138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir ágæta ræðu, sem um margt endurspeglar sjónarmið sem við heyrum víða í samfélaginu, sérstaklega um að nauðsynlegt sé að ná fram víðtækri sátt og að þjóðin sé sátt við stjórnarskrána sína og að sem víðtækust samstaða sé um hana.

Ég velti fyrir mér sömu spurningu eiginlega og ég spurði hv. þm. Þór Saari áðan. Ef við lítum á stöðu okkar nú með þeim hætti að við séum að hefja ferlið við endurskoðun stjórnarskrár, þá gæti það verið ákveðin nálgun að byrja á breytingum sem hugsanlega gætu falið í sér að einfalda ferlið við að samþykkja breytingar á stjórnarskrá, og auka hlutdeild almennings í þeirri ákvarðanatöku, t.d. með því að gera það að skilyrði að niðurstöðu stjórnarskrárbreytinga skuli bera undir þjóðaratkvæði. Í framhaldi yrði síðan farið í þá vinnu sem lýtur að breytingum á einstökum atriðum í stjórnarskránni, með það að markmiði að taka fyrst úr vegi ákveðna hindrun sem vissulega er nú fyrir hendi með því þunglamalega fyrirkomulagi sem tengist stjórnarskrárbreytingum. Þá mætti ef til vill ná meiri tíma, meiri sátt og aukinni aðkomu almennings að endanlegri niðurstöðu varðandi stjórnarskrárbreytingar.