138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það var mjög athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þm. Lilju Mósesdóttur. Það er augljóst að hv. þm. Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar, hefur enga sannfæringu fyrir þessu máli og byrjaði að segja að þetta væri allt neyðarlögunum að kenna, þ.e. að menn hefðu verið að tryggja þar innstæðurnar. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég er ansi hugsi yfir því hvort það sé orðin algjör regla hjá stjórnarliðum að upplýsa ekki hvernig mál eru tilkomin. Ég er hér með ræðu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þegar hann flutti þetta mál. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir fór að vísu yfir það af hverju þetta mál væri tilkomið og ekki bara út af þeirri ástæðu sem hún gaf varðandi neyðarlögin, heldur vegna þess að samið var sérstaklega við kröfuhafa um að þetta mál yrði lagt fram.

Hvar halda menn að það komi fram í þessari ræðu hæstv. ráðherra? Hvergi. Ekkert einasta orð. Og þegar ég spurði hæstv. ráðherra, sem hv. þm. Eygló Harðardóttir bendir á enn og aftur að er ekki hér við umræðuna þegar við erum að ræða mál sem svo sannarlega koma honum við og eru þess eðlis að augljóslega eru enn að koma fram sjónarmið á milli umræðna, þá mætir hæstv. ráðherra ekki. Hann var hins vegar mjög pirraður yfir því að vera spurður út í það af hverju hann upplýsti ekki þingið um forsendur frumvarpsins og sagði eitthvað á þá leið, virðulegi forseti, að sá sem spurði hefði bara getað séð það sjálfur út úr ræðunni sinni. En í þessu samkomulagi sem kom inn í nefndina, við fengum þetta minnisblað þar sem tekinn er þessi partur úr samningnum, þar eru meira að segja dagsetningar. Þar er dagsetning, þetta átti að vera komið inn í þingið eða búið að klára þetta í þinginu 15. apríl. Þetta er nú orðin algjör lenska að ekki er upplýst um mál almennt, og ég ætla ekki að fara að rifja upp umræðuna sem er búin að vera í þinginu að undanförnu. Hv. þm. Eygló Harðardóttir benti hér á kjarna málsins sem er sá að við erum að fara að byggja upp nýtt bankakerfi. — Eru menn ekki sammála um það? Við erum sammála um að við ætlum ekki að gera sömu mistökin og við gerðum áður, en það er algjörlega allt í lausu lofti um það hvernig við ætlum að gera þetta. Og núna á handahlaupum ætla menn að klára þetta mál og ný lög um innstæðutryggingarsjóð.

Virðulegi forseti. Klingir þessi innstæðutryggingarsjóður einhverjum bjöllum? Ó, jú. Hv. þingmaður kallar hér fram: Það er Icesave. Við erum að fást við það vandamál að Evrópusambandið segir að við höfum lofað ríkisábyrgð upp á 20.000 evrur. Og núna á handahlaupum ætla menn að fara að ábyrgjast 100.000 evrur sem eru held ég um 16 millj. kr. — hv. þm. Pétur Blöndal leiðréttir mig ef ég hef rangt fyrir mér — á hvern einasta reikning.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er ekki enn búinn að upplýsa hv. viðskiptanefnd um hvort hann telji vera ríkisábyrgð þarna eða ekki. Hins vegar er alveg ljóst hvað Evrópusambandið telur. Það telur að um ríkisábyrgð sé að ræða og taldi það þegar 20.000 evrurnar voru og samt sem áður kvað tilskipunin sem við byggðum þá löggjöf á ekki jafnfast að orði og sú tilskipun sem er núna. Ég held að við séum öll sammála um það. Og við ætlum að klára þetta á handahlaupum.

Þetta mál, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir vísaði í, var kynnt fyrir okkur sem tæknilegt mál, úrlausnarmál sem átti að ganga frá hratt og vel, en það var ekki fyrr en við spurðum spurninga í umfjöllun nefndarinnar að við fengum upplýsingar um það samkomulag sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir gerði að umtalsefni og við höfum farið hér yfir áður.

