138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:02]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp sem í upphafi, þegar það var lagt fram af hálfu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, var sagt vera tæknilegs eðlis. Þetta er frumvarp til laga um heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Nokkuð flókinn titill á þessum lögum og hann er ekki einu sinni verulega gagnsær. Á mannamáli varðar þetta mál uppgjör á milli gamla og nýja Landsbankans og er í raun eins konar viðbót við neyðarlögin sem sett voru á árinu 2008.

Við erum komin til 3. umr. um þetta mál. Ég vil nota tækifærið og þakka formanni nefndarinnar fyrir málsmeðferðina. Ég hef sjálfur óskað eftir því að frekari gögn yrðu lögð fram í nefndinni á milli 2. og 3. umr. og hv. þm. Lilja Mósesdóttir formaður nefndarinnar hefur orðið við þeim beiðnum mínu og fyrir það vil ég þakka. Ég dreg reyndar ekki dul á það að ég hefði svo sem viljað að nefndin tæki sér lengri tíma í að fara yfir einstök atriði eins og samningana á milli nýja og gamla Landsbankans og fjármálaráðuneytisins um það uppgjör sem þeir kveða á um milli gamla og nýja Landsbankans en engu að síður beitti formaður nefndarinnar, hv. þingmaður, sér fyrir því að nauðsynleg gögn yrðu lögð fyrir nefndina til að auðvelda okkur þingmönnum að taka afstöðu til málsins.

Það sama verður hins vegar ekki sagt um hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Því miður er það orðið að undantekningu að sá ágæti hæstv. ráðherra, Gylfi Magnússon, sé viðstaddur umræður um þau mál sem hann ber sjálfur fram. Það er auðvitað mikill ljóður á ráði ráðherrans að geta ekki verið hér og svarað þeim spurningum sem hv. þingmenn vilja bera fram við hann og tekið þátt í umræðum um mál sem varða gríðarlega mikilsverða hagsmuni til framtíðar, bæði fyrir fjármálakerfið sjálft, þær stofnanir og fyrirtæki sem þar starfa, og ekki síður fyrir landsmenn alla í kjölfar þess efnahagshruns sem hér varð.

(Forseti (RR): Hv. þingmaður: Forseti vill upplýsa að von er á hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra innan tíðar.)

Frú forseti. Þakka þér fyrir upplýsingarnar. Það er aldeilis kominn tími til að hæstv. ráðherra verði viðstaddur umræður um þau mál sem hann ber sjálfur fram. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum gagnrýnt hann harðlega fyrir að sýna þinginu þá vanvirðingu að vera ekki viðstaddur umræður um eigin mál. Það er út af fyrir sig ánægjuefni að hæstv. ráðherra ætlar að láta svo lítið að mæta í þingið til að vera viðstaddur umræðuna.

Í þessu frumvarpi, eins og það er lagt fram, eru lagðar til, eins og áður segir, breytingar sem miða að því að auðvelda uppgjör á milli gamla Landsbankans og þess nýja. Þar eru ekki síst tvær tillögur sem skipta máli, annars vegar er hinum almennu riftunarreglum gjaldþrotalaganna breytt í þessu skyni en hins vegar er verið að breyta hinum almennu veðsetningarreglum sem kveðið er á um að meginreglu til í lögum um samningsveð sem lögfest voru á Alþingi fyrir nokkrum árum síðan. Í því framhaldsnefndaráliti sem hér er til umfjöllunar segir beinlínis að í frumvarpinu felist grundvallarfrávik frá 1. mgr. 3. gr. laga um samningsveð, um að veðréttur verði ekki stofnaður í einu lagi þannig að gildi hafi að lögum í öllu því sem veðsali á eða eignast kann.

Vegna uppgjörsins á milli gamla og nýja Landsbankans er verið að gera breytingar á þessum reglum til að mögulegt sé fyrir Landsbankann að leggja að veði skuldabréf sem undirritað var á grundvelli samnings sem gerður var á milli nýja og gamla Landsbankans og fjármálaráðuneytisins og auðvelda þann gerning að uppgjörið á milli þessara aðila geti farið fram.

Það sem þessi breyting þýðir eða kann að þýða er að auðveldara verður fyrir nýja Landsbankann að veðsetja eigur sínar og lánasöfn og annað til að gera upp við gamla Landsbankann og veðsetja réttindi og eignir í heilu lagi gagnvart erlendum kröfuhöfum. Þetta þýðir að við slíka veðsetningu fellur niður svokallaður ofurforgangur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda verði það örlög hins nýja Landsbanka að verða gjaldþrota. Með öðrum orðum þá leiðir þetta til þess að réttur tryggingarsjóðsins sem kröfuhafa gagnvart nýja Landsbankanum við gjaldþrot hans er rýrari en hann hefði annars verið.

Einhver kynni að telja að í ljósi þess sem gerst hafi væri það heldur fjarlægur möguleiki að nýi Landsbankinn, sem reistur var á rústum þess gamla m.a. með innspýtingu frá ríkinu og íslenskum skattgreiðendum — en hins vegar hefur núverandi formaður eða bankastjóri Landsbankans lýst því yfir, bæði fyrir nefndinni og annars staðar, að til að raska rekstrargrundvelli Landsbankans allverulega þurfi ekki meira að koma til en að farin verði svokölluð fyrningarleið í sjávarútvegi. Með öðrum orðum að ef ríkisstjórn Íslands dytti í hug að framfylgja því stefnumáli sem a.m.k. einhverjir í stjórnarflokkunum hafa lagt áherslu á, að fara fyrningarleið í sjávarútvegi, kynni það að leiða til þess eða mundi leiða til þess að Landsbankinn yrði gjaldþrota. Þetta er ekki bara skoðun núverandi bankastjóra Landsbankans heldur einnig endurskoðunarfyrirtækisins Deloittes og sömuleiðis þeirra fræðimanna sem fjallað hafa um áhrif fyrningarleiðar á íslenskan sjávarútveg.

