138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[16:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þegar við fengum fyrst þetta mál til umfjöllunar í viðskiptanefnd virkaði það lítið og einfalt. Við sátum á nefndarfundi og nánast klóruðum okkur í kollinum yfir því af hverju í ósköpunum væri eiginlega staðið í þessu. Síðan sýndi sig náttúrlega þegar menn fóru að skoða málið að hér er um að ræða, eins og ég orðaði það sjálf, mjög áhugavert mál. Það eru mjög margar hliðar á því. Þó að í sjálfu sér sé ekki verið að heimila nýja Landsbankanum að veðsetja þessar eignir fyrir þessu skuldabréfi er verið að gefa ákveðin skilaboð. Með því að fjármálaráðuneytið samþykkir að vinna þetta frumvarp og sjá til þess að það verði lagt fram, þá af efnahags- og viðskiptaráðherra, er verið að gefa mjög skýrt þau skilaboð að ríkið samþykki og vilji auðvelda fjármálastofnun að tryggja það að skuldabréf fari fram fyrir innstæður í forgangsröðinni. Fyrst þetta eru skilaboðin sem ríkisstjórnin er að gefa með því að samþykkja að flytja þetta frumvarp og stjórnarliðar að samþykkja það hefði kannski verið einfaldast að við hefðum afnumið algjörlega þessa klausu um forgangsröðun í neyðarlögunum og tekið skrefið til fulls.

Eins og kemur síðan fram í umfjöllun bæði hjá okkur í viðskiptanefnd og í Morgunblaðinu sem hefur fylgt málinu mjög vel eftir eru ýmsar upplýsingar sem við í viðskiptanefnd höfum ekki fengið um þetta skuldabréf. Þetta er risaskuldabréf. Það sem mér hefur fundist einkenna þessar samningaviðræður og þetta skuldabréf er þessi mikla leynd sem hefur hvílt yfir því. Við höfum varla fengið neinar upplýsingar nema upphæðina og síðan hefur hæstv. fjármálaráðherra staðið hérna í stórum málum, Icesave-málinu, veifað þessu skuldabréfi og talað um að hér með gætum við borgað 100% eða meira af Icesave vegna þess að 1/3 ætti að koma frá viðskiptamönnum nýja Landsbankans. 1/3 af kostnaðinum við Icesave á að koma frá þessu skuldabréfi. Alþingi Íslendinga fær nánast engar upplýsingar um hvað stendur í því. Gildir nákvæmlega eins um það að við höfum fengið mjög takmarkaðar upplýsingar um þær eignir sem eru þar á bak við, nema nú fáum við að vita það á síðum Morgunblaðsins að veðsetningin á þessu skuldabréfi jafngildi veðsetningu helmings eigin fjár. Þetta eigið fé hefur komið frá íslenskum skattgreiðendum.

Það sem kom líka fram þegar við fórum að skoða málið betur og gleymdist algjörlega að minnast á í greinargerð með þessu frumvarpi er að þessi samningur sem er gerður á milli gamla og nýja Landsbankans og fjármálaráðuneytisins mun gera það að verkum að ef nýi Landsbankinn fer aftur á hausinn mun Tryggingarsjóður innstæðna eiga mun erfiðara með að sækja eignir í þrotabúið, þ.e. ef það kemur til gjaldþrots, eins og segir í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:

„Veðsetning eigna til tryggingar skuldabréfinu færir því skilanefnd Landsbankans í raun ofar innstæðueigendum í kröfuröð, þar sem veðkröfur standa utan hefðbundins kröfuraðarfyrirkomulags. Heildarinnlán NBI í lok mars 2010 námu tæplega 427 milljörðum króna samkvæmt árshlutauppgjöri.“

Ég verð að segja að þetta er áhyggjuefni. Við erum að vinna mjög stór mál hérna í miklum flýti án þess að vera búin að skoða þau til hlítar. Það er líka sláandi að hlusta á hv. þm. Lilju Mósesdóttur, formann viðskiptanefndar, tala um að þetta sé því að kenna að fyrri ríkisstjórn hafi sett á þessa ótakmörkuðu ríkisábyrgð. Ég er algjörlega sammála því sem ég held að þingmaðurinn hafi verið að segja, að kannski hefði átt að fara aðra leið í því að veita þessa ótakmörkuðu ríkisábyrgð, en ég er hins vegar algjörlega ósammála því að þetta frumvarp og þetta skuldabréf megi rekja til þess. Það má rekja þetta skuldabréf til hugmyndafræðinnar á bak við það hvernig við stofnuðum nýju bankana, að við tókum ákvörðun um að byggja þetta á innlendum útlánum en ekki innlánum. Skuldabréfið er gefið út til að dekka þennan mismun. Í tilfelli Arions banka fór skuldabréfið í hina áttina, þannig öfugt miðað við það sem var með Landsbankann. Glitnir var að vísu í sömu átt og hérna, nema að þar eru mun lægri upphæðir og í raun og veru mun minna undir fyrir íslenska ríkið. Eignasafnið sem er hjá nýja Landsbankanum er það sem á að borga Icesave-kröfurnar.

