138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

fjárhagsstaða heimilanna.

[15:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hér var mynduð minnihlutastjórn sem hafði það verkefni að ráðast í úrbætur á stöðu heimilanna, þeim brýna vanda sem þá var þegar kominn upp og var svo brýnn að við töldum aðeins þrjár vikur til stefnu. Nú, hátt í einu og hálfu ári seinna, hefur ósköp lítið gerst. Forsætisráðherra fer hér með sömu hagtölur og við höfum heyrt alllengi, eini munurinn er sá að nú er hæstv. forsætisráðherra farin að skilgreina Samfylkinguna sem hrunflokk með Sjálfstæðisflokknum en áður hefur Sjálfstæðisflokkurinn einn verið settur í þann hóp af hæstv. forsætisráðherra.

Ég ætla ekki að rifja upp allar þær tillögur sem við höfum lagt fram varðandi nauðsynlegar, almennar aðgerðir varðandi skuldastöðu heimilanna en vil þó benda á að nú sjáum við loksins að þær forsendur sem þar voru lagðar til grundvallar standast. Það er til staðar svigrúm til að ráðast í almennar aðgerðir og nú sjáum við augljóslega þörfina fyrir slíkar aðgerðir.

Hér var talað um niðurstöður Seðlabanka Íslands sem eru sláandi og sýna að 23% heimila eru í vanda. En það gleymist að nefna, þó að reyndar sé það nú tekið fram hjá Seðlabankanum sjálfum, að bankinn tekur ekki tillit til hinna ýmsu útgjaldaliða heimilanna. Hann lítur bara á lágmarkskostnað við að eiga mat til að halda sér gangandi og eitthvert þak yfir höfuðið. Kostnaður við tryggingar og fasteignagjöld er ekki tekinn með í reikninginn og ekki heldur við síma, eldsneyti, áskriftir, ekki einu sinni afborganir af námslánum eða kostnaður við að hafa börn í skóla. Þegar allt þetta kemur saman og þessum óhjákvæmilegu útgjöldum er bætt við er líklega um eða yfir helmingur íslenskra heimila í þeirri stöðu að ráða ekki við skuldir sínar. Og það er neyðarástand sem kallar á aðgerðir sem menn mundu kannski ekki grípa til við aðrar aðstæður.

Í staðinn er gripið til fleiri og fleiri frestunaraðgerða. Það var ágætisdæmi um þetta á vefmiðlinum Pressunni þar sem fjölskyldufaðir sagði frá því að það hefði átt að leysa skuldavanda fjölskyldu hans með því að lengja lánstímann úr þremur árum í fimmtán og láta restina falla á ábyrgðarmenn. Þetta átti að vera þessi varanlega lausn og er þá kannski svolítið í stíl við lausn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland sem gengur út á það að bæta við skuldum en sjá svo fyrir sér að menn borgi endalaust af þeim, nánast alveg út í hið óendanlega.

Þetta eru ekki varanlegar lausnir, þetta eru allt frestunaraðgerðir. Í október á þessu ári verður ekki hægt að fresta vandanum lengur. Þá þurfa menn að fá niðurstöðu í það hvernig eigi að bregðast við til framtíðar. Og það verður að klára það mál á þessu þingi. Þess vegna eigum við ekki að ræða þessi 108 mál eða hvað það nú er sem ríkisstjórnin vill klára á þessum síðustu dögum, við eigum að einbeita okkur að (Forseti hringir.) stöðu heimilanna og atvinnumálunum og engu öðru.