Það má því búast við að fari ríkisstjórnin fyrningarleið í sjávarútvegi muni það leiða til þess að nýi Landsbankinn verði gjaldþrota. Hafi þessi lög tekið gildi áður en af því verður eignast kröfuhafar Landsbankans, þar á meðal væntanlega Hollendingar og Bretar, ríkari rétt í krafti þess veðréttar sem hér er verið að leggja til en innstæðueigendur hafa í gegnum Tryggingarsjóð innstæðueigenda við gjaldþrot bankans. Þetta er auðvitað sú hætta sem í málinu er.

Ég finn það þegar ég hlusta á hv. formann viðskiptanefndar, Lilju Mósesdóttur, ræða um þetta mál og fylgja því framhaldsnefndaráliti sem hér er til umfjöllunar úr hlaði að hún áttar sig á þeim hættum sem í þessu máli felast og það verður nú ekki sagt að hv. þingmaður hafi fulla sannfæringu fyrir ágæti þess máls sem hér er til umfjöllunar. Það má segja um fleiri. Við höfum fylgst með því í fjölmiðlum að bent hefur verið á ýmis atriði þessu máli tengd sem leitt geti til þess að ríkið kynni að verða fyrir alveg gríðarlegum búsifjum við hugsanlegt fall Landsbankans.

Í þessu framhaldsnefndaráliti segir að það sem einkum hafi verið rætt á fundi nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. hafi verið aðdragandi frumvarpsins og að við umfjöllun um málið í nefndinni hafi komið fram að í desember 2009 hafi verið samið um að nýi Landsbankinn gæfi út skuldabréf til Landsbanka Íslands hf., þ.e. gamla Landsbankans, sem skyldi tryggt með veði í eignum bankans. Þegar samningaviðræðurnar hafi staðið yfir hafi komið upp efasemdir um hvort íslensk lög um samningsveð næðu yfir veðsetningu á svo stóru eignasafni og í svo langan tíma. Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að frumvarpið var lagt fram. Enda segir að vegna þessa hafi veðsetningum samkvæmt þessum samningum og þessu skuldabréfi verið slegið á frest fram í apríl og að hæstv. fjármálaráðherra hafi skuldbundið sig til að útbúa frumvarp, það frumvarp sem við ræðum hér, til laga þess efnis að setja ákveðinn ramma utan um veðsetningar af þessu tagi. Í nefndarálitinu segir að í því hafi þó ekki falist nein fyrirheit um að slíkt frumvarp yrði samþykkt sem lög frá Alþingi.

Nú er það auðvitað svo að hæstv. ráðherra gat með aðkomu sinni að þessu máli ekki skuldbundið sig eða ráðuneyti sitt til þess að frumvarpið yrði samþykkt hér á þingi, enda ræður hann eftir því sem ég best veit ekki yfir atkvæðum fleiri hv. þingmanna en sínu eigin. Það er hins vegar alveg ljóst að með því að semja um það í samningi milli gamla og nýja Landsbankans og fjármálaráðuneytisins, var fjármálaráðherra með framlagningu frumvarpsins og með því að berjast fyrir því auðvitað að gefa því undir fótinn að þetta yrði niðurstaðan og eins og fram kom á fundi nefndarinnar gerðu kröfuhafarnir ráð fyrir því að það yrði þannig.

Það sem mér finnst ámælisvert í því sambandi er að þetta frumvarp byggir á samningaviðræðum milli gamla og nýja Landsbankans. Það má því segja að í raun sé þetta frumvarp afrakstur samningaviðræðna aðila sem hvorki fara með framkvæmdarvald né löggjafarvald á Íslandi. Í raun er þetta afrakstur samningaviðræðna tveggja fjármálastofnana. Það má auðvitað setja stórt spurningarmerki við það hvort slíkt verklag sé þinginu bjóðandi, ég tala nú ekki um að í tengslum við þetta allt saman og í aðdraganda þessarar löggjafar var þingið ekki upplýst um það fyrr en á allra síðustu stigum málsins að skuldabréfið sem gefið var út og sá samningur sem gerður var á milli nýja og gamla Landsbankans byggði á þeirri forsendu að þetta frumvarp gengi í gegn. Þar var miðað við dagsetningar. Fyrst ef ég man rétt 15. apríl og síðan 25. eða 26. maí. Í samkomulagi milli gamla og nýja Landsbankans kom fram að yrðu þessar dagsetningar ekki virtar og frumvarpið ekki orðið að lögum fyrir þann tíma hefðu aðilar samningsins og aðilar skuldabréfsins, nýja og gamla Landsbankans, heimild til þess að rifta skuldabréfinu og setja uppgjörið á milli bankanna tveggja í algjört uppnám.

Þetta vorum við ekki upplýst um fyrr en á síðustu stigum málsins. Það er auðvitað málsmeðferð sem er þinginu ekki sæmandi.

Ég vil taka fram að það er ekki við hv. þm. Lilju Mósesdóttur, formann hv. viðskiptanefndar, að sakast í þeim efnum. Ábyrgð á þessu vinnulagi öllu ber að sjálfsögðu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem ber þetta mál upp, heldur greinilega upplýsingum frá þinginu og hefur ekki treyst sér til að vera viðstaddur þessa umræðu.