138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:00]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei verið til umræðu um bindandi stjórnlagaþing. Það áttuðum við okkur vel á í umræðunum þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór hér í gríðarlegt málþóf fyrir kosningar og hindraði það að hægt væri að koma í gegn bindandi stjórnlagaþingi. Nú er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki heldur ráðgefandi stjórnlagaþing, hann vill nota gömlu aðferðina að setja niður nefnd, hún á að fara um landið og hitta aðrar eins og síðasta nefnd gerði. Hún var með vefsíðu eins og kom fram hjá hv. þingmanni og hélt málþing o.s.frv. Þetta er bara gamla aðferðin sem Sjálfstæðisflokkurinn býður hér upp á. En sagan kennir okkur að sú aðferð virkar ekki, gera þarf stærri breytingar á stjórnarskránni en sú aðferð býður upp á. Við hefðum átt að vera búin að gefast upp á þeirri umræðu fyrir löngu síðan að hafa stjórnarskrárbreytingar í því ferli sem þær eru. Við verðum að brjóta okkur út úr þessu ferli, virðulegur forseti.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að stjórnarskráin heimilar okkur ekki eins og hún er núna að fara í bindandi stjórnlagaþing. Eins og staðan er í dag er þess vegna ekki um annað að ræða en að fara í ráðgefandi stjórnlagaþing. Maður verður að sætta sig við það, þó að maður hefði helst viljað bindandi stjórnlagaþing. Það er ekki hægt, það er bara hinn kaldi raunveruleiki. Því er þetta það skásta sem hægt er að bjóða upp á og reyndar getur þetta orðið gott ef við stöndum vel að því.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hann sagði að það væri grundvallaratriði að ekki yrði farið í stjórnarskrárbreytingar nema í sátt milli stjórnmálaflokka, mér heyrðist hann segja þetta og því vil ég spyrja hv. þingmann: Hvað á hv. þingmaður við? Er hægt að gera þá kröfu að ekki verði gerðar stjórnarskrárbreytingar nema hver einasti flokkur fallist á breytingarnar? Er það ekki eitthvað (Forseti hringir.) sem er óraunverulegt að halda fram?