138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[20:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stjórnlagaþing, mál sem í breyttu formi er lagt fram á þessu þingi en við ræddum svo dögum skipti á vorþinginu 2009. Þá vorum við sjálfstæðismenn og -konur í mikilli andstöðu við þær hugmyndir sem þar komu fram en tefldum fram öðrum hugmyndum um hvernig standa ætti að setningu nýrrar stjórnarskrár eða miklu frekar breytingum á þeirri stjórnarskrá sem við höfum. Við héldum þá á lofti afar mikilvægu sjónarmiði sem er það að við gerum ekki breytingar á stjórnarskránni í ágreiningi á þinginu. Það hefur aldrei tíðkast. Við höfum haft það sem meginreglu að sum mál eru ekki afgreidd í ágreiningi milli flokka. Hér erum við með mál þar sem enginn flokkur gerir ágreining um að þörf sé á breytingum. Það er þörf á tiltekt í stjórnarskránni, það er þörf á að ræða nokkra kafla hennar og ýmsar greinar.

Við þekkjum stjórnarkreppuna sem kom upp hér árið 2004 í tilefni af synjun forseta Íslands á staðfestingu laga um fjölmiðla. Það kallaði fram ákveðna krísu í þjóðfélaginu sem er auðvitað ekki við búandi. Í kjölfarið urðu menn sammála um að taka þyrfti til endurskoðunar t.d. kaflann um forseta Íslands og skýra betur ýmis ákvæði þar, leiða inn í stjórnarskrána ný ákvæði t.d. um beina aðkomu þjóðarinnar að endanlegri ákvörðun um ýmis mál.

Við þekkjum líka sjónarmiðin um frumkvæðisrétt þjóðarinnar til að fá ákveðin mál tekin á dagskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var mjög lifandi og lífleg umræða um þá þætti upp úr árinu 2004 og á árinu 2005. Síðan tók stjórnarskrárnefndin til starfa og ég tók sæti í henni um tíma, eftir breytingar í ríkisstjórn þurfti að skipa sæti í nefndinni sem ég fyllti og tók þannig þátt í því starfi sem stjórnarskrárnefnd innti af hendi. Það var mjög áberandi í störfum nefndarinnar að fulltrúar þeirra flokka sem voru í minni hluta á árinu 2004 voru þar með mjög ákveðin markmið í huga, t.d. það að standa mjög stíft vörð um 26. gr. stjórnarskrárinnar og rétt forseta Íslands til að senda mál til þjóðarinnar þegar svokölluð gjá hefði myndast á milli þings og þjóðar. Dálítið annað hljóð kom í strokkinn núna í upphafi þessa árs þegar sami forseti gerði sama hlut, en sömu aðilar og ég var að vísa til að höfðu ákveðnar skoðanir á málinu árið 2004, skiptu skyndilega um skoðun og töldu nú að forsetinn ætti alls ekki að beita þessu ákvæði með þeim hætti sem hann gerði í fyrstu viku janúarmánaðar þessa árs.

Það var einkennandi fyrir starfið í stjórnarskrárnefndinni á sínum tíma að því miður féll endurskoðunin að hluta til í þennan pólitíska farveg. Ég segi því miður vegna þess að menn náðu ekki að hefja sig upp úr pólitískum skotgröfum. Að þessu leyti til fór umræðan um þörfina fyrir endurskoðun á kaflanum um forsetaembættið á vissan hátt fram í skugga þess sem þá hafði tiltölulega nýlega gerst. Það var sjónarmið okkar í Sjálfstæðisflokknum, svo ég ljúki þessari umræðu um 26. gr. og þjóðaratkvæðagreiðslurnar, að fella bæri niður 26. gr. stjórnarskrárinnar og koma þessum rétti fyrir með öðrum hætti í stjórnarskránni. Það er bæði hægt að gera með því að tiltekið hlutfall þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál, líkt og t.d. á við í dönsku stjórnarskránni, en einnig er hægt að búa þannig um hnútana að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðargildi laga sem stafa frá þinginu.