Virðulegi forseti. Það er allt satt og rétt sem sagt hefur verið á þá leið að nú þegar hafa bankar rétt til að setja kröfur fram fyrir innstæðutryggingarsjóð. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að í staðinn fyrir að þeir þurfi að senda bréf til viðkomandi kröfuhafa og segja að þeir hafi veðsett kröfuna, og það eru aðilar sem skulda bönkunum, erum við að einfalda verkið þannig að ekki þurfi að senda út hundruð eða þúsundir bréfa. Út á það gengur þetta mál. En heildarmyndin er stærri, hún er sú að við erum að byggja upp bankakerfi þar sem fjármögnun bankanna verður með þeim hætti að innstæðutryggingarsjóður við hrun banka, þó að hann sæki á bankana og eigi að hafa forgang, hefur í raun ekki forgang vegna þess að öll fjármögnun er farin fram fyrir innstæðutryggingarnar. Miklar líkur eru á því að við náum miklum heimtum af Icesave vegna þess að innstæðutryggingarsjóðurinn hefur forgang en nú erum við að fara í það umhverfi að slíkur forgangur verður ekki til staðar. Það er ekki bara út af þessu 260–280 milljarða skuldabréfi hjá Landsbankanum sem við erum að ganga frá núna sem hefur þann forgang að ef Landsbankinn fer yfir á næstu árum verður fyrst greitt í þetta skuldabréf, síðan í innstæðutryggingarsjóðinn, þetta verður ekki bara hjá Landsbankanum, heldur hjá öllum öðrum bönkum líka. Þetta er umhverfið sem við erum að fara í.

Einhver kynni að spyrja: Eru einhverjar líkur á því að bankarnir fari á hausinn, að Landsbankinn fari á hausinn? Það er ekki langt síðan það gerðist, það hefur verið upplýst í nefndinni að ef fyrningarleiðin verður farin mun þessi sjávarútvegsbanki, Landsbankinn, ekki þola það. Ef ætlun ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga mun Landsbankinn ekki þola það. Þetta er ekkert fjarlægara en það.

Það þýðir ekki fyrir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að láta svo að hér sé um að ræða einhverja truflandi umræðu hjá hv. þingmönnum, ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn verður að svara því á hvaða vegferð þau eru. Búið er að upplýsa hvað eftir annað í nefndinni að eins og uppleggið er varðandi innstæðutryggingarsjóð mun hann aldrei, a.m.k. ekki á næstu áratugum, gera annað en að verja lítinn sparisjóð. Ef við miðum við 50.000 evrur mun það taka 96 ár að safna í sjóð til að verja Landsbankann. Og þá er ég ekki að tala um hina tvo viðskiptabankana eða neina aðra banka heldur bara Landsbankann.

Ég verð að viðurkenna að við erum búin að taka umræðu hér hvað eftir annað um rannsóknarskýrslu Alþingis og ekki að ástæðulausu. Þar er mikið um gagnrýni. Við eigum auðvitað ekki að líta gagnrýnislaust á allt sem stendur í rannsóknarskýrslunni, alls ekki, þá værum við að bregðast meginniðurstöðu skýrslunnar sem er sú að við eigum að líta gagnrýnum augum á allt, þar með talið rannsókn eins og hjá rannsóknarnefnd þingsins. Þar er hins vegar mjög mikið af upplýsingum sem nýtist okkur vel. Ég held að allir séu sammála um að við eigum að vanda til verka og allir sem hafa skoðað þetta mál eru sammála um að við séum ekki búin að hugsa það hvernig umhverfi við ætlum að byggja fyrir fjármálafyrirtækin. Enginn getur haldið því fram að við séum komin með umhverfi fyrir nýja starfsemi fjármálafyrirtækja ef við höfum ekki svarað spurningunni um innstæðutryggingar. Það er fullkomlega ómögulegt að halda því fram. Látum það vera að ekki hafi verið svarað spurningunni um hvort fjárfestingarbanki og viðskiptabanki eigi að vera saman, um sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans, reglur um eignaraðild og alla þessa þætti. Látum það allt saman liggja á milli hluta, en það er algjörlega ljóst að á meðan það er í lausu lofti hvernig við ætlum að leysa málin ef til falls banka kemur og reynum bara að ýta því máli frá okkur einhvern veginn inn í framtíðina, erum við í besta falli að blekkja okkur sjálf og setja hér upp kerfi með fullkomlega fölsku öryggi.

