138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:20]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum merkilegt mál. Þegar það kom fyrst fyrir þingið var gefið í skyn að það væri einungis tæknilegt frágangsmál, það þyrfti einungis að lagfæra reglurnar sem gilda um það hvernig hægt er að veðsetja eignir til að uppfylla einhverja tæknilega núansa. Ég veitti þessu máli ekki mikla athygli fyrst í stað en fór síðan að spá í það.

Málið gengur sem sagt út á það að þegar neyðarlögin voru sett og fjármálaráðuneytið samdi um skuldabréf með veði í eignum Nýja Landsbanka við gamla Landsbanka þá var vandi á höndum. Því án lagabreytinganna gat veðsetningin ekki átt sér stað á fullkomlega löglegan hátt. Þetta snýst um það að breyta forgangsröðuninni þannig að innstæðutryggingarnar lenda fyrir aftan bréfið sem gamli Landsbankinn á í Nýja Landsbankanum. Allt hljómar þetta hálfruglingslega en í sinni tærustu mynd er þetta einfaldlega þannig að verið er að tryggja eignir gamla Landsbankans. Verið er að tryggja það sem erlendu kröfuhafarnir munu fá og meira öryggi verður á þeim eignum sem munu á endanum skapa peninga sem renna til Hollendinga og Breta út af Icesave. Þetta er stutta útgáfan af þessu.

Það er eitt sem hefur vakið mig til umhugsunar. Úti í Evrópu er mikil umræða um innlánstryggingarsjóði og að það gangi ekki upp að hvert land sé með sérinnlánstryggingarsjóð. Margir bankanna starfa yfir landamæri og þá geta komið upp vandamál svipað Icesave-málinu. Háværar raddir eru um að stofnaður verði sér- eða samevrópskur innlánstryggingarsjóður. Allir sem hafa leyfi fyrir bankastarfsemi yfir landamæri þurfi að vera aðilar að sjóðnum. Innlán verða tryggð þar ef einhver af bankastofnunum sem starfa á Evrópska efnahagssvæðinu fara á höfuðið.

Nú víkur sögunni aftur til Íslands. Ef þessi samevrópski innlánstryggingarsjóður verður ofan á að er hugsanlegt að Nýi Landsbankinn geti ekki fengið aðild að honum. Út af hverju? Jú, vegna þess að eignir Landsbankans eru veðsettar gamla Landsbankanum til að standa undir kröfum kröfuhafanna í bankann. Spurningin er hvort þessi einfalda tæknilega útfærsla sem rædd er verði til þess að Landsbanki Íslands geti ekki orðið aðili að samevrópskum innlánstryggingarsjóði. Þetta er punktur sem ekki hefur komið til umræðu en er vel þess virði að huga að.

Það er ljóst að vandamálið með innlánstryggingarsjóðinn hefur lengi legið fyrir. Allt frá því árið 1999–2000 hafa menn velt fyrir sér hvernig mætti helst leysa vandamál bankanna sem starfa yfir landamæri. Ég var á fundi í Istanbúl í Tyrklandi árið 2000 þar sem rætt var hvernig ætti að leysa þetta vandamál. Þar virtust menn vera sammála um að eina raunhæfa lausnin væri samevrópskur tryggingarsjóður enda hefur það komið á daginn. Stöðugt fleiri menn hafa talið þetta vera einu lausnina fyrir bankastarfsemi yfir landamæri. Einnig væri hægt að leysa vandamálið með því að brjóta bankana upp þannig að þeir væru bara heimabankar. Þegar búið væri að skilja á milli fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi yrðu aðeins til sparisjóðir í Evrópu en ég efast um að svo langt verði gengið.

Það er ljóst að þegar neyðarlögin voru sett hugsuðu menn ekki út í þetta enda var engin ástæða til þess. 6. október árið 2008 sáu menn ekki fyrir sér samninga á milli gamla og Nýja Landsbankans. Það má spyrja sig að því hvort mistökin sem voru gerð hafi ekki verið þau að íslenska fjármálaráðuneytið skyldi ljá máls á að bréfið sem gekk á milli gamla og Nýja Landsbankans skyldi vera með veði í eignum nýja bankans. Það er óvenjulegt að bankar setji fram veð eins og þessi. Meginreglan er að fjármögnun viðskiptabanka sé annars vegar með eigin fé og hins vegar með ótryggðum bréfum. Það þekkist að vísu að eignir séu notaðar til veðsetningar þegar mikil áhætta er komin í spilið eða bankarnir eru áhættumeiri en hinir hefðbundnu viðskiptabankar. Getur verið að samningamenn fjármálaráðuneytisins hafi spilað afleik, að mistökin hafi ekki gerst við setningu neyðarlaganna heldur hafi þau orðið við samninga milli gamla og Nýja Landsbankans. Mér er ekki kunnugt hvernig þessu er farið í hinum bönkunum, en bréfin þar á milli eru mun lægri, hvort þar liggi veð til grundvallar.

Það er ljóst að við hrunið í október 2008 urðu vandamálin mörg. Sum þeirra eru enn að koma í ljós og tveim árum seinna eru menn að uppgötva nýja fleti og vinkla á þessu öllu saman. Ég legg til að málið verði skoðað aðeins betur. Ég er alls ekki að segja að ég leggist á móti því. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að gert er gert. Það þarf að leysa vandamálin en spurningin er hvort hægt sé að taka aftur upp bréfið á milli gamla og nýja bankans og þá væntanlega setja hærra áhættuálag. Ég sé þetta sem lausn ef ótti minn um að þetta gæti skemmt fyrir aðild að samevrópskum tryggingarsjóði í framtíðinni er á rökum reistur. Ég legg til að málið verði skoðað aðeins betur. Það á ekki að þurfa að taka langan tíma en það er ljóst að það liggur ekki jafneinfalt fyrir og kynnt var í upphafi. Þar var sagt að í þessu fælist ekki nein hætta, heldur væri einungis um smávægilegar tæknilegar breytingar að ræða.

Við verðum að hafa varúðina að leiðarljósi. Undanfarin ár höfum við farið fram með óðagoti og súpum nú seyðið af því. Við verðum að hugsa okkur vel um, skoða þær hættur sem geta leynst, eins og hættuna sem ég var að benda á. Ef á næsta ári yrði kynntur til sögunnar samevrópskur tryggingarsjóður sem Landsbankinn nýi gæti ekki fengið aðild að þá liggur ljóst fyrir að það verður erfiðara eða ómögulegt fyrir hann að taka á móti innlánum. Þar vill enginn leggja inn peninga í banka nema ríkisstjórnin ákveði að ríkisábyrgð á innlánum íslensku viðskiptabankanna verði til frambúðar. En það er mér til efs, bæði er það áhættusamt fyrir ríkið og það býr til óheilbrigða hvata fyrir viðskiptabankana að taka meiri áhættu en eðlilegt og æskilegt er.

Ég segi það enn og aftur að ég vil að skoðað verði hvort þetta gæti komið í veg fyrir að Landsbankinn geti átt aðild að samevrópskum innstæðutryggingarsjóði og hvort það leynast fleiri hættur sem einhverjir aðrir hafa bent á í umræðunni.