138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns er ég einfaldlega að vísa til þess að menn tefli ekki fram frumvarpi á þinginu um breytingar á stjórnarskránni, á grundvallarlöggjöfinni, án þess að hafa gert a.m.k. tilraun til þess að eiga um það samráð við þá flokka sem eiga fulltrúa á þinginu, ég er einfaldlega að vísa til þess. Auðvitað er það ekki þannig að það verði engar breytingar gerðar á stjórnarskránni frekar en öðrum lögum án þess að það sé gert einróma hér á þinginu. Það liggur alveg fyrir að samkvæmt þeim reglum sem um þau efni gilda dugar meiri hluti greiddra atkvæða enda rakti ég í ræðu minni dæmi þess að mál hefðu verið afgreidd til breytinga á stjórnarskránni án þess að allir væru á eitt sáttir hér í þingsölum.

Vilji menn leiða fram breytingar á grundvallarlöggjöfinni eiga menn að leita sátta áður en slík frumvörp eru samin. Sú ríkisstjórn sem núna situr og sat hér fyrir síðustu kosningar með stuðningi Framsóknarflokksins óð fram með stjórnarskrárbreytingar í miðju hruninu, reyndi að selja þá hugmynd að ástæða þess að hér hefði allt hrunið til grunna hefði verið stjórnarskráin. Hvar er það aftur í rannsóknarskýrslunni, í hvaða kafla er það aftur sem rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að ástæða hrunsins væri léleg stjórnarskrá? Getur einhver bent mér á það, vinsamlegast? (Gripið fram í: Ónýtt stjórnkerfi.) Stjórnkerfið á Íslandi er ekkert ónýtt, það er bara langt frá því. Og fyrst hér var látið að því liggja að fyrri stjórnarskrárnefnd, sem starfaði á árunum eftir kosningarnar 2007, hefði ekki komið neinu í verk bendir áfangaskýrslan að sjálfsögðu til annars og það sem gerðist í störfum þeirrar nefndar var einfaldlega efnahagshrunið, hér var kosið að nýju. Það gafst auðvitað aldrei tóm til þess að klára þá vinnu og það stóð til eftir kosningarnar 2007 að endurvekja starf stjórnarskrárnefndarinnar og halda þeirri ágætu vinnu áfram sem byggði á áfangaskýrslunni sem (Forseti hringir.) skilað var snemma á árinu 2007 fyrir kosningarnar. Ég vil bara minna á að við lögðum til (Forseti hringir.) breytingar á 79. gr.