Við framsóknarmenn lögðum fram á síðasta þingi þingsályktunartillögu — því að þá var ekki búið að ganga frá þessu uppgjöri á milli gömlu og nýju bankanna — þess efnis að við mundum reyna að endurreisa bankakerfið út frá annarri hugmyndafræði, að við mundum endurreisa það á grundvelli innlánanna þannig að ekki væri nauðsynlegt að gefa út þessi skuldabréf. Í tilfelli Landsbankans hefði þeim eignum sem hefðu verið umfram innlánin hreinlega verið skilað yfir í gamla Landsbankann. Þegar ég nefndi þessa hugmynd okkar framsóknarmanna og þingsályktunartillöguna á fundi viðskiptanefndar virtist koma svolítið á menn að einhverjum dytti í hug að gagnrýna þessa ákvörðun sem hefur væntanlega verið tekin á sama vel ígrundaða hátt og aðrar ákvarðanir sem voru teknar þessa helgi þegar allt hrundi. Við bentum þarna á að í t.d. þessu tilviki værum við bara með nýja Landsbankann og gamla Landsbankann í nákvæmlega sömu stöðu og við erum núna með Arion og Kaupþing og Íslandsbanka og Glitni. Þá bættist bara við þannig að við værum með sex banka sem væru að einhverju leyti starfandi. Slitastjórninni virtist finnast mjög einkennilegt að einhver væri að tala um þetta, enda virðist fólk almennt ekki mikið fyrir að líta í baksýnisspegilinn og velta fyrir sér hvort við hefðum kannski átt að hugsa hlutina aðeins öðruvísi.

Það eru mjög margir vinklar á þessu máli. Ég ítreka að ég tel alveg ástæðu til — venju samkvæmt situr hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ekki hér meðan við erum að ræða málin hans — að hæstv. ráðherra hefði komið í þessa lokaumræðu og svarað því hvort hann væri sammála hinum undirliggjandi skilaboðum með þessu frumvarpi, að það eigi hreinlega að taka út þessa klausu í neyðarlögunum, afnema forgangsröðunina og taka næsta skref, afnema ríkisábyrgðina.

Þetta eru stórar spurningar. Ég hefði talið mjög eðlilegt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sá sem fer með bankamálin í landinu, sem fer með efnahagsmálin, sem á líka að hafa eftirlit með slitastjórnunum, væri hérna til að svara þessum spurningum. Ég óska hér með eftir að þessum skilaboðum verði komið til ráðherrans og að þingið sjái sér jafnvel fært, þar sem við höfum stöðugt verið að breyta dagskrá þess, að fresta þessari umræðu þar til ráðherrann sér sér fært að koma hingað og svara þessum spurningum.

Þetta eru spurningar sem ég tel að hann eigi ekki að svara í andsvörum. Hann þarf að koma hingað í ræðu og tala um hvert planið sé varðandi bankakerfið hjá okkur. Hvað ætlum við að gera?

Á morgun stöndum við frammi fyrir því í viðskiptanefnd að afgreiða út úr nefnd nýtt frumvarp um innstæðutryggingarsjóð. (Gripið fram í: Meiri hlutinn.) Meiri hlutinn, meiri hluti viðskiptanefndar. Á dagskrá eru tveir fundir og það er ætlunin að afgreiða út úr nefnd frumvarp um innstæðutryggingarsjóðinn. Veigamiklar breytingar. Þar höfum við heldur ekki fengið nein svör frá ráðherranum um hvort meiri hlutinn hafi í hyggju að setja inn klausu um að ekki sé ríkisábyrgð á innstæðum eða hvort þau ætla einfaldlega að setja inn klausu um að það sé ríkisábyrgð á innstæðutryggingum. (Gripið fram í: Hann kemur kl. 7.) Það er gott að vita að ráðherrann hefur í hyggju að heiðra okkur með viðveru sinni einhvern tímann á næstunni.

Þetta eru stórar spurningar, þetta eru mál sem hafa klofið þjóðina. Við höfum tekið tvær mjög stórar umræður um Icesave þar sem grundvallarspurningin er: Er ríkisábyrgð á innstæðum eða ekki?

Ég tel algjörlega óásættanlegt að við séum að afgreiða þetta mál og mál sem varðar nýtt fyrirkomulag á innstæðutryggingarsjóðnum án þess að við fáum skýr svör. Á að vera ríkisábyrgð eða ekki? Er kannski í raun alltaf ríkisábyrgð á innstæðum? Ef það er alltaf ríkisábyrgð, af hverju í ósköpunum reka einkaaðilar banka þegar tapið á bönkunum á sem sagt alltaf að vera ríkisvætt en hagnaðurinn einkavæddur? (Gripið fram í: Ríkisbanka.) Eigum við að vera með þessa forgangsröðun eða ekki? Hún flækist svo sannarlega fyrir hér.

Ég ítreka beiðni mína um að ráðherra sjái sér fært að mæta og svara þessum spurningum því að þetta eru stórar og mikilvægar spurningar.

(Forseti (ÁÞS): Forseti hefur óskað eftir því að það verði kannað hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra geti verið viðstaddur þessa umræðu.)