138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:54]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Frú forseti. Inn í þennan þingsal berast raddir, það heyrast köll, það er kallað eftir auknu lýðræði, betra stjórnarfari og það er kallað eftir einhverju sem heitir stjórnlagaþing svo núna er til meðferðar frumvarp til laga um stjórnlagaþing. Vissulega fjallar þetta frumvarp um stjórnlagaþing í þeim skilningi sem leiðtogar stjórnarflokkanna leggja í það orð. Ég efast um að sá skilningur sé réttur, ég held að þetta frumvarp til laga um stjórnlagaþing sé ekki svar við því ákalli sem heyrst hefur og hefur borist inn í þessa sali. Það er kallað eftir auknu lýðræði, það er kallað eftir því að hlustað sé á allar raddir samfélagsins úr öllum hornum þess og afkimum.

Enginn hefur kallað eftir því að kosinn verði 25–31 fulltrúi til að gera nokkurn skapaðan hlut. Fólk hefur kallað eftir því að rödd þess megi heyrast. Þess vegna er ég andsnúinn þessu frumvarpi og tala gegn því hérna. Lýðræði er okkur öllum hjartans mál, ég dreg það ekki í efa. Ég efast ekki um að allir þeir sem sitja hér á þingi séu einlægir lýðræðissinnar. En þá vildi ég að þessi lýðræðisást þingmanna birtist í lýðræðislegum vinnubrögðum. Skynsamleg vinnubrögð virðast vera okkur ofviða oft og tíðum, en lýðræðisleg vinnubrögð gætum við þó haft í hávegum. Lýðræðisleg vinnubrögð eru fólgin í því að taka tillit til allra sjónarmiða, að vaða ekki á skítugum skónum yfir þá sem ekki eru sama sinnis. Það er inntak lýðræðisins. Það frumvarp til laga sem hérna liggur frammi er dæmi um það hvernig meiri hluti ætlar að vaða á skítugum skónum yfir minni hluta. Meiri hlutinn er skipaður Samfylkingu og Vinstri grænum. Minni hlutinn samanstendur af Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Hreyfingu og óháðum þingmanni. Það er ekkert tillit tekið til þess að það eru deildar meiningar um þetta frumvarp, það er lagt fram á lokaspretti núna á vorþingi og það á að reyna að rusla því í gegn svo hægt sé að kjósa til stjórnlagaþings í haust.

Þetta eru vinnubrögð sem eru svo fráleit, þau eru svo ólýðræðisleg, þetta er svona dólgalýðræði af verstu gerð. Þessi vinnubrögð sannfæra mig um að það er enginn skilningur hjá þeim sem að þessu frumvarpi standa eða þeim sem ætla að keyra það í gegn á því kalli sem heyrst hefur inn um þykkar rúðurnar í þinghúsinu, á þessu kalli frá þjóðinni.

Þetta frumvarp, svo ég ræði það aðeins nánar, er afskaplega furðulegt að efni og uppbyggingu. Mér sýnist að það séu einar 12 línur í frumvarpinu sem fjalla um stjórnlagaþing sjálft, hvernig það eigi að vera og hvað það eigi að gera, en það eru átta blaðsíður sem fjalla um hvernig eigi að kjósa til þess, hvernig starfshættir stjórnlagaþingsins ætli að vera því að það á að setja reglur hér á þinginu um annað þing sem á að vinna allt annað verkefni en þetta þing virðist treysta sér til að gera, og þetta þing ætlar að skipa því þingi nákvæmlega fyrir verkum, hvernig það á að haga störfum sínum. Það eru ótrúlega flóknar kosningareglur sem eiga að gilda, þær eru mjög nákvæmlega settar fram hérna og allt vel um það. Það sem ég er að reyna að segja er að hugsunin er aðallega bundin við hvernig í dauðanum eigum við að rusla upp einhverju stjórnlagaþingi til að svara einhverju óljósu kalli um stjórnlagaþing, ekki hvað þetta stjórnlagaþing á að gera og hvernig við getum tryggt að það nái sem bestum árangri og að það séu eyru á þessu þingi sem nema vilja þjóðarinnar, sem nema skilaboðin frá þjóðinni og færa þau í letur inn í það grundvallarplagg í starfsemi þjóðarinnar sem stjórnarskrá á að vera.

Ég reiknaði með í upphafi þegar þetta frumvarp til laga kom til allsherjarnefndar að þetta væri a.m.k. byrjun sem hægt væri að vinna út frá og ná einhverri samstöðu um hvernig ætti að líta út að lokinni umfjöllun allsherjarnefndar. Eins og ég upplifði störf nefndarinnar var sú vinna á ágætu róli þar til að allt í einu glymur klukka og það verður uppi fótur og fit og það er ákveðið af meiri hlutanum að það sé ekki hægt að ná neinni lendingu. Ég held að minni hlutinn sé alveg sammála um að hægt sé að ná lendingu í þessu máli en meiri hlutinn er sammála sjálfum sér um það að engu tauti sé hægt að koma við minni hlutann og þess vegna keyrum við þetta bara í gegn. Lýðræðið eins og það verður ljótast í framan.

