138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

framhald umræðu um stjórnlagaþing.

[15:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Maður er hreint að gefast upp á vinnubrögðum sem eru viðhöfð á Alþingi. Hér er á dagskrá umræða um stjórnlagaþing, sem sett var á dagskrá klukkan tvö í dag. Ég er eini framsögumaður 2. minni hluta á nefndaráliti sem fylgir með því. Nú er búið að fresta stjórnlagaþingi eftir þessar utandagskrárumræður til klukkan hálfsex. Ég á vera á fundi klukkan fimm. Út af hverju er hér allt í uppnámi og rugli? Hvernig eiga þingmenn að geta skipulagt sig? Ég minni á markmið forseta þingsins þegar hún tók við sem forseti þingsins, að þetta ætti að vera barnvænt Alþingi.

Ég vil fá skýr svör við því hvers vegna alltaf er verið að breyta dagskrá. Ég vil líka benda á að eftir lok ræðu minnar á að taka aftur á dagskrá heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi, sem er stjórnarfrumvarp. Er hreinlega verið að gera þetta svona til að stytta ræðutíma hjá þingmönnum? Fullt af fólki sem ætlaði ekki að tala um stjórnlagaþingið er ekki í húsi, en ætlaði að tala í málinu sem er hér á dagskrá og það var ekki boðað fyrr en í kvöld. Ég óska eftir faglegum vinnubrögðum. Það er ekki hægt að reisa landið við ef þetta á að halda svona áfram. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)