138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir það, það er miður að ekki skuli vera meiri samstaða um hvernig tjaldað er til málsins í þinginu. Á hinn bóginn vil ég taka það fram að í nefndinni urðu gríðarlega góðar samræður á milli nefndarmanna um þau grundvallaratriði sem fjallað var um. Það er samstaða og samkomulag um það á milli allra flokka að nauðsynlegt er að fara í leiðangurinn að breyta stjórnarskránni. Megininntak málsins, eða markmiðið sjálft, er ekki deiluefni, þ.e. við erum öll sammála um að nauðsynlegt sé að breyta stjórnarskránni. Ég er fylgjandi því að boða til stjórnlagaþings en er jafnframt á þeirri skoðun að það væri hugsanlegt að skoða aðrar leiðir. Æskilegt hefði verið að við hefðum náð samkomulagi um hvernig það skyldi gert en eftir nokkra fundi með nefndinni kom einfaldlega í ljós að það er það langur vegur á milli fólks, þrjár leiðir uppi á borðum í þeim efnum, að ekki verður komist lengra í samkomulagsátt. Þá einfaldlega verða menn að taka málið til efnislegrar umræðu í þingsal. Það blasti við mér að ekki mundi nást samkomulag hvort sem var, eins og staðan var orðin. Það eru mismunandi sjónarmið uppi og fólk er ekki tilbúið til að hnika mikið frá þeim. Það sem ég tel mikilvægast í þessu öllu er að samkomulag er um megininntak málsins, að ráðast í breytingar á stjórnarskránni. Það skiptir mig mestu máli. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að við ráðum málið til lykta á þinginu núna.