138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[20:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir erum ekki sammála um alla hluti er varða stjórnlagaþing og nálgun okkar og flokka okkar er með ýmsum hætti ólík. Mér hefur þó þótt að í störfum nefndarinnar gætum við fundið fleti á því að ná samstöðu um ákveðin atriði í þessu sambandi.

Ég vil spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvort hún telur, eins og ég, að miðað við afgreiðslu allsherjarnefndar séum við hér á Alþingi talsvert fjær því að ná nokkru samkomulagi um þessar breytingar en við vorum þegar við komum til þings í haust. Það er mín upplifun, hæstv. forseti, að stífni stjórnarflokkanna í þessu máli — eftir umræður í allsherjarnefnd sem vissulega hafa verið ágætar og fínar á köflum — hafi endað í útfærslu sem er svo til hin sama og var í upphaflegu frumvarpi forsætisráðherra. Tilraunir til að auka samkomulag eða samstöðu hafa ekki náð neitt lengra.

Ég vil því spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvort við séum hugsanlega í þeirri stöðu að enn meira ósætti sé hér á þingi nú á vordögum 2010 en þegar þingið kom saman haustið 2009. Ég vil líka spyrja hvort hún telji það góðan aðdraganda að því að ná samstöðu meðal þjóðarinnar (Forseti hringir.) um breytingar á stjórnarskrá.