Virðulegi forseti. Þetta er það sem við erum að fara að gera. Á morgun ætlar meiri hlutinn að keyra innstæðutryggingarsjóðinn út úr nefnd og klára þetta helst fyrir helgi. Það er bara þannig. Eru þeir að útskýra fyrir okkur í nefndinni hvernig menn ætla að bregðast við ef kemur til falls banka? Nei. Ekki eitt einasta orð, virðulegi forseti. Í rauninni var það þannig að hér kom hv. þm. Lilja Mósesdóttir og talaði um að það væri neyðarlögunum að kenna að við værum í þessari stöðu. Það má vel vera að menn hafi gert mistök með neyðarlögin, það er ekkert útilokað í því. En það breytir því ekki að núna erum við að fjalla um það hvaða umgjörð við ætlum að skapa fyrir fjármálafyrirtækin á hinu nýja Íslandi eins og oft er talað um. Það er öllum ljóst að meiri hlutinn ætlar að gera mistök og með einbeittum brotavilja ætla þeir að keyra hér í gegn mál sem gengur ekki upp. Ég skal, virðulegur forseti, taka fleiri daga og vikur í að ræða af hverju hrunið varð, hver ber ábyrgð og allt það, ekkert vandamál, en stóra einstaka málið er þetta: Hvað ætlum við að gera núna?

Nú stendur upp á meiri hluta hv. viðskiptanefndar. Hvernig ætlar hv. viðskiptanefnd að bregðast við? Það er búið að leggja fram stefnuna, að það eigi að klára frumvarp um innstæðutryggingar sem menn eru ekki með nein svör við hvernig á að framfylgja, eða í rauninni hvernig virka. Reyndar er það þannig að við erum að setja í lög tilskipun sem er ekki einu sinni komin í EES-samninginn. Við erum að ganga frá umgjörð sem flestar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við eru að skoða vegna þess að þau vita, þótt þau lentu ekki í sama gríðarlega áfalli og við, að það gengur ekki upp. En nei, virðulegur forseti, í sól og sumaryl ætlar meiri hlutinn á þinginu að keyra þetta í gegn og vonast til þess að það fari fram hjá fjölmiðlum, Alþingi og almenningi og það verði einhvern veginn hægt að klára þetta án þess að það verði neitt sérstaklega spyrnt við fótum.

Virðulegi forseti. Málið var kynnt þannig, og það er margt sem bendir til þess, að hér sé fyrst og fremst um tæknilegt mál að ræða. Það láðist að segja frá því hver forsenda þess væri. Það er nokkuð sem stjórnarmeirihlutinn, réttara sagt hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, ákvað að segja hv. þingheimi ekki frá. Það upplýstist hins vegar í meðförum nefndarinnar og var það svolítil upplifun þegar allt í einu einn af umsagnaraðilum segir við okkur, virðulegi forseti: Heyrðu, þið verðið að fara að klára þetta, þið vitið alveg um tímafrestina, þið lofuðuð að gera þetta fyrir 15. apríl. Svo fengum við frest til 26. maí. Og nú er tuttugasti og eitthvað maí, ég man ekki hvort það var 22. eða hvað. Það brá held ég öllum í hv. viðskiptanefnd, það hafði enginn heyrt af þessu, ekki eitt einasta orð. Þá var þetta mál upplýst og eftir því sem ég best veit, virðulegi forseti, hefur þingið frest. Kröfuhafarnir eða fulltrúar þeirra hafa samþykkt að veita þinginu frest til 26. júní til að klára sína vinnu.