Í sjálfu sér erum við ekki með fyrir framan okkur mál þar sem fjallað er nákvæmlega um hvað beri að taka til skoðunar en þó liggur það fyrir samkvæmt frumvarpinu að það virðist vera gengið út frá því að viðfangsefnið, eins og það er orðað í 3. gr. frumvarpsins, sé býsna opið og almennt og ekki minna en það að taka eigi til sérstakrar umfjöllunar t.d. undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök stjórnskipunarinnar. Hér þykir vera þörf á að fara yfir skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ræða á stöðu og hlutverk forseta lýðveldisins — ég held að það sé mjög brýnt að gera það. Sjálfstæði dómstóla og eftirlit með öðrum handhöfum ríkisvalds — ekki hefur staðið á því hjá ríkisstjórninni að hafa skoðun á endurskoðun stjórnarskrárinnar. Við höfum fengið inn í þingið til meðferðar frumvörp um það með hvaða hætti betur sé hægt að tryggja sjálfstæði dómstólanna. Síðan eru taldir upp fleiri þættir undir 5. og 6. lið 3. gr. eins og ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan og lýðræðislega þátttöku almennings.

Það sem ég vildi benda á með þessu er að hér er einfaldlega verið að velta öllu yfir í fang stjórnlagaþingsins. Og hvernig á að skipa til þessa stjórnlagaþings? Stjórnlagaþingið á að vera fulltrúaþing og í grundvallaratriðum kosið til þess með svipuðum hætti og kosið er til Alþingis Íslendinga, þó að nokkuð aðrar reglur gildi, t.d. um vægi atkvæða og þess háttar. Á endanum verður þetta bara fulltrúaþing, við verðum með úrtak af þjóðinni, alveg eins og Alþingi er fulltrúaþing. Og það sem meira er, Alþingi er samkvæmt gildandi stjórnarskrá löggjafarvaldið. Það er Alþingis að endurskoða ákvæði stjórnarskrárinnar og sú staðreynd leiðir auðvitað til þess að í þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir öðru en að stjórnlagaþingið sé ráðgefandi vegna þess að ekki eru stjórnarskrárheimildir til að ganga neitt lengra.

Það sem ég er að segja með þessu er að ég held að það vinnist mjög lítið, við höfum enga tryggingu fyrir því í sjálfu sér að þeir fulltrúar sem munu veljast til stjórnlagaþingsins verði á nokkurn hátt betur til þess fallnir að skoða stjórnarskrána en þeir sem hafa gefið kost á sér til setu á þinginu og sitja á Alþingi í dag, ýmist fulltrúar flokka eða hreyfinga. (Gripið fram í.) Nei, ég vil nú ekki taka undir með hv. þingmanni sem kallar hér fram í, en aðalatriðið er að það er enginn grundvallarmunur á þessu tvennu. Við gætum hins vegar fellt málið í dálítið annan farveg og tryggt það að við fengjum ráðgjöf frá helstu sérfræðingum okkar með því að fara þá leið sem 1. minni hluti allsherjarnefndar leggur til og er í þeim anda sem Sjálfstæðisflokkurinn talaði fyrir við umræðuna á vormánuðum 2009, þ.e. að við kæmum okkur saman um að kjósa með hlutfallskosningu tíu manna nefnd sérfræðinga sem færi yfir þá þætti stjórnarskrárinnar sem við vildum taka til sérstakrar endurskoðunar. Við megum ekki gleyma því að tiltölulega nýlega hafa ákveðnir kaflar hennar verið endurskoðaðir.

Mig langar til að taka til sérstakrar umræðu þann þátt málsins sem lýtur að lýðræðislegri þátttöku almennings og ákvæðum um kosningar og kjördæmaskipan. Hvers vegna telja flutningsmenn þessa frumvarps og stuðningsmenn að við þingmenn getum ekki komið okkur saman um að hefja endurskoðun eða vinnu við að meta möguleika til að tryggja beina aðkomu íbúa sveitarfélaganna eða beina aðkomu kjósenda í landinu að málum sem við tökum til ákvörðunar hér? Og um leið að meta kosti og galla síðustu breytinga á kjördæmaskipaninni og kosningalögunum, taka saman yfirlit yfir það sem best hefur reynst annars staðar og bera saman kosningakerfi okkar og kjördæmaskipan við það sem þar gerist. Hvað hefur breyst frá því áður þegar þurft hefur að endurskoða stjórnarskrána og ýmsa slíka þætti þar til í dag? Hvers vegna treysta menn ekki þinginu til að leiða þetta mál til lykta? Þingið er jú einu sinni eini aðilinn sem er til þess bær að leiða málið til lykta.

Ég tek eftir því að meiri hluti allsherjarnefndar vill t.d. í breytingartillögum sínum fella út hluta af 27. gr. frumvarpsins sem fjallar um hvernig fara eigi með það ef stjórnlagaþingið sjálft er ekki einhuga um tillögur sínar. Meiri hluti allsherjarnefndar segir: Nei, það má ekki vera þannig, við tökum einungis við tillögum til Alþingis ef stjórnlagaþingið er einhuga um niðurstöðuna. Þingið verður því væntanlega að sitja þar til það hefur talað sig niður á eina niðurstöðu.

