138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að taka jafn vel í málaleitan hv. þm. Óla Björns Kárasonar og raun ber vitni. Sú staða er uppi að hæstv. forsætisráðherra hefur sjálfur lýst því yfir hvarvetna, bæði innan þings og í fjölmiðlum, að það mál sem er hér til umræðu sé eitthvert hið mikilvægasta ef ekki mikilvægasta mál þessa vorþings. Það skýtur því óneitanlega skökku við að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki vera hér til að taka þátt í umræðum eða eftir atvikum fylgjast með umræðum og svara spurningum sem til hennar kunna að koma. Málið er, eins og öllum er kunnugt, runnið undan rifjum hæstv. forsætisráðherra sem hefur átt allt frumkvæði í því. Þetta er sérstakt áhugamál hennar, baráttumál, og þess vegna skýtur það skökku við að hún skuli ekki láta sjá sig við þessa umræðu.