Það hafa komið fram margar hugmyndir um stjórnlagaþing og hvernig við eigum að setja okkur stjórnarskrá. Ég er sammála þeirri tillögu sem mér finnst skynsamlegust og þeirri hugmynd sem Njörður P. Njarðvík hefur talað fyrir, m.a. í grein í Fréttablaðinu. hugmynd, ef ég skil hana rétt, snýst ekki um að kjósa með átökum, kosningabaráttu, auglýsingum og þeim átökum sem því fylgja, einhverja nefnd, mjög stóra ritnefnd, 31 manns ritnefnd, til að vinna þetta verk. Sú hugmynd snýst um að við skulum halda raunverulegt stjórnlagaþing. Það fer þannig fram að fengin er til starfa nefnd manna til að vera ritnefnd að þessari nýju stjórnarskrá. Þessari nefnd er uppálagt að halda stjórnlagaþing alls staðar, úti um allt land, þar sem þjóðin getur komið saman. Þeir sem hafa áhuga á þessu máli geta komið, lagt sitt af mörkum, hver og einn, án þess að vera kosinn til þess, án þess að tala í umboði eins eða neins nema sínu eigin umboði. Það er lýðræði.

Kosningar eru dásamlegar en þær eru ekki lýðræðið með stórum staf. Þær eru hluti af lýðræðinu, þær eru aðferð til að ljúka deilum, til að skera á ágreining, til að skera úr. Maður kýs ekki um það hvernig hugmynd verður til. Það er ekki hægt með handauppréttingu að móta hugmynd, maður getur valið milli ólíkra hugmynda með kosningum. Hér er verið að setja kerruna fyrir framan hestinn. Það á fyrst að kjósa og svo á að móta hugmyndirnar í staðinn fyrir að safna saman hugmyndum, ritstýra þeim og kjósa síðan um árangurinn af þeirri vinnu.

Hér er verið að leggja til, eins og hv. þm. Ólöf Nordal sagði, að Alþingi Íslendinga setji á stofn eða feli þjóðinni að kjósa sér míní-Alþingi til að vinna það verk sem þingið hefur ekki getað lokið þótt það hafi haft til þess ærinn tíma. Þetta er áætlað í þessu frumvarpi að kosti 300 millj. kr. Ég hef engan rökstuðning séð fyrir þeirri tölu, ég held að engum sem talar um þetta detti í hug að nefna lægri tölu en 500 millj. kr. Hin raunverulega tala er að mínu mati örugglega hærri og ef þessari ófreskju verður sleppt lausri mun hún kosta okkur meira en 1.000 millj. kr. áður en hún hefur lokið störfum.

Af hverju í dauðanum að kosta öllu þessu til? Maður skrifar ekki texta, maður býr ekki til hugmyndir með stórvirkum vinnuvélum, þær þjóna sínum tilgangi en hugmyndavinna, textagerð, er ekki gerð með peningum og offorsi og þeim málatilbúnaði sem hér er uppi. Því er það von mín að þetta frumvarp verði kallað til baka milli 2. og 3. umr. til allsherjarnefndar til þess að fá þar þá vinnu, meðhöndlun og umhugsun sem hugmyndin um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá á skilið, að ég tali nú ekki um virðingu.

Ég ítreka að lýðræðislegasta aðferð til að halda stjórnlagaþing er að halda mörg þing um allt land sem væru öllum opin, þar sem allar hugmyndir geta komið fram. Þetta hafa meira að segja ólýðræðislegustu menn mannkynssögunnar skilið. „Leyfum þúsund blómum að blómstra“, sagði Maó formaður, sá armi þrjótur og illi einvaldur. Af hverju mega þúsund blóm ekki blómstra? Af hverju bara 25–31? Af hverju að safna saman 31 blómi þegar við getum öll skemmt okkur í blómabreiðu? Það að kjósa er lýðræðislegt en það er hvorki upphaf né endir lýðræðis. Við kunnum betri vinnuaðferðir en að kjósa, við kjósum t.d. ekki landslið í fótbolta, við felum ákveðnum aðila að velja það. Við eigum að gera okkur nýja stjórnarskrá, það er löngu tímabært, en sem betur fer erum við ekki að falla á tíma með það verkefni. Það kostar okkur ekkert að hugsa, það kostar okkur ekkert að doka við og reyna að skilja það ákall sem okkur hefur borist frá þjóðinni. Það kostar ekkert að leggja eyrað við jörðina.

Í umsögn frá Borgarahreyfingunni um þá tillögu sem ég lagði fram í allsherjarnefnd um að skipuð yrði utanþingsnefnd til að halda utan um vinnu við gerð nýrrar stjórnarskrár segir m.a., með leyfi forseta:

„Gerð nýrrar stjórnarskrár er afar mikilvægur þáttur í sjálfsskoðun og uppbyggingu þjóðfélagsins eftir hrunið og tilvalið tækifæri til að setja í gang umræðu um þær grunnstoðir og gildi sem við viljum sem þjóð miða okkur við. Að því gefnu að tilgangur nefndarinnar sé öðru fremur að skipuleggja fundi víða um land og taka við tillögum frá almenningi, aukast líkur á því að víðtæk sátt náist um tillögur að nýrri stjórnarskrá.“

Víðtæk sátt, er það ekki það sem þetta blæðandi þjóðfélag okkar vantar? Það er mín skoðun. Mín skoðun er sú að við eigum að leita að víðtækri sátt, að við eigum að reyna að skilja eðli lýðræðisins og vinna í anda þess, einkum og sér í lagi þegar kemur að því sem á að vera sameiginlegur grundvöllur þjóðfélags sem verður kannski ekki mitt þjóðfélag til lengdar en þjóðfélag barna minna, barnabarna og afkomenda og þá vil ég að þau búi í þjóðfélagi sem er samkomulag allrar þjóðarinnar, allra stjórnmálaflokka, en ekki bara hugarsmíð eða draumur æðstu manna í Samfylkingu og Vinstri grænum.