Ef menn treysta stjórnlagaþingi sem kosið er með sambærilegum hætti og við sem hér sitjum sem fulltrúar þjóðarinnar til að komast að einhuga niðurstöðu, hvers vegna ættum við ekki að geta gert það hér? Hvers vegna í ósköpunum? Hvers vegna förum við ekki þá leið sem 1. minni hluti, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, tala fyrir hér, að taka frá sérstakar vinnulotur á þinginu til að fara sérstaklega ofan í stjórnarskrármálið? Ég vil meina að fyrir utan það sem ég hef rakið hér um hlutverk forsetans og það hvernig umræðan þróaðist í stjórnarskrárnefndinni sem ég sat í um hlutverk forsetans hafi vinnan gengið ágætlega. Það má t.d. sjá af þeirri áfangaskýrslu sem nefndin gaf út að þar hafði heilmikil undirbúningsvinna farið fram, þar hafði sagan og þróun stjórnarskrárinnar fengið ágætisumfjöllun, þar höfðu verið móttekin erindi. Stjórnarskrárnefndin, sem skipuð var fulltrúum frá flokkunum, starfaði í raun og veru með nákvæmlega sama hætti og hugmyndin er að stjórnlagaþingið geri, þ.e. leitað var eftir sjónarmiðum almennings, sett var upp vefsíða, það gátu allir fylgst með því sem var að gerast á fundum nefndarinnar. Haldin voru málþing, málþingin voru sett upp með þeim hætti að til okkar komu sérfræðingar, fyrst og fremst úr háskólaumhverfinu og aðrir sem þóttu hafa eitthvað fram að færa um þau málefni sem voru til umfjöllunar á hverju málþingi fyrir sig. Í framhaldinu hefðu tillögur stjórnarskrárnefndarinnar að sjálfsögðu komið til þingsins þar sem þinghaldið hefði verið haldið fyrir opnum tjöldum. Allt er þetta með sama hætti og hugmyndin er að stjórnlagaþing hagi hlutunum, þar er mikið lagt upp úr því að samráð verði haft við almenning. Þannig höfðum við það þegar við vorum að endurskoða stjórnarskrána. Hér er lagt mikið upp úr því að þinghaldið fari fram fyrir opnum tjöldum. Þannig er það hjá okkur á Alþingi sem mun hvort eð er á endanum taka málið til skoðunar.

Mér finnst sem menn hafi lagt árar í bát, gefist upp á samráðinu, gefist upp á því að vinna verkið í því samráði sem menn hafa getað leitt fram breytingar á stjórnarskránni fram til þessa, eins og til að mynda um mannréttindakaflann og um aðra þá þætti sem síðast hafa verið teknir til breytinga. Við urðum t.d. í öllum meginatriðum sátt við breytingar á kjördæmaskipaninni, það var svo sem ekki full sátt um það á þinginu en það tókst nokkuð breið samstaða um þær breytingar sem þá voru gerðar. Það voru miklar grundvallarbreytingar. Þær fólu t.d. í sér að í fyrsta sinn var vægi þeirra kjördæma sem liggja í höfuðborginni eða nærri henni, höfuðborgarkjördæmin tvö, Reykjavík norður og suður og Suðvesturkjördæmi, þannig að þaðan kom meiri hluti þingmanna. Það var mjög mikil og veigamikil breyting. Önnur breyting sem þar var leidd inn í stjórnarskrá var stækkun kjördæmanna. Ég held að það sé í raun alveg órætt á þinginu hvernig þar hefur tekist til. Mín tilfinning er sú að þingmenn hafi fjarlægst kjósendur of mikið með þeirri breytingu, það er upplifun mín af samtölum við fólk úti í þessum stóru kjördæmum að það sé óánægt með síðustu kjördæmabreytingu hvað þetta snertir. Ég tala nú ekki um hversu óánægðir margir þingmenn í þessum landsbyggðarkjördæmum eru sem sumir hverjir aka upp undir 60.000 km á ári til að komast yfir kjördæmið. Menn ættu bara að taka það saman hve langan tíma þeir sitja undir stýri á árinu.