Það er mjög margt sem bendir til þess að ekki verði komist hjá því að fara þessa leið, það er að vísu ekki nokkur einasta leið að kenna neyðarlögunum um þetta. Samningurinn sem var gerður — og ég man það alveg rétt að fulltrúar ríkisstjórnarinnar og ríkisvaldsins töldu sig hafa gert mjög góða samninga þegar þeir náðu samningum við kröfuhafa og töluðu sérstaklega um góð vaxtakjör. En vaxtakjörin grundvallast á því, virðulegi forseti, að við klárum málið með þessum hætti.

Það hefðu verið mun eðlilegri vinnubrögð, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að þingið væri upplýst um þetta. Það hefði gert umræðuna og meðferð málsins mun auðveldari.

Á sama hátt tel ég eðlilegt að meiri hlutinn upplýsi um það hvernig hann sér fyrir sér nýtt bankakerfi eða fjármálakerfi eftir að búið er að keyra í gegn nýju lögin um vinnustaðatryggingar. Hvernig gerist það, virðulegi forseti? Ætla menn virkilega að horfa framan í hv. þingmenn og þjóðina og segja í fullri alvöru að 100.000 evrur séu eitthvað sem þessi innstæðutryggingarsjóður þolir. Það er í rauninni bara full ríkisábyrgð á öllum inneignum, eða svo til. Að vísu held ég að enginn geti sýnt fram á það með neinum útreikningum. Hv. viðskiptanefnd hefur fengið útreikninga sem sýna fram á, og ég held að ég fari rétt með, að miðað við 50.000 evrurnar taki það 96 ár að safna upp í inneign fyrir stærsta viðskiptabankann, bara hann, ekki kerfishrun heldur bara hann. Það er vitað að við munum aldrei — og það er enginn innstæðutryggingarsjóður sem þolir kerfishrun. Ef menn ætla að ræða þetta af einhverri alvöru komast þeir að þeirri niðurstöðu að innstæðutryggingarsjóðurinn muni aldrei þola þetta. Og þá er næsta spurning, virðulegi forseti: Hver á þá að taka skellinn? Er það túlkun Evrópusambandsins sem gildir, að ríkisstjórnin eða skattgreiðendur eigi að taka skellinn? Er það svo, virðulegi forseti?

Ég held að það sé fullkomlega útilokað að fara þá leið? Og ég held að ef við ræðum þetta í stærra samhengi verðum við að byggja upp bankakerfi sem er ekki með þessa miklu áherslu á að tryggja innstæður. Ég get ekki séð það ganga upp. Ef einhver í stjórnarmeirihlutanum eða einhvers staðar annars staðar getur sannfært mig um það og komið fram með rök um að það sé nauðsynlegt, eðlilegt og rétt hvet ég viðkomandi aðila til að gera það. Núna erum við með bankakerfi sem í grófum dráttum er þannig að þeir sem eiga fjármagn hafa það á vöxtum í bönkunum af því að þeir telja að það sé besta leiðin, vaxtastigið er enn hátt. Bankarnir eru síðan með þetta sama fjármagn í Seðlabankanum og þar fá þeir einhvern vaxtamun miðað við það sem þeir greiða innstæðueigendum.

Við erum með mikla fjármuni þarna inni og hið opinbera borgar í rauninni vaxtamuninn með einum eða öðrum hætti. Okkur sárvantar peninga fyrir framkvæmdaraðila til að fjárfesta og koma hjólum atvinnulífsins af stað. Hér er atvinnuleysi sem er mikið böl. Fram til þessa hefur það verið lítið á Íslandi en aukist allt of mikið á versta tíma. Fjöldi fólks fær ekki störf og á erfitt með að framfleyta sér og sínum. Það er staða sem maður vonaðist til að fá aldrei að sjá, en því miður er það þannig. Þetta er eitt af stóru málunum í dag. Við tölum mikið um fjárhagsvandræði heimilanna og skjaldborg fyrir heimilin. Núna rétt áðan hlustuðum við á hæstv. forsætisráðherra útskýra fyrir fólki að komið hefði verið til móts við þennan skuldavanda sem er ein blautasta tuska sem hefur komið, held ég, í andlit almennings lengi. Við vitum öll hver staðan er og við hv. þingmenn fáum marga tölvupósta á dag frá fólki sem er í miklum vanda. Allt að 40% þeirra sem keyptu sína fyrstu íbúð árið 2006 geta ekki staðið í skilum.

