138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

fjárhagsstaða heimilanna.

[15:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að umræða um stöðu heimilanna og skuldavanda þeirra komist á dagskrá þingsins í dag. Ég vil byrja á að taka fram að allt frá því að efnahagshrunið varð hér á landi, og við þingmenn og ríkisstjórnin, bæði sú fyrri og sú sem nú starfar, höfum róið að því öllum árum að koma á friði að nýju í samfélaginu, höfum við í Sjálfstæðisflokknum talað um það og það verið sjónarmið okkar að þeim friði og þeirri ró væri ómögulegt að koma á fyrr en sátt hefði skapast á heimilunum í landinu. Sú sátt byggir ekki bara á þeim lýðræðisumbótum sem oft ber á góma í umræðum í þinginu, hér stendur yfir og er í fresti umræða um stjórnlagaþing og oft ræðum við um ýmsar aðrar lýðræðisúrbætur sem vissulega er þörf á að vinna að, en ég tel engu að síður að þessi sátt muni miklu frekar nást, fyrr og öruggar, með því annars vegar að tryggja úrræði sem vinna gegn atvinnuleysinu og hins vegar að ráða bót á skuldavanda heimilanna. Því miður er það svo að þrátt fyrir að nú séu bráðum tvö ár liðin frá bankahruninu hefur aldrei hærra hlutfall heimila í landinu verið með neikvæða eiginfjárstöðu. Tölurnar sem rannsóknir Seðlabankans sýna okkur, þ.e. tölur sem kynntar voru núna á vormánuðum, eru auðvitað mjög sláandi. Þar kom fram m.a. að alveg sérstaklega hátt hlutfall ungs fólks skuldar meira en það á í húsnæði sínu, þ.e. eiginfjárstaðan er neikvæð. Þar kom líka fram að íslensk heimili eru meðal þeirra skuldsettustu í sögunni sem hafa gengið í gegnum fjármálakreppu af þeim toga sem við erum að glíma við.

Vandinn er mikill og við höfum í sjálfu sér verið sammála um það en okkur hefur greint dálítið á um úrræðin. Það sem ég kem upp til að ræða sérstaklega við forsætisráðherra er hversu seint úrræðin hafa gengið eftir, þ.e. þau hafa reynst hægvirkari en vonir stóðu til. Í haust afgreiddum við mál t.d. varðandi skuldaaðlögunina og í þingstörfunum gerðum við ráð fyrir því að um 3.000 heimili gætu nýtt sér þau úrræði sem þar voru til umræðu. Það kom síðan í ljós á vormánuðum að í vetur höfðu einungis 300 heimili nýtt sér þau úrræði eða u.þ.b. 10% af þeim fjölda sem við höfðum vonast til.

Heilt yfir, þegar maður lítur á þau þingmál sem eru til afgreiðslu á þinginu og til meðferðar í nefndum, blasir við manni mikill bútasaumur, engin heildstæð sýn á vandann sem við er að etja. Það er mikið áhyggjuefni, sérstaklega þegar tölurnar sýna okkur að við erum ekki búin að ná tökum á vandanum. Ég tek þó fram að margt hefur áunnist, t.d. hafa bankarnir verið að bjóða upp á niðurfellingar sem augljóslega var þörf fyrir, t.d. á gengistryggðum lánum. Bankarnir hafa líka boðið höfuðstólsleiðréttingar á verðtryggðum lánum og sérstaklega þegar viðkomandi er tilbúinn til að færa sig yfir í óverðtryggt umhverfi, en heildstæð tök á vandanum höfum við ekki enn sem komið er og það er töluvert langt í land. Við getum horft t.d. til Íbúðalánasjóðs þar sem engin slík úrræði standa fólki til boða sambærileg þeim sem bankarnir bjóða upp á. Við horfum líka fram á það samkvæmt nýjustu tölum sem við höfum að u.þ.b. 23% heimila í landinu eru líkleg til þess að lenda í greiðsluerfiðleikum, hér um bil fjórðungur allra heimila í landinu. Þetta er vandi sem ekki er hægt að víkja sér undan.

Minn flokkur hefur allt frá því fyrir rúmu ári síðan, frá því fyrir síðustu kosningar og strax í kjölfar þess að kosið var vorið 2009, boðið upp á þverpólitíska samstöðu um þessi mál. Ég held að það muni ekki koma margar nýjar hugmyndir upp á borðið hversu lengi sem við ræðum málin í þinginu, hugmyndirnar eru allar komnar fram. Við þurfum hins vegar að hafa kjark og áræði til að hætta að rífast um það hver eigi bestu hugmyndina og fara að grípa til aðgerða. Því miður hefur umræðan haft tilhneigingu til að fara ofan í skotgrafir um það hversu viturleg eða óviturleg hin og þessi hugmyndin er og þá skiptir yfirleitt mestu úr hvaða þingflokki hún hefur átt upptök sín.

Það sem mér finnst brýnt að við gerum okkur grein fyrir núna þegar einungis lifa nokkrir dagar eftir af þingstörfunum á vorþinginu er þetta: Þær tillögur sem liggja fyrir þinginu eru ólíklegar til að ná utan um vandann, við okkur getur blasað enn stærri vandi strax á haustmánuðum ef ekki verður tekið dýpra í árinni. Ég tel einsýnt að sá friður sem þarf að nást í samfélaginu, sú ró verði ekki unnin nema stigin verði stærri skref til að koma til móts við greiðsluvanda heimilanna. Ég vil lýsa alveg sérstökum áhyggjum af stöðu ungra heimila, eflaust má reikna það út að viðkomandi fjölskyldur geti með herkjum staðið í skilum næstu 15, kannski 20 árin, en þá fer líka bróðurparturinn af öllum ráðstöfunartekjum viðkomandi heimilis næstu árin, jafnvel næsta áratuginn, í það að vinda ofan af þeim vanda sem er orðinn til. Hvers konar framtíðarsýn er það fyrir unga fólkið í landinu? Hvers konar framtíð er það fyrir barnafjölskyldur í landinu að þurfa að eyða meira og minna öllum ráðstöfunartekjum sínum í það að uppfylla þröng skilyrði bankanna eða til að passa inn í þau úrræði sem ríkisstjórnin er tilbúin til að bjóða upp á sem lausn á vandanum?

Við höfum rætt það allt frá hruninu, allt frá því að nýja bankakerfið var stofnað, hversu mikil og augljós þörf væri fyrir niðurfærslu skulda og það hefur síðan komið í ljós að bankarnir sjálfir hafa tekið frumkvæðið og fært niður skuldir. Ég hef nefnt hér dæmi þess bæði varðandi erlendu lánin og íbúðalánin, en það þarf að ganga lengra. Við gerum það til að viðhalda kaupmætti í landinu og við gerum það til að tryggja ríkinu áframhaldandi tekjur af eðlilegum umsvifum. Við gerum það til að losa um þá spennitreyju sem heimilin eru í og við þurfum á því að halda til að skapa frið í samfélaginu.

Hin hliðin á þessu máli sem ég hef svo sem ekki getað farið djúpt í í þessari stuttu ræðu minni eru auðvitað atvinnumálin. Atvinnumálin eru eitt stærsta velferðarmál heimilanna. Þar vitum við auðvitað að ríkisstjórnin hefur verið aðgerðalaus og henni hafa verið mislagðar hendur í því að skapa ný störf. Ekki er tími til að fara ofan í það en að sjálfsögðu verður að gera heimilunum í landinu kleift að afla sér ráðstöfunartekna til að geta staðið í skilum.