Þarna eru ýmsir gallar en það er ekkert kerfi fullkomið í þessu. Ég átti samtal við þingmann frá Írlandi fyrir skemmstu þegar ég var á vegum þingsins úti á Spáni. Írar eru með mjög áhugavert kerfi hjá sér sem er mjög frábrugðið okkar. Þar er persónukjör til þingsins og fjögurra manna kjördæmi, þ.e. minni kjördæmin en þó í kringum 100 þúsund kjósendur í hverju kjördæmi hjá þeim, fjórir þingmenn í hverju kjördæmi. Hann var mjög upptekinn af því að koma því til skila til mín að persónukjörið hefði þann mikla ókost í för með sér, sem hann var mjög óhress með, að prófkjörsbaráttan eins og við þekkjum hana á Íslandi er leidd þar fram í raun og veru í kosningunum sjálfum. Það var reyndar mjög athyglisvert að heyra þennan þingmann lýsa því að einn gallinn sem menn telja vera á því að hafa þessa miklu nálægð með persónukjörinu er sá að þar hefur umræðan, á Írlandi, orðið um það að menn hafi um of verið að elta sérhagsmuni í þessum smáu kjördæmum á kostnað heildarhagsmuna þjóðarinnar. Þannig hafi þeir mögulega ratað í ýmsar ógöngur í efnahagsmálum sínum sem ekki hefðu komið til ef menn hefðu haft heildarhagsmunina meira að leiðarljósi.

Þetta eru mjög áhugaverðar umræður og þær eiga heima hér í þingsölum. Mér finnst við ekki hafa gefið okkur nægan tíma til að velta þessu fyrir okkur. Það hefur í rauninni aldrei, a.m.k. það ár sem ég hef verið formaður í Sjálfstæðisflokknum, verið komið að máli við mig og látið á það reyna hvort við værum tilbúin til að ýta af stað sameiginlega með öðrum flokkum einhverri skoðun á t.d. þeim þáttum sem varða lýðræðisumbætur í landinu. Ég vil þó taka það fram að ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn standi fremst allra flokka í því að virkja lýðræðið. Enginn annar flokkur hefur t.d. treyst kjósendum jafnrækilega fyrir því að raða upp listum og Sjálfstæðisflokkurinn. Hvaða annar flokkur hefur fleiri kjósendur að baki þeim listum sem stillt er fram til þingkosninga eða til borgarstjórnarkosninga en Sjálfstæðisflokkurinn? Við höfum núna nýlega dæmi um flokka sem treysta fólkinu, t.d. í borginni síðast í borgarstjórnarkosningunum, bara ekki yfir höfuð til að hafa skoðun á því hverjir eiga að vera í framboði. Og síðan í framhaldi af því að engum er treyst, þá er stillt fram lista þar sem meira en helming kjósenda þarf til að gera eina einustu breytingu. Ég veit ekki hversu lýðræðislegt mönnum þykir þetta vera. Við höfum í Sjálfstæðisflokknum verið mjög áfram um það að treysta fólki til að taka ákvarðanir með okkur.

Ég vil undirstrika það í þessari umræðu að ég er mjög áfram um að halda áfram þróun lýðræðisins á Íslandi. Ég er tilbúinn til að ræða alla þá þætti sem hér á að senda til stjórnlagaþings, fulltrúaþings sem starfar með sama hætti og við gerum hér. Ég tel að menn hafi allt of snemma gefist upp á samvinnunni um það verkefni sem stjórnarskráin felur okkur þingmönnum. Ég tel að hér sé verið að kosta of miklu til. Ég tel að þetta sé enn eitt dæmið um að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur æðir fram í grundvallarmáli án eðlilegs samráðs. Það eru viss mál hvarvetna á þjóðþingunum í kringum okkur sem er óumdeilt að menn eiga að leiða fram í sátt og samlyndi og reyna til hins ýtrasta að ná sameiginlegri niðurstöðu um. Varnar- og öryggismál eru meðal slíkra mála, breytingar á stjórnarskránni eru augljóslega líka meðal slíkra mála. Það er ekki gert í því máli sem við erum hér með til umfjöllunar og það ber að harma. Við sjáum það meira að segja á umræðunni sem farið hefur fram í dag að hér hafa talað fulltrúar frá a.m.k. þremur flokkum sem taka ekki undir hugmyndirnar sem þetta frumvarp byggir á. Ég vil líka láta þess getið fyrst hér segir í greinargerð með frumvarpinu að það hafi verið unnið í samráði við alla flokka, að ég get ekki tekið undir það að mikið samráð hafi verið haft við mig eða minn flokk um samningu þessa frumvarps og það er á engan hátt hægt að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn standi að því.