, þurfa t.d. að sækja mjög mikla þjónustu annað. Við höfum smátt og smátt hins vegar, þessi fámenna þjóð, rúmlega 300 þúsund, fært nokkurn veginn allt nema sértækustu aðgerðir hingað til Íslands. Það eru gæði sem er ekki sjálfgefið að halda í fyrir utan, virðulegi forseti, að við eigum bæði aðstöðu og starfsfólk sem getur gert fleiri aðgerðir en nú. Að vísu eru þó nokkuð margir erlendir aðilar sem sækja þjónustuna, t.d. augnsteinaaðgerðir, margir Færeyingar og aðrir Norðurlandabúar, en við getum gert miklu meira af þessu. Við eigum spítala sem eru ekki notaðir eða mjög lítið og þá er ég að vísa í skurðstofurnar. Það er mjög lítil nýting á þeim. (Gripið fram í.) Við getum bæði séð heilbrigðisstarfsfólki á heimsmælikvarða fyrir verkefnum og að sama skapi skapað gjaldeyristekjur fyrir þjóðina sem gerir það að verkum að við þurfum þá minna að spara í heilbrigðisþjónustunni og á öðrum þeim sviðum sem við viljum hafa í sem allra besta lagi.

Við verðum að ræða þetta, virðulegi forseti. Mín tilfinning er sú að þetta sé viðkvæmt mál meðal stjórnarflokkanna. Í það minnsta hefur núverandi ríkisstjórn stoppað að þessi tækifæri séu nýtt, hreinlega stoppað það. Það þýðir að heilbrigðisstarfsfólk Íslands hefur ekki fengið að nýta þau tækifæri og við höfum stöðvað möguleikann á gjaldeyristekjum inn í landið. Nú geta menn haft allar skoðanir á því hvernig eigi að framkvæma þessa hluti og það er sjálfsagt að fara yfir það en þetta er umræða sem við verðum að taka. Eins og margoft hefur verið nefnt í umræðunni er í raun það eina sem við höfum séð á þessu þingi í þá veru að löggjafinn komi að þessu verkefni. Þetta er það eina því að með fullri virðingu fyrir þeim fjórum málum sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór ágætlega yfir áðan, allt ágætis mál sem góð sátt var um, þá hefur það ekkert með þetta verkefni að gera. Við klárum fljótt þessa umræðu, það er mín spá. Þá höfum við rætt í einn og hálfan tíma, virðulegi forseti, á öllu þessu þingi um málið, einn og hálfan tíma, og meiri hlutinn er búinn að taka allt bit úr viðleitni hæstv. ráðherra.

Virðulegi forseti. Þar sem ég fagna því að hv þm. Þuríður Backman ætli að fara í andsvar þá vildi ég biðja hv. þingmann að svara því hvort það sé ekki vilji hv. þingmanns að fara sérstaklega yfir það sem við báðum um að yrði gert í desember, þ.e. framkvæmd fjárlaga fyrir þetta ár.