138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

fjárhagsstaða heimilanna.

[15:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Fagna ber umræðunni hér í dag um mikilvægasta mál sem við þingmenn þjóðarinnar glímum við á þessum stundum. Heimilin eru hornsteinn samfélagsins og skuldavandi heimilanna er vandi þjóðarinnar. Ef heimilin fara halloka í þessari baráttu er þjóðin í miklum vanda.

Fyrr í vetur kynnti ríkisstjórnin aðgerðapakka sinn til þess að taka á skuldavanda heimilanna með miklum lúðrablæstri og stórum blaðamannafundi þar sem fram kom að þegar þessi úrræði væru komin væri búið að svara öllum þeim vanda sem ríkisstjórninni væri kunnugt um varðandi skuldavanda heimilanna. Þetta er frekar stór yfirlýsing og stórt tekið upp í sig með svona orðalagi. Þrátt fyrir að félagsmálanefnd starfi nú einhuga að því að finna leiðir til þess að aðstoða þá einstaklinga og þau heimili sem eru komin í mikinn greiðsluvanda við að fá bót sinna mála er aðalspurningunni enn ósvarað. Með hvaða hætti ætlum við að tryggja að það verði ekki fleiri heimili sem þurfa að nýta sér úrræðin? Það er stóra spurningin. Stærsta spurningin sem við glímum við og henni hefur ekki verið svarað.

Ég verð að segja, herra forseti, að sú ræða sem hæstv. forsætisráðherra flutti hér áðan olli miklum vonbrigðum. Hér var ekki á ferðinni forsætisráðherra sem var kominn til að vekja von í brjóstum þeirra þúsunda einstaklinga sem eru í miklum skuldavanda. Því miður. Hér fór ekki forsætisráðherra fram með neina framtíðarsýn um það hvernig íslensk heimili eiga að ná að byggja sig upp að nýju. Því miður.

Þau frumvörp sem liggja fyrir þinginu og eru í vinnslu í félagsmálanefnd og eins bílalánafrumvarpið sem er í efnahags- og skattanefnd koma ekki til með að breyta því að fleiri heimili þurfi á úrræðum að halda. Því miður. Það skýtur svolítið skökku við að sú ríkisstjórn sem situr í landinu kenni sig við norræna velferð eða velferð yfir höfuð þegar áhuginn á þessum málaflokki og lausn þessara mála virðist ekki vera meiri en hér birtist. Ég er mjög hrygg yfir þessari niðurstöðu og því að þurfa að segja þetta en svona er þetta bara.

Ég er þess fullviss að það væri betra að eyða tímanum sem við eigum eftir á sumarþinginu í þessi mál. Hvernig ætlum við að svara þessari aðalspurningu?

Ég skora á allan þingheim að stilla nú saman strengi og forgangsraða í þágu íslenskra heimila. Það er það sem við þurfum. Forgangsröðun í þágu íslenskra heimila með það að markmiði að vekja íslenskum fjölskyldum þá von að við séum að gera eitthvað sem skiptir máli, sem tekur á þessum skuldavanda þannig að það eina sem blasi við sé ekki að fara í þrot og leita í þau (Forseti hringir.) miklu, þungu úrræði sem felast í greiðsluaðlöguninni. (Forseti hringir.) Umboðsmaður skuldara kemur ekki til með að leysa úr þessum vanda.