138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:39]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Virðulegi forseti. Ein af kröfum fólksins eftir hrunið var svokallað stjórnlagaþing — þing fólksins þar sem sett yrði saman ný stjórnarskrá, lagður grunnur að nýju Íslandi. Slíku stjórnlagaþingi var lofað fyrir síðustu kosningar og biðin hefur verið löng.

Stjórnarskráin geymir æðstu lög landsins, grunnlögin okkar. Við fengum hana að gjöf frá kónginum okkar þáverandi, Kristjáni IX., árið 1874. Ísland var nefnilega nýlenda Dana.

Fyrir margt löngu stundaði ég nám í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Þar kynntist ég svokölluðum eftirlendufræðum eða „post-colonial studies“ eins og þau fræði kallast á útlensku. Samkvæmt þeim kenningum eiga þjóðir sem hafa verið nýlendur annarra þjóða ýmislegt sameiginlegt. Við skoðuðum þó ekki Ísland eða íslenskar bókmenntir í ljósi þessara kenninga, heldur rýndum í ástralskar bókmenntir og nýsjálenskar. Við mátuðum meira að segja kenningarnar við Bandaríkin og Kanada og fleiri lönd, en þó ekki Ísland. Ísland var auðvitað best í heimi, hafði svo mikla sérstöðu og hér á landi höfðu málin þróast með öðrum hætti. Hver kannast ekki við þessa möntru? Ef við bara endurtökum hana nægilega oft hlýtur hún að verða sönn. Og hún virkaði lengi vel.

Við fall fjármálakerfisins kom þó annað í ljós. Samfélagið sem við héldum að væri í lagi — mælingar hér sýndu lágmarksspillingu svo dæmi sé tekið — var það ekki. Við vitum nú, þökk sé skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að allir sem áttu að gæta hagsmuna okkar brugðust. Þingið brást. Eftirlitsstofnanirnar brugðust, stjórnsýslan brást.

Frú forseti. Við horfum upp á það að allt kerfið sem við höfum lagt upp með og byggt á, er ónýtt. Við verðum að leyfa okkur að byrja upp á nýtt með hreint borð. Það er ekki hægt að byggja nýtt Ísland úr fúnum spýtum. Við verðum að fara að spyrja okkur hver við séum og hvernig þjóðfélag við viljum.

Frú forseti. Við erum ekki 19. aldar Danir. Sú stjórnarskrá sem við búum við skiptir fæst okkar máli. Við fengum hana að gjöf eins og áður sagði. Börnin okkar læra ekki um hana í skólum og fæstir hafa lesið hana. Við, gamla nýlenduþjóðin, höfum aldrei farið í þá vinnu að ákveða hverjar grunnstoðir samfélagsins eiga að vera. Við tókum það sem að okkur var rétt og settum upp styttu af kónginum með stjórnarskrána fyrir framan Stjórnarráðið. En hvernig á stjórnarskráin okkar að vera?

Sú umræða verður að fara fram á breiðum vettvangi þar sem allir landsmenn eiga þess kost að koma saman að borðinu. Það verður ekki gert á lokuðu stjórnlagaþingi örfárra fulltrúa. Umræðan verður að koma úr grasrótinni, frá fólkinu í landinu og vera samþykkt af fólkinu í landinu. Þjóðin á ekki og má ekki vera bara ráðgefandi. Við verðum að tryggja að á hana sé hlustað. Það verður að vera krafa okkar að væntanleg stjórnarskrá verði borin undir þjóðina, lið fyrir lið, áður en hún kemur til lokaatkvæðagreiðslu Alþingis. Þjóðin verður að fá að segja sína skoðun í byrjun og allt til loka. Og nýja stjórnarskráin, grunnlögin okkar, sem einhvern tímann fæðast, undirstaðan að því sem við ætlum að byggja framtíð okkar á, verður að vera okkur hjartfólgin.

Frú forseti. Í mínum huga skiptir meginmáli að við sem þjóð leggjum í þennan leiðangur saman, horfumst í augu hvert við annað og komum okkur saman um í hvernig þjóðfélagi við viljum búa. Ástæðan er ekki bara sú að gamla stjórnarskráin sé ómöguleg, það er ekki endilega svo. Kannski hefur hún staðist tímans tönn ágætlega, en hún er ekki okkar. Hún er ekki afrakstur þjóðarinnar. Hún er ekki leiðarvísir okkar í rétta átt. Því kalla ég eftir stjórnlagaþingi fólksins í landinu, stjórnlagaþingi sem öllum íslenskum þegnum finnst koma sér við.

Við fáum bara þetta eina tækifæri til að eiga þetta samtal, landsmenn allir. Gerum þetta vel og göngum alla leið.