138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að beiðni hv. viðskiptanefndar sendu samningsaðilar þann hluta úr samningnum sem var gerður við þrotabú Landsbankans varðandi þetta skuldabréf. Ákvæði úr samningnum greinir frá loforði um að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp sem tryggi þá fullnægjandi veðsetningu. Jafnframt kemur fram í öðru ákvæði í þessum samningi að ef þingið samþykkir ekki slíkt frumvarp muni bæði gamli Landsbankinn og nýi Landsbankinn setjast niður og reyna að finna leið sem tryggi fullnægjandi veð á bak við viðkomandi skuldabréf. Aðrar upplýsingar hefur hv. viðskiptanefnd ekki fengið í hendur þannig að ég get ekki staðfest þær upplýsingar sem hafa verið birtar í Morgunblaðinu um að veðþekjan á bak við skuldabréfið sé 127%.