138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

fjárhagsstaða heimilanna.

[15:45]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um skuldavanda heimilanna. Ég held þó að ástæða sé til að halda því til haga, í ljósi þess að ýmsir af þeim sem hér hafa talað hafa haldið því fram að lítið sem ekkert hafi verið gert til þess að koma til móts við skuldavanda heimilanna, að frá hruninu hefur verið gripið til 50 margvíslegra aðgerða til að koma til móts við skuldavanda heimilanna. Það liggur einnig fyrir að að lágmarki 60–80 þúsund manns hafa notið úrræðanna og reiknað er með að hækkun vaxtabóta, lækkun dráttarvaxta og útborganir séreignarsparnaðar vegna úrræðanna, nemi um 45–50 milljörðum kr. Það er alveg ljóst að hægt er að lesa það út úr útreikningum Seðlabankans að í stað þess að bankahrunið hefði fjölgað heimilum í vanda um a.m.k. níu þúsund, hefði ekkert verið að gert, stefnir í að fjölgunin verði lítil sem engin.

Ég viðurkenni fúslega að það blasir vandi við mörgum heimilum. Ríkisstjórnin er ávallt í viðbragðsstöðu að skoða fleiri úrræði og meta vanda, vegna þess að það er auðvitað viðvarandi verkefni okkar stjórnmálamanna. Ég tek líka eftir því að í umræðunni hafa ekki komið fram nein ný úrræði um hvernig leysa eigi vandann. Það er athyglisvert. Ég vil þó halda fram að ágæt þverpólitísk samstaða hafi verið um mörg af þeim málum og úrræðum sem hafa komið fram og orðið að lögum. Ávallt er verið að halda því fram að það þurfi að fara í almenna niðurfærslu á lánum. Ég sé ekki að hægt sé að halda því fram að það hafi engin áhrif á ríkissjóð eða Íbúðalánasjóð, eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sýndi fram á. Þetta eru útreikningar sem sýna hvaða áhrif það hefði t.d. fyrir Íbúðalánasjóð að fara í 20% niðurfærslu. (Gripið fram í: Ekki hjá fólkinu í landinu …) Það mundi þýða 112 milljarða. Hvernig halda þingmenn að Íbúðalánasjóður gæti staðið undir því? Það liði ekki langur tími þar til Íbúðalánasjóður færi hreinlega á hausinn. Lánasjóður íslenskra námsmanna, 12 milljarðar. Mundi Lánasjóður íslenskra námsmanna þola það?

Ég held að við ættum frekar að skoða það sem liggur fyrir þinginu. Það er auðvitað fráleitt að hlusta á einn stjórnarþingmanna halda því fram að þau mál sem bíða afgreiðslu þingsins, eins og greiðsluaðlögun og lækkun á bílalánum, hafi ekkert að segja, þau breyti engu. Þetta er auðvitað fjarstæða. Skynsamlegra er að fara í fyrirhugaða greiðsluaðlögun, samanborið við almenna 20% niðurfærslu sem allir eigi að fá, hvort sem þeir þurfa á því að halda eða ekki, vegna þess að í sumum tilfellum er 20% niðurfærsla ekki nægjanleg. Í sumum tilfellum þarf að niðurfæra um 90%, (Gripið fram í.) 70% eða 50%, þá er tekið með sértækum hætti á vanda þeirra sem þurfa á því að halda. Til hvers að afskrifa lán heilt yfir hjá mér eða þingmönnum sem þurfa kannski ekki almennt á 20% niðurfærslu að halda? Af hverju eigum við ekki frekar að gera meira fyrir þá sem þurfa á því að halda heldur en fara í svona almennar aðgerðir? (Gripið fram í.)

Ég vil líka nefna varðandi það sem fram kom hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur að ég tek sannarlega undir að það þurfi að fjölga almennum leiguíbúðum og efla leigumarkaðinn. Það liggur fyrir frumvarp um það, en ekki er víst að um það náist samstaða eða tími verði til að afgreiða það á þessu þingi. Það er eitt af þeim frumvörpum sem við eigum að skoða.

Ég mótmæli því kröftuglega að þessi ríkisstjórn hafi ekkert gert til að taka á skuldavanda heimilanna. Þvert á móti hafa allar þær fjölmörgu aðgerðir, 50 talsins, sem ríkisstjórnin hefur gripið til, líka með þverpólitískri samstöðu á Alþingi, mörg þessara mála, (Forseti hringir.) átt verulegan þátt í því að bjarga tugum þúsunda heimila (Forseti hringir.) frá gjaldþroti.