138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson velti upp áhugaverðum vinkli, hvort samþykkt þessa frumvarps muni koma í veg fyrir það að Landsbankinn fái aðild að fyrirhuguðum samevrópskum tryggingarsjóði. Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri þessa hugmynd. Það er hins vegar nokkuð ljóst að ef við komum ekki upp hér nýjum sjóði með því að samþykkja fyrirliggjandi frumvarp um innstæðutryggingar munum við sitja uppi með gjaldþrota sjóð. Fá evrópsk lönd vilja samstarf við okkur um tryggingarsjóð þegar við erum innan lands með gjaldþrota sjóð vegna Icesave-skuldbindinganna. Það er að mínu mati mjög brýnt að við samþykkjum frumvarp um innstæðutryggingar þannig að við getum sett þennan gjaldþrota innstæðutryggingarsjóð sér eða kallað hann samkvæmt frumvarpinu B-deild og stofnað nýjan sjóð sem heitir A-deild og byrjað að greiða inn í hann til að vera boðleg í þessum samevrópska tryggingarsjóði.

Ég efast um að það að við auðveldum Landsbankanum veðsetningu muni koma í veg fyrir að hann eigi aðild að evrópskum tryggingarsjóði því að heimildin til veðsetningar er fyrir hendi og samkvæmt lögum um samningsveð hafa veðkröfur forgang yfir kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Ég veit sjálf ekki betur en að það sé þannig annars staðar en auðvitað er ekkert mál að kanna þá hlið á málinu.