138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:33]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni andsvarið. Það er alveg rétt að það er til bóta. Með fullri virðingu fyrir forsætisráðherra þá er ekki æskilegt að ein manneskja hafi yfirumsjón með stjórnlagaþingi og ráði eins miklu og gert var ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi. (MÁ: Hvað eru margar manneskjur í forsætisnefnd?) Það eru níu manneskjur í forsætisnefnd, hv. þm. Mörður Árnason. (Gripið fram í.) Vera mín í forsætisnefnd sem áheyrnarfulltrúi sannfærir mig ekki um að forsætisnefnd muni skila sérstaklega góðu verki þar að lútandi, með fullri virðingu fyrir henni. Ég hefði talið eðlilegra að stjórnlagaþingið sjálft færi einfaldlega með þessi völd. Eins og ég sagði áðan, Alþingi er hér sjálft að stýra vinnu stjórnlagaþingsins sem verður þjóðkjörið. Þjóðkjörið þing á að hafa sjálfdæmi, finnst mér. Ég tel að það sé bara eðlilegur framgangur mála.

Það gengur ekki að forsætisnefnd Alþingis fundi út og suður um hvað stjórnlagaþingið eigi að gera og ákveða hitt og þetta um framgang mála þar. Ég er ekki mótfallinn breytingunni sem slíkri heldur tel ég að verkefnið ætti frekar að flytjast til stjórnlagaþingsins en til forsætisnefndar Alþingis. Ég segi ekki að ég vari við breytingunni, en hún er ekkert endilega til bóta.