Við fáum þau skilaboð úr mörgum áttum að við höndlum ekki verkefnið sem okkur var falið. Okkur var falið það verkefni að slá skjaldborg um heimilin, okkur var falið það verkefni að fá hjól atvinnulífsins til að snúast en það hefur mistekist. Núna er eitt og hálft ár frá hruninu og þetta hefur mistekist. Við þurfum, virðulegi forseti, að horfast í augu við þennan vanda og taka á honum. Einn liður í því er það sem snýr að fjármálafyrirtækjunum. Við þurfum að skapa umgjörð fyrir fjármálafyrirtækin þannig að þau geti sinnt hlutverki sínu sem er m.a. ekki bara það að gæta fjármuna þeirra sem eiga það, heldur einnig að koma því í umferð og nýta til góðra verka. Það þarf að skapa hér verðmæti, atvinnu og tækifæri fyrir fólkið í landinu.

Við gerum það ekki. Það er afskaplega dapurlegt og mikil vonbrigði að við höfum ekki getað unnið saman úr þessu, stjórn og stjórnarandstaða, en enn er von. Það er þó útilokað að samstaða muni nást um það að keyra frumvarpið um innstæðutryggingar út úr hv. viðskiptanefnd á morgun. Það er fullkomlega útilokað að sátt verði um það. Það er illa farið með tímann hjá okkur hv. þingmönnum að karpa um mál eins og það, sem allir vita sem skoða — og ég trúi ekki öðru, virðulegi forseti, en að þeir hv. þingmenn meiri hlutans sem skoða málið sjái ómöguleikann í því og hvaða alvarlegu afleiðingar það getur haft. Ég hvet hv. þingmenn meiri hlutans til að setjast niður með okkur, þeir hafa forustu í þessum málum og það er nokkuð sem við sættum okkur að sjálfsögðu við. Reynum núna að vinna að málinu þannig að það verði ekki ófriður um það. Við höfum ekki fengið nein rök fyrir því að klára málið um innstæðutryggingarsjóð, engin. (Gripið fram í.) Þvert á móti ber þess merki að menn ætli að láta meiri hlutann duga til að keyra þetta í gegn gegn betri vitund. Þetta mál sýnir okkur hvernig fjármögnun bankanna verður og að það tengist öðrum þáttum. Það er útilokað fyrir okkur, virðulegi forseti, að ræða málefni eins og þetta, málefni fjármálafyrirtækjanna, í einhverjum bútum. Menn verða að skoða heildarmyndina.

Ég hvet enn og aftur meiri hlutann til dáða í þessum málum og þá er ég að vísa til þess að við setjumst yfir það. Við í hv. viðskiptanefnd hittumst kl. 7 í kvöld. Það eru tveir fundir á morgun og ef við þurfum að bæta við fundum gerum við það. Það hefur ekki vantað viljann hjá stjórnarandstæðingum að vinna í hv. viðskiptanefnd. Það væri nú gaman að upplýsa það hvað við erum búin að funda mikið. Ég efast um að margar nefndir í þinginu hafi hist jafnoft og jafnlengi og hv. viðskiptanefnd. Er það bara sjálfsagt og eðlilegt. Við skulum gera enn meira ef það verður til þess að hjálpa.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að við verðum að líta á þessi mál í samhengi. Það er líklegra að við náum árangri fyrir fólkið í landinu ef við vinnum þetta saman. Og í þessu tilfelli er ég sannfærður um að allir hv. þingmenn eru sammála um markmiðin. Við skulum ekki gera mistök núna á síðustu dögum þingsins sem við munum sjá eftir.

Virðulegi forseti. Ég ætla að enda á bjartsýnu nótunum, ég hef mikla trú á því að hv. formaður viðskiptanefndar og aðrir nefndarmenn í meiri hlutanum muni gera rétt í þessu máli. Og ég hlakka til að vinna með þeim að því.