138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

fjárhagsstaða heimilanna.

[15:41]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu undir þessum dagskárlið í dag. Það sem stendur auðvitað upp úr er að við erum öll sammála um að vandinn sé mikill en við erum hins vegar ósammála um hvort nægilega mikið hafi verið að gert. Svo grípa auðvitað nokkrir þingmenn tækifærið og tala um hverjum allt saman sé um að kenna. Ég held að ef við festumst í þeirri umræðu verði enn þá minna gert en raun ber vitni.

Áhyggjur mínar snúast fyrst og fremst um fjölmenna kynslóð ungs fólks í landinu sem rétt nær endum saman og hefur greiðslubyrði þar sem ráðstöfunartekjurnar fara meira eða minna allar í að standa í skilum með húsnæðislánin. Stórt hlutfall þessa hóps skuldar í dag meira en virði þeirrar eignar sem fjölskyldan býr í. Þetta er ungt barnafólk. Ef við bjóðum þessu unga barnafólki, framtíð landsins, upp á það næstu árin að nota meira eða minna allar ráðstöfunartekjur sínar til þess að standa í skilum með fasteign sem er minna virði en lánið sjálft, þar sem nánast öll afborgun allra lánanna fer í að borga vexti, þá erum við að bjóða upp á framtíð sem er ekki spennandi og sá valkostur að láta gera sig upp verður raunhæfari, þá erum við að bjóða upp á framtíð sem er ekki glæst og getur orðið ein helsta hvatning þess að viðkomandi fjölskyldur bregði búi, flyti annað, nýti sér allt frelsið sem Evrópska efnahagssvæðið hefur upp á að bjóða, réttinn til þess að fá menntun sína viðurkennda annars staðar og atvinnuréttindi sín viðurkennd hvar sem er á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Auðvitað höfum við því miður séð of mikið af því nú þegar.

Það sem ég kalla hér eftir er meira raunsæi. Það sem ég kalla eftir er að menn virði þær upplýsingar sem liggja fyrir þinginu um að vandinn sé gríðarlegur. Það sem ég er auðvitað líka að kalla eftir eru markvissari aðgerðir í þágu atvinnuuppbyggingar, að okkur takist að skapa störf. Það gagnast fjölskyldum lítið sem eru að glíma við atvinnuleysi að fá skuldaleiðréttingu tímabundið ef þeim eru á sama tíma allar bjargir bannaðar til að standa í skilum.

Við þurfum að vinna að verðmætasköpun í landinu. Ég hef auðvitað margoft tekið það fram hér í þingsölum að hugmyndir ríkisstjórnarinnar eru ekki til þess fallnar að auka verðmætasköpun þegar við erum með undirstöðuatvinnugreinarnar í ákveðnu uppnámi. Við þurfum að hafa kjark og vit og þor til þess að nýta þær auðlindir sem landið býr yfir til að halda áfram atvinnuuppbyggingu, verðmætasköpun og lífskjaraþróun þannig að við stöndumst samkeppni við aðrar þjóðir.

Heilt yfir er staða skuldavanda heimilanna sú að opinberar tölur sýna okkur að þær aðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til duga ekki. Fólk nýtir sér ekki úrræðin, einungis í kringum 10% af þeim sem gátu leitað skuldaleiðréttingar gerðu það eða 10% þeirra sem við spáðum fyrir um. Að öðru leyti hefur staða heimilanna því miður batnað afskaplega takmarkað þrátt fyrir hinar margvíslegu aðgerðir. Þetta sýna tölur Seðlabankans. Þetta er áhyggjuefnið. Þetta er tilefni umræðunnar hér í dag. Þetta er málið sem við þurfum að fara að ná betur utan um, ríkisstjórnin að horfast í augu við vandann og við á þinginu að taka höndum saman um að leysa vandamálið. (Forseti hringir.) Það verður engin sátt í samfélaginu almennt fyrr en sátt kemst á við heimilin.