138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

fjárhagsstaða heimilanna.

[15:22]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef áhyggjur af því að skuldaúrræði okkar gangi ekki nógu langt. Úrræðin ná ekki til allra heimila og fela í sér allt of litlar afskriftir. Tregða okkar til að taka á skuldavanda heimilanna dýpkar fjármálakreppuna. Of stór hluti heimila hefur ekki nóg aflögu þegar búið er að greiða af lánum og kaupa nauðsynjar. Mörg heimili sjá ekki aðra leið út úr skuldafangelsinu en gjaldþrot. Önnur heimili álíta fasteignakaup of áhættusöm og bíða átekta.

Herra forseti. Grípa verður til eftirfarandi aðgerða strax:

Lækka þarf almennt höfuðstól lána til að örva eftirspurn, ekki aðeins þarf að lækka höfuðstól lána hjá bönkunum, heldur líka hjá Íbúðalánasjóði.

Byggja verður upp félagslegt leigukerfi fyrir þá sem ekki geta greitt sanngjarna leigu.

Samræma þarf skuldaúrræðin þannig að vildarvinir bankanna njóti ekki betri úrræða en þeir sem eru tekjulægri.

Hækka þarf verulega framfærsluviðmið í sérstakri skuldaaðlögun og greiðsluaðlögun þannig að fólk þurfi ekki að leita á náðir hjálparstofnana.

Gera þarf fólki kleift að skila lyklum að eign sinni eigi það tvær eignir og hafi það keypt eign þegar fasteignaverð var í hámarki.

Setja þarf þak á vexti lána til að koma í veg fyrir að lánastofnanir hækki vexti til að ná inn höfuðstólslækkun lána.

Að lokum, herra forseti, þarf að koma í veg fyrir að gjaldþrota einstaklingar séu krafðir til dauðadags um greiðslu eftirstæðra skulda.