138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:34]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni allsherjarnefndar fyrir þetta svar. Þá spyr ég á móti: Af hverju er þá verið að efna til stjórnlagaþings með öllum þeim kostnaði fyrst við erum ekki að afsala okkur einu eða neinu? Við getum bara klárað þetta verk sjálf og fengið sérfræðinga í lið með okkur, sérfræðinga sem hafa vit á stjórnskipunarrétti o.s.frv., í staðinn fyrir að fara í þá rúllettu sem mér sýnist stjórnlagaþingið vera.

En ástæðan fyrir því að ég spurði hv. formann allsherjarnefndar að því hvort honum liði ekki illa yfir því að hæstv. forsætisráðherra væri ekki í salnum við aðalumræðu þessa máls er einföld og vil ég þá vitna í nefndarálit meiri hluta allsherjarnefndar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að forsætisráðherra fari með eins konar yfirstjórnarhlutverk gagnvart stjórnlagaþingi.“

Ég spyr: Eigum við í þingsal að vera í aðalumræðu þegar yfirverkstjóri á væntanlegu stjórnlagaþingi lætur ekki svo lítið að kíkja hingað inn?